Evrópskt efnahagssvæði

6. fundur
Mánudaginn 24. ágúst 1992, kl. 17:07:38 (36)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
    Virðulegur forseti. Áður en ég hef mál mitt verð ég að láta það koma fram að ég treysti mér ekki til að lofa því að ég geti lokið því fyrir kl. 6 og veit raunar ekki hversu mikið fram yfir kl. 6 mál mitt mun taka, en það verður þá að metast af forseta á þeirri stundu hvort ég eigi að halda áfram eða fresta máli mínu til morguns.
    Það mál sem hér er hafin umræða um er án efa eitt umfangsmesta og afdrifaríkasta mál sem Alþingi Íslendinga hefur haft til umfjöllunar um langt árabil. Þetta hefur raunar komið fram hjá öllum þeim sem hafa talað á undan mér. Um þetta eru ekki skiptar skoðanir.
    Það sem fyrir okkur þingmönnum liggur er að kynna okkur, rökræða og rannsaka og síðan samþykkja eða synja milliríkjasamningi sem er viðameiri og flóknari en aðrir slíkir sem gerðir hafa verið í sögu íslenska lýðveldisins. Verkefnið sem okkur þingmönnum er ætlað að vinna er stórt og tíminn sem okkur er skammtaður til þess er naumur, reyndar allt of naumur miðað við alvöru málsins. Það sem fyrir okkur liggur er að taka afstöðu sem þarf bæði að standast dóm samvisku okkar og sögunnar. Á því er nefnilega enginn vafi að afstaða okkar í þessu máli mun verða skráð á spjöld sögunnar þótt flest annað sem við gerum hér á hinu háa Alþingi falli í gleymskunnar dá.
    Þegar hæstv. utanrrh. flutti þingheimi boðskap sinn sl. fimmtudag var hann því án efa að tala fyrir stærsta máli sem mun koma til hans kasta á ferli hans sem utanrrh. Í þessa ræðu munu sagnfræðingar framtíðarinnar leita þegar þeir reyna að átta sig á þeim ágreiningi sem uppi er um aðildina að hinu Evrópska efnahagssvæði. En hvaða pólitísku hugmyndir munu þeir finna í ræðu hæstv. utanrrh.? Hvaða framtíðarsýn munu þeir finna þar, hvaða markmið? Þeir munu fljótlega átta sig á því að árið 1992 var svo komið fyrir Alþýðuflokknum --- Jafnaðarmannaflokki Íslands að forusta hans hafði gert fyrrum formann Sjálfstfl., Bjarna Benediktsson, að leiðtoga lífs síns. Til hans vitnaði formaður Alþfl. í öðru orðinu og til sameiningartákns íslensku þjóðarinnar, Jóns Sigurðssonar forseta, í hinu. Nöfn gamalla forvígismanna jöfnuðar og jafnréttis voru víðs fjarri góðu gamni. Þeir munu líka átta sig á því að árið 1992 var svo komið að forusta Alþfl. hafði engar pólitískar hugmyndir fram að færa, bara lummulegar og útjaskaðar spælingar, sóttar í ófrjótt dægurþras stjórnmálanna. Það er ekki hátt risið á slíkri pólitík né heldur metnaðarfullir menn sem hana bera fram.
    Með afstöðu okkar til EES-samningsins erum við þingmenn gerendur í mjög mikilvægum málum. Nú er það okkar að skynja og meta hvort hagsmunum Íslendinga sé betur borgið innan ramma þjóðríkisins frá 1918 eða með því að flytja hluta af valdi þess til fjölþjóðlegra stofnana í Evrópu. Í augum margra liggur svarið í augum uppi. Sumir segja að íslensk þjóð megi aldrei selja nokkurt vald úr landi því þá sé þess skammt að bíða að hún glati frelsi sínu og ráði ekki lengur örlögum sínum. Óskert fullveldi sé forsenda sjálfstæðis og velsældar. Aðrir halda því fram að fullveldishugtakið hafi glatað merkingu sinni og hagsmunir þjóða séu svo samofnir að þeirra verði ekki lengur gætt nema með því að framselja vald til sameiginlegra stofnana. Forsenda friðar og velsældar sé aukinn samruni þjóðríkja. Báðir þessir hópar hafa nokkuð til síns máls en þó eru fleiri fletir á málinu en þeir vilja vera láta.
    Ef við lítum í kringum okkur í heiminum í dag þá blasir við okkur að þau ríki, sem búa við mesta hagsæld, jöfnuð og jafnrétti, eiga það öll sameiginlegt að lýðræðið stendur þar föstum fótum, þar hefur verið blandað hagkerfi og þar er þjóðríkið tiltölulega sterkt. Norðurlöndin eru kannski besta dæmið um þetta. Þó að ég sé þeirrar skoðunar að þjóðríkið sé ekkert markmið í sjálfu sér, það sé sögulegt fyrirbæri og þar af leiðandi ekki óumbreytanlegt stjórnkerfi, þá verðum við engu að síður að fara varlega í að skerða fullveldi þess. Ástæðan er einfaldlega sú að við höfum enn ekki dottið ofan á neitt annað stjórnkerfi sem er þess umkomið að tryggja þeim sem undir það heyra sambærileg lífsgæði. Enn sem komið er er öryggi og velferð þegnanna best tryggt með þrískiptingu valdsins hjá ákveðnum og vel afmörkuðum yfirvöldum. Evrópubandalagið og jafnvel enn frekar Evrópska efnahagssvæðið riðlar þessari skiptingu, flækir stjórnkerfið og dregur úr lýðræði.
    Góður og gegn finnskur sósíaldemókrati og sagnfræðingur, sem á sæti í þingmannanefnd EFTA, sagði á fundi nefndarinnar nýlega að kjarninn í samrunanum í Evrópu væri sá að markaðsöflin væru að yfirtaka fullveldi þjóðríkisins og deila því aftur niður á yfirþjóðlegar stofnanir annars vegar og svæðabundin samtök og sveitarfélög hins vegar.
    Segja má að þessi þróun hafi í raun verið staðfest með Maastricht-samkomulaginu sem miðar einmitt að því að gera EB að pólitískri einingu með því að afnema því sem næst neitunarvald einstakra ríkja og koma á skuldbindandi samstarfi á fleiri sviðum en áður, svo sem utanríkis- og varnarmálum. Það sem byrjaði sem samvinna sex ríkja á sviði verslunar og viðskipta er nú á góðri leið með að verða að pólitískri einingu, tólf til tuttugu ríkja --- hver veit hversu mörg þau verða innan tíðar.
    Í raun má segja að þetta sé ekki óeðlileg þróun. Þegar markaðurinn er orðinn einn og efnahagssamvinnan mjög náin skapast þörf fyrir að koma á pólitískri byggingu sem hentar henni. Eftir atvikum ætla menn svo að nota þessa pólitísku byggingu til að tryggja að markaðsöflin hafi frítt spil eða til að koma

ákveðnum böndum á markaðsöflin.
    Innan EB takast því á tvö meginsjónarmið. Annars vegar nýfrjálshyggjan og hins vegar ákveðin ríkishyggja. Fjármagnið og ,,bírókratían`` takast á og eiga glæsilega fulltrúa sem eru frjálsir eins og fuglinn og fara mun hraðar yfir en venjulegir holdlegir menn. Þess sjást nú líka æ víðar merki að venjulegu fólki þykir nóg um hraðann. Það óttist aukna miðstýringu og minnkandi lýðræði og sé í auknum mæli tortryggið í garð Efnahagsbandalagsins. Danir felldu Maastricht, í Frakklandi eykst andstaðan við það hraðbyri og stuðningur við aðild að EB minnkar í Svíþjóð. En hvað sem okkur finnst um EB og samrunaþróunina í Evrópu þá eru bæði fyrirbærin staðreynd og munu án efa hafa mótandi áhrif á stjórnmál í álfunni um langt árabil. Hvort tveggja mun því hafa veruleg áhrif á íslenskt samfélag, hvort sem við verðum utan eða innan EES eða EB. Aðlögun er því nauðsynleg. Það er gömul saga og ný að til frambúðar er ekki hægt að byggja upp samfélag í einu landi sem víkur í veigamiklum atriðum frá því sem tíðkast í öllum nágrannalöndum. Framsæknir sósíalistar í upphafi aldarinnar áttuðu sig á þessu þó aðrir og skammsýnni héldu fast við hugmyndina um sósíalisma í einu landi og við vitum öll hvernig fór með hana. Um það hefur heldur ekki verið deilt mér vitanlega að aðlögun er nauðsynleg. Það sem menn hefur greint á um er hversu langt eigi að ganga í þessari aðlögun, hvort við eigum að stíga skref inn í samrunaferlið eða ekki. EES er tvímælalaust slíkt skref og menn verða að stíga það með opin augu, þ.e. þeir verða að gera sér grein fyrir því að með því að taka slíkt skref hefur verið mörkuð stefna í tiltekna átt. Þá aukast líkurnar á að leiðin verði gengin til enda inn í Efnahagsbandalagið og að halda öðru fram er ekki annað en sjálfsblekkingar eða pólitískar sjónhverfingar.
    Með því að gerast aðilar að hinu Evrópska efnahagssvæði eru Íslendingar að gerast þátttakendur í innri markaði Efnahagsbandalagsins sem byggir öðru fremur á hugmyndum frjálshyggjunnar. Á þeim markaði á frjálst flæði vöru og fjármagns að skila okkur lægra vöruverði, auknum kaupmætti, meiri framleiðslu, auknum hagvexti og þar af leiðandi meiri lífsgæðum, eftir því sem okkur er tjáð. Þannig hafa menn reiknað út að þegar innri markaðurinn verður kominn að fullu til framkvæmda muni hagvöxtur í Efnahagsbandalaginu aukast um 4,5%, verðlag muni lækka um 6,1%, afkoma hins opinbera batna um 2,2% og atvinnuleysi minnka til muna. Menn tala m.a. um að 6 milljónir nýrra starfa muni verða til. Ljóst er að hugmyndirnar um hinn innri markað höfðu ákveðna sálfræðilega þýðingu til að byrja með sem birtist í því að ákveðinn bati gerði vart við sig í efnhagslífi aðildarríkja EB eftir að þær höfðu verið formfestar í einingarlögum Evrópu árið 1986. Nú eru hins vegar blikur á lofti. Atvinnuleysi hefur aukist í flestum ríkjum EB frá 1989 og nú eru því sem næst 16 milljónir íbúa í aðildarríkjunum án atvinnu. Í helmingi ríkjanna er atvinnuleysið yfir 10% og meðal ungs fólks er það 17,5%. Atvinnuleysið er talsvert meira meðal kvenna en karla og verst kemur það niður á ungum konum. Á Ítalíu og Spáni er tæp 40% kvenna undir 25 ára aldri án atvinnu og í Frakklandi fjórða hver og þessar tölur eru fengnar frá OECD.
    Fjölgun starfa í þessum löndum hefur fyrst og fremst verið í svokölluðum óhefðbundnum störfum, þ.e. hlutastörfum, árstíðabundnum störfum, gerviverktöku og fleiru sem skapar þeim sem störfunum sinna litla sem enga réttarstöðu. Á þetta ekki síst við um konur.
    Hagvöxturinn lætur líka bíða eftir sér eins og nýju atvinnutækifærin. Ef marka má spár Alþjóðagjaldeyrissjóðsins mun Maastricht-samkomulagið reyta 0,4--0,8% af hagvextinum til viðbótar því sem þegar er. Markmiðin með hinum innri markaði eru því ekki auðsótt, batinn er sýnd veiði en ekki gefin. Á þetta er m.a. bent í raunsæju riti frá Þjóðhagsstofnun sem ber titilinn ,,Íslenskur þjóðarbúskapur og Evrópska efnahagssvæðið``. Þar segir einmitt: ,,Ávinningurinn er alls ekki óhjákvæmilegur, kemur ekki á silfurfati.`` --- Síðan segir, í lokaorðum þessa rits Þjóðhagsstofnunar, með leyfi forseta:
    ,,Höfuðniðurstaða þessara athugana er sú að mögulegur ávinningur af þátttöku Íslands í EES sé fyrir hendi. Ekki er um mjög stórar fjárhæðir að ræða á hverju ári á þjóðhagslegan mælikvarða, en hér er um varanlegan ávinning að ræða. Hver króna í varanlegum tekjuauka jafngildir um 18 króna greiðslu í eitt skipti fyrir öll, sé miðað við 6% raunvexti. Þannig jafngildir varanleg aukning einkaneyslu um 0,7% um 24.000 kr. á ári á hverja fjögurra manna fjölskyldu, sem núvirt, miðað við 6% raunvexti, jafngildir um 425.000 króna eingreiðslu.`` --- Þeir segja að þetta sé lægsta talan, en hæsta talan jafngildi eingreiðslu á hverja fjögurra manna fjölskyldu sem jafngildi um 1,8 millj. kr. Þetta er sem sagt ávinningurinn sem Þjóðhagsstofnun sér mögulegan.
    Þeir sem ákafast hafa prísað aðildina að hinu Evrópska efnahagssvæði sjá þar bara kosti en enga galla. Þeir halda því mjög stíft fram að það sé mikið í húfi fyrir Íslendinga að samþykkja samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Þeir benda á að tollar á íslenskum sjávarafurðum muni lækka umtalsvert á mörkuðum EB og þar með skapist ný tækifæri hér innan lands til að fullvinna sjávarafurðir og flytja ótollaðar á erlenda markaði. Þá sjá þeir ný sóknarfæri fyrir íslenskan iðnað á erlendum mörkuðum og að atvinnustarfsemi almennt í landinu muni njóta góðs af því að hægt verði að fá erlent áhættufjármagn í íslensk atvinnufyrirtæki. Það muni aftur draga úr innlendum og erlendum lántökum og vaxtagreiðslum og stuðla að lækkandi vöxtum.
    Það má vissulega færa nokkur rök fyrir þessari framtíðarsýn á Evrópska efnahagssvæðinu. Það er ljóst að samningamönnum Íslendinga tókst að ná fram talsverðri tollalækkun á sjávarafurðum eða sem nemur 1,5--2 milljörðum króna á ári miðað við núverandi útflutning. Þetta gæti skapað fiskvinnslunni í landinu rýmri aðstæður. Hins vegar verða menn að hafa það í huga að eftirspurnin er mest eftir óunnum fiski.

Það er því mestur hagnaður af slíkum útflutningi fyrir þá sem selja fisk og útflytjendur taka auðvitað fyrst og fremst mið af því hvaðan mestur hagnaður kemur, ekki af því hvað skapar flest störf í landi.
    Mig langar í því sambandi að vitna til erindis sem Rannveig Sigurðardóttir, hagfræðingur BSRB, flutti á ráðstefnu á Egilsstöðum um helgina þar sem hún fjallaði einmitt um konur og hið Evrópska efnahagssvæði. Þar bendir hún m.a. á að reynsla Dana, sem nú þegar njóta tollfríðinda fyrir fullunnar fiskafurðir, gefi ekki ástæðu til bjartsýni. Hlutfall fullunnins fisks af heildarútflutningi Dana til EB-landa sé lítið hærra en Norðmanna þó að Norðmenn njóti ekki lægri tolla eins og Danir gera.
    Þá segir hún að markaðsfræðingar telji að mestur vaxtarbroddur sé í útflutningi fersks fisks til Evrópu beint til neyslu og sá útflutningur skapar ekki störf í landi, eins og við vitum.
    En það má sem sagt færa ákveðin rök fyrir því að þetta sé hagkvæmt fyrir fiskútflutning okkar og fiskvinnslu. En maður hlýtur þó að spyrja sig hverjir hinir nýju möguleikar eru fyrir aðrar atvinnugreinar, t.d. iðnaðinn og verktakastarfsemina. Mér er ekki alveg ljóst hverjir þessir nýju möguleikar eru, enda fátt um svör þegar farið er út í þá sálma. Svo er að heyra að menn óttist ekki aukna samkeppni á innlendum markaði á þessum sviðum, t.d. þegar skylt verður að bjóða út á erlendum markaði eða markaði Evrópska efnahagssvæðisins opinberar framkvæmdir sem eru yfir 380 millj. kr. og opinber innkaup sem eru yfir 10 millj. kr. Menn bera fyrir sig fjarlægðarvernd og segja að hún muni koma íslenskum fyrirtækjum til góða, eða þá einfaldlega að þeir bera það fyrir sig að samkeppni sé af hinu góða. En fjarlægðin felur ekki bara í sér vernd, hún er líka hindrun. Það er erfitt fyrir lítil fyrirtæki að hasla sér völl á fjarlægum markaði þar sem margir eru um hituna. Það er auðvitað ekki ómögulegt, en íslensk iðn- og verktakafyrirtæki hljóta engu að síður flest hver að þurfa að treysta á innanlandsmarkað hér eftir sem hingað til.
    Ég vil taka fram að vissulega væri það kostur ef hægt væri að laða erlent áhættufjármagn hingað til lands. Ég tala ekki um ef það mætti verða til að draga úr erlendum lántökum og skjóta fleiri stoðum undir íslenskan atvinnurekstur. En ef að líkum lætur vilja útlendingar helst fjárfesta í íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum og almenn sátt er um að það skuli ekki heimilað. Það er kveðið skýrt á um þetta bann í íslenskum lögum og eins í samningnum um hið Evrópska efnahagssvæði. Það er líka ástæða að hafa í huga að hvorki EES, EB né aðildin að þessum tveimur bandalögum er nauðsynleg forsenda þess að hingað leiti erlendir fjárfestar. Við gætum sem best laðað þá hingað ef fyrir hendi væri stöðguleiki í efnahagslífi og arðvænlegir fjárfestingarmöguleikar. Ef ekki væri stjórnað hér með tilskipunum frá degi til dags og kollsteypum og allar siðaðra manna reglur brotnar í samskiptum ráðherra við þá sem undir valdsvið þeirra heyra.
    Það hefur sjálfsagt ekki farið fram hjá þingmönnum hvorki nú né áður að ég hef miklar efasemdir um sjálfan grundvöll Evrópubandalagsins og grundvöll hins Evrópska efnahagssvæðis, þ.e. ég hef efasemdir um sjálfa hugmyndafræðina sem að baki býr. Ég á einfaldlega erfitt með að sætta mig við að fjármagnið og markaðurinn stjórni för, standi ofar mennsku okkar, svo vitnað sé frjálslega í þá ræðu sem flutt var yfir okkur þingmönnum við þingsetningarathöfnina í Dómkirkjunni. Að frelsi vöru og fjármagns sé æðra og meira frelsi en frelsi einstaklinganna til að velja og hafna. Þeir sem kunna bara tvö pólitísk hugtök, frjálslyndi og stjórnlyndi, mundu sjálfsagt ekki geta gert betur en að flokka þessa afstöðu mína til stjórnlyndis. En mér er nær að halda að hún eigi meira skylt við stjórnleysi og rótgróna andúð á því að lúta valdi.
    Innan EB er aftur á móti talsvert framboð af stjórnlyndu frjálslyndi, en þar ráða sósíaldemókratar miklu og eiga þar margan vellaunaðan bírókrat. Við þurfum þó ekki að fara til EB til að leita að þess konar stjórnlyndi, það lýsti langar leiðir af ræðu hæstv. utanrrh. og formanns Alþfl. á fimmtudaginn. Það þykja ekki merkileg skáld sem láta frasana hugsa fyrir sig og það eru heldur ekki merkilegir stjórnmálamenn eða stjórnmálaskríbentar sem það gera. Það hefur verið talsvert áberandi á undanförnum missirum, bæði í stjórnmálum og fjölmiðlum að menn velti sér upp úr hugtökunum frelsi og frjálslyndi, án þess að gefa nokkurn gaum að því sem að baki býr. EES er slíkum mönnum tákn um hvort tveggja. En ég spyr: Hvað á það skylt við frelsi eða frjálslyndi að þrýsta Almannavörnum ríkisins til að taka upp neyðarnúmerið 112? Af hverju megum við hér á landi ekki verða ásátt um að nota 0 eða 000 eða bara eitthvað allt annað númer, ef okkur hentar svo? Hvað á það skylt við frelsi og frjálslyndi að skikka okkur til að nota ákveðna tegund af innstungum eða eyrnarhlífum eða einhverju öðru sem til stendur að setja í staðla? Ekkert. Það má færa góð og gild rök fyrir því að þetta sé öruggast og hagkvæmast fyrir alla aðila, en ég frábið mér allt frelsishjal um slíka hluti.
    Það má í raun færa sterkari rök fyrir því að hin heilaga krafa um einsleitni, sem er auðvitað ekki annað en andstaðan við fjölbreytni, feli í sér stjórnlyndi og frelsisskerðingu.
    Í náttúrunni og á flestum sviðum mannlífsins er fjölbreytni talin kostur og ein af forsendum velsældar og frelsis. Í allri samrunaþróuninni í Evrópu þar sem aukin áhersla er á einsleitni er ástæða til að óttast um þessi gildi. Það er ástæða til að ætla að skatta- og efnahagsstefna leiti alls staðar í Evrópu í sama farið. Enginn þori að fara fram úr öðrum í velferðarmálum, umhverfismálum og öðrum málaflokkum sem kosta umtalsvert fé og skipta einstaklingana miklu. Þetta verði eins og stóru samflotin í kjaramálum, það gangi hvorki né reki að bæta lífskjörin af því að frumkvæðið fær ekki að njóta sín. Í því sambandi má vitna til löggjafar um umhverfismál í Danmörku. Danir segja að það hafi ekkert gerst í umhverfismálalöggjöf hjá þeim á undanförnum árum vegna þess að þeir eru alltaf að bíða eftir hinum ríkjunum í EB. Þeir

bíða eftir því að hin ríkin nái þeim lögum sem Danir höfðu sett áður. Ég vil líka í þessu sambandi vitna bara til orða fjármálaráðherrans okkar í DV sl. laugardag. Þar kemur m.a. fram að hann er að íhuga og ríkisstjórnin íhugar skattalækkun og íhugar líka niðurskurð í velferðar- og menntunarmálum. Rökin eru þessi, með leyfi forseta:
    ,,Eitt af því sem hlýtur að vera til skoðunar eru skattalögin. Við verðum að átta okkur á því að við erum að fara inn í samstarf við þjóðir þar sem skatthlutföll eru með öðrum hætti en hér á landi. Það kemur því að sjálfsögðu til greina að líkja eftir þeim skattalögum sem þar gilda og á þann hátt freista þess að íslensk atvinnufyrirtæki verði samkeppnishæf við þau.``
    Með öðrum orðum: Samlögunarferlið eða aðlögunarferlið er byrjað í skattamálum og yfirleitt endar það með því að menn sækja í það far að vera með svipaða löggjöf og þeir sem skemmst hafa gengið. Niðurskurður í velferðar- og menntamálum er í rauninni atlaga að þeirri þjónustu sem er styrkasta stoðin undir atvinnuþátttöku kvenna í öllum löndum.
    Rök sem lúta að öllum þeim gæðum sem aðild að EES hafi upp á að bjóða ná því ekki mjög vel eyrum mínum. Ég held líka að þjóðin falli ekki fram og tilbiðji þá menn sem segja við hana: Allt þetta skal ég gefa þér. Þau rök, sem einna mest vægi hafa sem meðmæli með aðild að EES, eru að mínu viti þau að EB sé að verða eins og virki sem loki æ meira að sér. Það geti skapað umtalsverða erfiðleika fyrir smáríki eins og Ísland að verða viðskila við þá sem eru fyrir innan virkisveggina. Það er auðvitað hin raunverulega ástæða fyrir því að æ fleiri ríki sækja þangað inn. Það er lokunin. Ekki einhver ,,absolútt`` gæði sem búi í EB og hvergi annars staðar. Og ég verð að hrósa hæstv. utanrrh. fyrir að hafa heldur dregið úr þar sem þykkast var smurt áður þegar hann og ekki síður kollegi hans í viðskrn. voru að reyna að selja þjóðinni þennan samning. Það hefur heldur verið þynnt lagið þar sem drýgst var smurt.
    Stofnanaþáttur samningsins um hið Evrópska efnahagssvæði hefur alla tíð vafist fyrir mér og hef ég ítrekað gert hann að umtalsefni hér í þingsalnum. Hef ég margsinnis bent á það framsal á valdi sem í honum felst og í umræðu sem hér fór fram í apríl sl. sagði ég m.a. að það ætti ekki að þurfa að deila um það hvort í honum fælist fullveldisframsal ef tekið væri mið af þeirri skilgreiningu sem lægi að baki íslenska fullveldinu frá 1918. Heldur ættu menn þá að deila um hitt hvort slíkt framsal væri óhjákvæmilegt og réttlætanlegt við núverandi aðstæður. Hvort efnahagslegar, pólitískar og sögulegar ástæður geri visst fullveldisframsal nauðsynlegt. Benti ég þingmönnum sérstaklega á að skoða hvernig fara á með deilumál á hinu Evrópska efnahagssvæði. Og því miður verð ég að segja að þessir varnaglar, sem ég sló þá í apríl, hafa, ef dæma má niðurstöður lögfræðinga, reynst réttir.
    Með aðferðum hinnar pólitísku lögfræði, sem ef marka má Jón Steinar Gunnlaugsson miðast við að túlka lögin valdhöfunum í hag, má reyndar sýna fram á að lítið sem ekkert valdaframsal eigi sér stað á hinu Evrópska efnahagssvæði. Það sé a.m.k. svo vel afmarkað og lítt íþyngjandi að réttlætanlegt hljóti að teljast. Þá sé í stjórnarskránni að finna meginreglur sem undantekningar séu frá, en ekki grundvallarreglur sem ekki megi sveigja. Í þessa veru rökfæra mætir lögfræðingar sem utanrrh. valdi til að gefa sér álit um málið.
    Eins og Ragnar Aðalsteinsson, formaður Lögmannafélag Íslands, benti á eru þeir víða í áliti sínu á hálum ís og skauta hratt yfir. En það kann vel að vera að þessi lögfræði standist fyrir dómstólum þó hún þyki hæpin í hugum venjulegs fólks. Á það ber þá að líta að stjórnarskráin var einu sinni sett venjulegu fólki til verndar.
    Það mætti víða grípa niður í þessa álitsgerð fjórmenninganna og það hafa m.a. þeir ræðumenn gert sem hér hafa talað á undan mér. En það er ljóst af álitsgerðinni, eins og hér hefur verið bent á, að þeir telja að um visst valdaframsal sé að ræða, eða eins og segir hér á blaðsíðu 24:
    ,,Við teljum að reglurnar um vald stofnana EFTA séu vel afmarkaðar og feli ekki í sér verulegt valdaframsal sem talið verði íþyngjandi í ríkum mæli. Verður að telja að stjórnarskráin heimili framsal stjórnvalds sem er takmarkað með þessum hætti og varðar milliríkjaviðskipti.``
    Með öðrum orðum kemur skýrt fram að þarna er um ákveðið framsal að ræða. Spurningin stendur þá um það hvort stjórnarskráin heimili slíkt eða ekki. Og eins og við vitum kom það bæði fram í álitsgerð Björns Þ. Guðmundssonar og Guðmundar Alfreðssonar að þeir voru þeirrar skoðunar að stjórnarskráin heimlaði alls ekki slíkt framsal.
    Þá segir í þessari álitsgerð líka, undir liðnum Önnur atriði, með leyfi forseta:
    ,,Þá er hugsanlegt að reynslan leiði í ljós að það reynist ekki rétt sem við byggjum á um framkvæmdarvaldið og dómsvaldið,`` --- þar eru þeir að segja að það sé ekki framsal á framkvæmdarvaldi og dómsvaldi --- ,,þ.e. að reglurnar um vald stofnana EFTA séu vel afmarkaðar, að þær feli ekki í sér verulegt valdaframsal og séu ekki í þyngjandi í ríkum mæli`` --- sem er þeirra niðurstaða. --- ,,Einnig er hugsanlegt að í samkeppnismálum komi til meiri afskipta en hér er reiknað með. Við teljum ólíklegt að forsendur okkar að þessu leyti reynist rangar. Við teljum jafnframt að engin nauðsyn sé til að ráðast nú í breytingar á stjórnarskránni vegna þessa möguleika. Ef fram kemur síðar að slíkra breytinga sé þörf er Ísland að þjóðarétti skuldbundið til að gera þær.``
    Röksemdafærsla af þessu tagi er geysilega veik þegar við erum að tala um stjórnarskrá Íslands, hvort samningur sem við erum að gera standist stjórnarskrá Íslands. Enda viðurkenna þeir hér að það megi færa rök fyrir því að ýmislegt sem þeir hafa rakið í sinni álitsgerð standist ekki. Þeir segja, með leyfi forseta:
    ,,Við teljum að vísu að færa megi nokkur rök gegn einstökum þáttum í því, sem hér að framan er rakið, en við teljum þó að niðurstöður okkar orki ekki tvímælis í þeim mæli að tilefni sé til að draga þá ályktun að samningarnir í heild leiði til þess að breyta þurfi stjórnarskránni, ef þeir taka gildi.``
    Í mínum huga er þetta mjög lítt afgerandi orðalag sem er að finna í þessari álitsgerð. Og að þeir skuli segja ,,að niðurstöður okkar orki ekki tvímælis í þeim mæli að tilefni sé til að draga þá ályktun að samningarnir í heild leiði til þess að breyta þurfi stjórnarskránni`` er það veikt orðalag að það hlýtur að vinna með þeim efa sem er um stjórnarskrárþátt þessa máls.
    En þetta er sem sagt ekki eina álitið sem fyrir liggur. Nýlega hafa komið fram tvö álit sem svara röksemdum fjórmenninganna. Hið fyrra er, eins og ég vék að áðan, frá Birni Þ. Guðmundssyni, prófessor í stjórnsýslurétti, og hið síðara frá Guðmundi Alfreðssyni þjóðréttarfræðingi. Þessi álit ganga bæði gegn áliti fjórmenninganna og það er skýr og ótvíræð niðurstaða þeirra beggja að svo mikill vafi leiki á því að samningurinn um EES standist gagnvart stjórnarskránni að ekki megi taka áhættuna af því að lögfesta hann að stjórnarskránni óbreyttri.
    Hér væri hægt að færa fram margt úr álitsgerðum þessara manna og ég ætla í sjálfu sér ekki að gera það en menn hafa tínt ýmislegt til úr álitsgerð Guðmundar Alfreðssonar. Mig langar því aðeins að tæpa á örfáum atriðum sem koma fram í álitsgerð Björns Þ. Guðmundssonar. Um þessa skoðun fjórmenninganna, að stjórnarskráinn hafi inni að bera meginviðhorf, segir hann m.a., með leyfi forseta:
    ,,Íslenska stjórnarskráin er ekki margorð. Hún hefur að geyma algjörar grundvallarreglur (danska grundprincip) stjórnskipunar okkar. Fara verður mjög varlega í að líta svo á að í henni felist venjulegar meginreglur eins og oft er sagt um almenn lög, sem svo ýmsar undantekningar séu frá, t.d. eins og í skattalögum.`` Þannig að hann svarar þeirri röksemd fjórmenninganna að hún feli í sér meginreglur með þessum hætti.
    Þá má nefna hér af því að fjórmenningarnir komast að því að ekki sé um að ræða framsal á framkvæmdarvaldi í gegnum m.a. eftirlitsstofnun EFTA, þar sem þess séu dæmi að það hafi verið framselt vald til erlendra aðila, erlendra dómsvalda, með því að gera ýmsa dóma aðfararhæfa hér á landi. En þá segir Björn:
    ,,Þess eru hins vegar engin dæmi að íslenskt framkvæmdarvald hafi í þessum skilningi verið framselt til erlends stjórnvalds. Þau þrjú dæmi sem fjórmenninganefndin tekur úr samningnum á sviði norrænnar samvinnu, til styrktar niðurstöðum sínum, falla ekki undir slíkt valdaframsal í skilningi stjórnskipunar- og stjórnsýsluréttar.``
    Áfram mætti halda með þessa álitsgerð og hér segir m.a.:
    ,,Með EES-samningnum hefur íslenskur þegn afsalað sér þessu öllu`` --- þ.e. því að geta leitað til innlends stjórnvalds um það hvort dómur yfir honum standist --- ,,til stofnana EFTA og EB. Þetta skiptir verulegu máli við mat á álitaefninu, því að stjórnarskráin er ekki eingöngu til að kveða á um stjórnskipun okkar heldur og ekki síður til að vernda réttindi þegnanna.`` Þetta held ég að menn ættu að hafa í huga við þessa umræðu. Þetta er ekki eingöngu til að vernda stjórnskipunina heldur líka til að vernda þegnana.
    Við þetta dæmasafn mætti bæta ýmsu úr álitsgerð Guðmundar Alfreðssonar, en ég ætla að láta það bíða þar til við förum hér í stjórnarskrárumræðu um þetta mál. En ég get ekki látið hjá líða að nefna hér eitt dæmi úr álitsgerð sem Ólafur Walter Stefánsson, Stefán Már Stefánsson og Tryggvi Gunnarsson gerðu fyrir dómsmrh. og landbrrh. um EES og fasteignir á Íslandi. Af því að einn af álitshöfundum þar stóð líka að þeirri álitsgerð sem unnin var fyrir utanrrh. þá vakti það athygli mína að kveðið er miklu fastar að orði í álitsgerðinni um fasteignir á Íslandi heldur en í hinni lögfræðilegu álitsgerð sem utanrrh. var skilað. Þar segir nefnilega, með leyfi forseta:
    ,,Með hliðsjón af þessum ákvæðum`` --- það er búið að rekja ákveðin ákvæði í samningnum --- ,,og að öðru leyti með hliðsjón af réttaröryggi og þeirri samræmingu á lagareglum sem stefnt er að með EES-samningnum verður að öðru jöfnu að teljast eðlilegt að líta svo á að EFTA-ríkin muni í raun taka við nýrri lagasetningu óbreyttri. Lagaflækjur sem af því leiddi að vissir hlutar EES-samningsins féllu úr gildi til bráðabirgða yrðu verulegar en auk þess má búast við því að slík réttarstaða ylli einstaklingum og lögaðilum á svæðinu réttaróvissu sem ekki yrði við unað. Því er hér gengið út frá því að innan EB sem slíks og annars staðar innan EES muni ekki aðeins gilda í aðalatriðum sömu efnisreglur við gildistöku samningsins heldur einnig eftir það.``
    Þeir benda sem sagt á það að lagaflækjurnar, sem af því yrðu ef ríki EFTA tækju ekki upp lagareglur Efnahagsbandalagsins, yrðu slíkar að ekki yrði við unað og skapaði réttaróvissu og stefndi réttaröryggi í vissa hættu.
    Þar sem ég er að nefna hér þennan stjórnarskrárþátt málsins og þá umræðu sem hefur verið um hann á opinberum vettvangi, þá langar mig aðeins til að fjalla um orð utanrrh. sl. fimmtudag, sérstaklega þegar hann vitnaði til mín í máli sínu. Þau orð sem hann vitnaði til voru orð sem ég lét falla eftir að álit fjórmenninganna hafði verið kynnt utanrmn. Og það má segja að í samræmi við sitt stjórnlynda frjálslyndi hafi ráðherrann lagað orð mín svolítið til þannig að þau féllu betur að efni ræðu hans og hentuðu Alþýðublaðinu betur. Það sem ég sagði var að það álit fjórmenninganna að samningurinn stæðist stjórnarskrána

væri enginn hæstiréttur. Að álit fjórmenninganna væri enginn hæstiréttur. Eins og önnur hugvísindi væri lögfræðin opin fyrir túlkunum. Aðrir lögfræðingar hefðu aðra skoðun en fjórmenningarnir svo stjórnmálamenn stæðu eftir sem áður uppi með vafann og yrðu að taka pólitíska ákvörðun í málinu en ekki pólitíska afstöðu til málsins eins og utanrrh. leggur mér í munn. Ég sagði t.d. í DV þann 8. júlí sl.: ,,Við fáum ekki lögfræðinga til að úrskurða af eða á, það þarf að taka pólitíska ákvörðun. Ef vafinn er stór þá verður að leggja fram tillögu um breytingu á stjórnarskránni.`` Þetta voru orð mín, ,,taka pólitíska ákvörðun``. Og hún verður auðvitað ekki tekin annars staðar en hér á Alþingi og við verðum síðan að vega og meta þær álitsgerðir sem fyrir liggja.
    Frá því þetta var sagt hefur vafinn aukist. Tvær álitsgerðir hafa komið fram eins og vitnað var til hér áður sem eru beinlínis andsvör við og gagnrýni á álitsgerð fjórmenninganna sem þá lá ein fyrir. Við þingmenn þurfum í sjálfu sér ekki að taka afstöðu til þess hver þeirra er rétt eða réttust. Við þurfum bara að taka afstöðu til vafans. Er vafinn það lítill að ekki þurfi að hafa af honum áhyggjur? Eða er hann það mikill að ekki sé réttlætanlegt að hleypa honum ekki að sér vegna pólitískrar afstöðu til EES-samningsins? Þetta er sú afstaða sem við þingmenn verðum að gera upp við okkur. Við þurfum að taka afstöðu til vafans. Er hann lítill eða er hann mikill? Burt séð frá því hvað okkur finnst svo persónulega rétt eða rangt í þessum málum.
    Umfjöllun utanrrh. um vafann í framsöguræðu hans sl. fimmtudag bendir til að utanrrh. hafi vondan málstað að verja. Svo langt er seilst í röksemdafærslunni. Mig langar til að vitna hér til orða hans, með leyfi forseta. Hann sagði:
    ,,Eins og þingheimur veit mætavel er því oft haldið fram í pólitískri umræðu að eitt eða annað í löggjöf eða stjórnarframkvæmd samrýmist ekki stjórnarskránni. Það væri óðs manns æði að ætla sér að fylgja þessari vafakenningu og breyta stjórnarskránni í hvert sinn er slíkar raddir heyrast.`` Og hann heldur áfram: ,,Hér má nefna að prófessor Sigurður Líndal hefur haldið því fram nú nýlega að ýmis atriði í stjórnkerfi búvöruframleiðslunnar og sjávarútvegsins brjóti í bága við stjórnarskrána. Ef vafakenningunni er fylgt út í æsar er þá væntanlega rétt að breyta stjórnarskránni tafarlaust og eyða þessum vafa. Ég hef ekki heyrt nokkurn þingmann halda því fram að það beri að gera. Álit prófessors Sigurðar Líndals verður hins vegar að sjálfsögðu haft til hliðsjónar þegar kemur að endurskoðun á stjórnkerfi fyrrnefndra atvinnugreina.``
    Stjórnlyndi utanrrh. er svo algert að honum dettur ekki annað í hug en að ef rök bendi til þess að lög sett á Alþingi stangist á við stjórnarskrána þá liggi beinast við að breyta stjórnarskránni en ekki lögunum. Breyta stjórnarskránni en ekki lögunum. Það er það fyrsta sem kemur upp í huga hans. Það má ekki hrófla hér við mannanna verkum á Alþingi þann tíma sem hann hefur hér setið. Væri ekki miklu viðurhlutaminna að endurskoða lögin? Er ráðherrann ekki sammála um að sú leið væri greiðfærari en að fara í stjórnarskrárbreytingu þó að röksemdir af þessu tagi, eins og hjá Sigurði Líndal, komi fram.
    Vandamálið varðandi EES-samninginn er hins vegar annars eðlis. Við getum nefnilega ekki breytt samningnum þannig að enginn vafi leiki á því að hann standist stjórnarskrána. Þó við gjarnan vildum fara þá einföldu leið og breyta samningnum þannig að við getum verið viss um að hann standist stjórnarskrána, þá er sú leið ekki fær. Samningurinn er frágenginn og við getum aðeins gert annað tveggja: Hafnað honum eða samþykkt og ég segi að breyttri stjórnarskrá þá.
    Dæmið sem ráðherra nefndi í ræðu sinni, þ.e. tilvitnunin í Sigurð Líndal, er í rauninni afspyrnuvont vegna þess að þetta dæmi er annars eðlis. Þar er bara um einfalt lagasukk íslenskra stjórnvalda að ræða, ekki alþjóðlegan samning sem ekki má hrófla við.
    Talandi um lagasukk þá er rétt að víkja aðeins að þeim flókna lagavef sem umlykur allan stofnanaþátt samningsins um hið Evrópska efnahagssvæði. Eins og menn vita verður EB-réttur, eins og hann er tekinn upp í samningnum, ríkjandi réttur hér á landi í þeim málum sem eru á samningssviðinu. Er mjög skýrt kveðið á um þetta í bókun 35 og í 3. gr. frv. Í þessu sambandi er reyndar rétt að vekja athygli á þeirri ábendingu Guðmundar Alfreðssonar að 3. gr. frv. gangi skemur en bókun 35 og því sé greinin ekki stjórnskipulega marktæk. Ég ætla að leyfa mér að vitna hér í þessi orð Guðmundar. Hann segir, með leyfi forseta:
    ,,Miðað við orðalag og tilgang bókunar 35, sem er hluti af milliríkjasamningi, er hér alls ekki um túlkunarreglur að ræða`` --- þ.e. að túlka beri lög í samræmi við hið Evrópska efnahagssvæði --- ,,heldur skyldu eða skuldbindingu. Sem skuldbinding getur hún ekki talist stjórnskipulega marktæk eins og áður sagði. 3. gr. lagafrv. um túlkunarreglu einvörðungu gengur hins vegar skemur en milliríkjasamningurinn og brýtur sennilega ekki í bága við stjórnarskrána, en hún er ekki í samræmi við þjóðréttarskuldbindinguna. Það er hætt við því að í deilumálum mundu dómstólar EES og EB taka mið af þjóðaréttinum.``
    Í þessu sambandi má geta þess að á fundum hjá þingmannanefnd EFTA hefur m.a þetta mál komið upp. Og þar hafa menn, t.d. Mats Hellström, sósíaldemókrati frá Svíþjóð, orðað það að þingmenn EFTA-ríkjanna þyrftu að hafa með sér eitthvert samráð um það hvernig þetta er tekið upp í einstök frv. vegna þess að það virðist vera mismunandi með hvaða hætti menn ætla að lögtaka það að EB-rétturinn eigi að hafa forgang umfram landsrétt. Og ég held að það væri ástæða fyrir utanrmn. að skoða það sérstaklega hvernig menn setja þessa reglu í frv. einstakra EFTA-ríkja.
    Þessu til viðbótar má nefna að mörg ákvæði EES-samningsins fá bein réttaráhrif hér á landi, þ.e. menn geta skapað sér réttarstöðu með tilvísun til þeirra, byggt kröfu á þessum ákvæðum samningsins.

Þetta er í sjálfu sér ekkert óeðlilegt. Það er ekkert óeðlilegt að menn geti skapað sér ákveðna réttarstöðu með tilvísun til milliríkjasamnings sem Ísland er aðili að. Það óeðlilega er að túlkun EB-dómstólsins, sem við Íslendingar eigum enga aðild að, skuli fá bein réttaráhrif hér á landi, en það gerist þegar EES-ákvæði, þ.e. ákvæði sem eru í samningnum um hið Evrópska efnahagssvæði, eru efnislega samhljóða ákvæðum Rómarsáttmálans. Þessi réttaráhrif verða augljós þegar 6. gr. samningsins er lesin og 3. og 4. gr. samningsins um eftirlitsstofnun og dómstól EFTA. 6. gr. hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Með fyrirvara um þróun dómsúrlausna í framtíðinni ber við framkvæmd og beitingu ákvæða samnings þessa að túlka þau í samræmi við úrskurði dómstóls Evrópubandalaganna sem máli skipta og kveðnir hafa verið upp fyrir undirritunardag samnings þessa, . . .  `` --- Þar er það sem sagt tekið fram ,,fyrir undirritunardag samnings þessa``.
    Í 3. gr. samningsins um stofnun eftirlitsstofnana og dómstól EFTA, segir í 2. lið:
    ,,Við túlkun og beitingu EES-samningsins og samnings þessa skulu eftirlitsstofnun EFTA og EFTA-dómstóllinn taka tilhlýðilegt tillit til þeirra meginreglna sem mælt er fyrir um í viðkomandi úrskurðum dómstóls Evrópubandalaganna sem kveðnir eru upp eftir undirritunardag EES-samningsins . . .  `` --- Þar er það komið inn að taka skuli tillit til þeirra dóma sem kveðnir eru upp í Efnahagsbandalaginu eftir undirritunardag þessa samnings.
    Það hefur komið á daginn að lagavefur samningsins um hið Evrópska efnahagssvæði er svo flókinn að lögspekingar eiga ekki auðvelt með að finna leið í gegnum hann, hvað þá leikmenn í fræðunum. Og eins og Björn Bjarnason, nýkjörinn formaður utanrmn., benti réttilega á í grein um Evrópska efnahagssvæðið skömmu fyrir síðustu kosningar, þá má færa rök fyrir því að óskýrar réttarreglur vegi að fullveldi þjóða. Ég vil svo bæta því við að þær draga líka úr réttaröryggi. Við skulum taka dæmi: Lögspekingar segja að sá hluti samningsins sem er fullgiltur samkvæmt 1. gr. frv. --- 1. gr. frv. kveður á um það að ákveðinn hluti þessa samnings skuli fullgiltur --- hafi aðeins gildi að þjóðarétti og bindi þar af leiðandi aðeins íslenska ríkið. Þetta á við um flesta viðauka og gerðir sem þar er vísað til. Hins vegar hafi sá hluti sem er lögtekinn skv. 2. gr. frv. gildi að landsrétti og nái þar af leiðandi til einstaklinga og lögaðila. Ef eitthvað í viðaukanum eigi að fá gildi að landsrétti þurfi því að lögtaka það í sérstökum fylgifrumvörpum.
    Í 7. gr. samningsins um hið Evrópska efnahagssvæði segir engu að síður að allar gerðir sem vísað sé til í viðaukunum skuli teknar upp í landsrétt og í 119. gr. segir, eins og hér hefur verið vitnað til áður:
    ,,Viðaukar, svo og gerðir sem vísað er til í þeim og aðlagaðar eru vegna samnings þessa, skulu auk bókana vera óaðskiljanlegur hluti samningsins.``
    Hv. 4. þm. Austurl. vék að því hér á fimmtudaginn að þessir viðaukar, sem eru óaðskiljanlegur hluti samningsins, liggi ekki enn fyrir og það er rétt. En það er ástæða til fyrir menn að hafa það í huga að viðaukarnir, bókanirnar, eru óaðskiljanlegur hluti samningsins.
    Með öðrum orðum: Viðaukar, sem okkur er sagt að öðlist ekki gildi að landsrétti af því þeir eru bara fullgiltir ekki lögteknir, eru engu að síður óaðskiljanlegur hluti samningsins, samkvæmt orðum samningsins sjálfs. Þessi skilningur, að viðaukarnir séu óaðskiljanlegur hluti samningsins, er lögfestur með lögtöku meginmáls samningsins, því það á að lögtaka meginmál þessa samnings með þessum skilningi að viðaukarnir séu óaðskiljanlegur hluti. Þegar svo er kveðið á um það ítrekað í samningnum og víðar að skýra beri landslög og reglur til samræmis við samninginn þá á það við um samninginn allan, líka viðaukana. Það á að skýra lög, landslög og reglur til samræmis við samninginn allan, viðaukana líka.
    Skerðing á réttaröryggi, sem ég vék að áðan, á ekki bara rót sína að rekja til þess að lagavefurinn sem hér er um að ræða er flókinn. Það hefur sitt að segja hvernig Alþingi stendur að því að lögtaka gerðir EB. Áhugamönnum um hið Evrópska efnahagssvæði, ekki bara hér á landi, þetta á auðvitað við um öll EFTA-ríkin, er umhugað að stytta sér leið í þessu máli og þeir gera það m.a. með bókun 1, bókuninni um hina altæku aðlögun sem svo er kölluð. Með þeirri bókun víkja þeir sér undan því að umskrifa gerðir EB með tilliti til EES. Ef vel ætti að vera ættu þeir auðvitað að taka gerðirnar og taka út alls staðar þar sem stendur EB og setja þar inn EES og setja inn viðeigandi yfirvöld á Evrópska efnahagssvæðinu, en þeir gera það ekki. Þeir taka gerðirnar allar eins og þær koma fyrir af kúnni og gefa svo út lesleiðbeiningar í bókun 1, bókuninni um hina altæku aðlögun. Allt þetta verður svo vægast sagt sérkennilegt þegar Íslendingar lögtaka í heilu lagi EB-gerð sem þeir þurfa svo að læra að lesa og túlka út frá EES. Ég ætla að nefna dæmi um það hvernig þessi lögtaka á að fara fram, eða menn eru með hugmyndir um það hvernig þetta eigi að fara fram. Fyrir Alþingi liggja nú nokkur frv. sem sum hver eru vægast sagt sérkennileg, sérstaklega þegar þetta er haft í huga, og ég ætla að nefna hér tvö. Það er frv. til laga um frjálsa för launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins og frv. til laga um breytingu á lagaákvæðum er varða íslenskt ríkisfang vegna aðildar að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Það nægir að vitna hér til frv. um frjálsa för launafólks. 1. gr. þess frv. hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Ákvæði samningsins um Evrópska efnahagssvæðið sem vísað er til í 2. tölul. 5. viðauka, reglugerð 1612/68 EBE, eins og henni var breytt með reglugerð 312/76 EBE, um frelsi launþega til flutninga innan Evrópska efnahagssvæðisins, skal hafa lagagildi með þeim breytingum og viðbótum sem leiðir af 5. viðauka bókun 1 [það er lesleiðbeiningin, bókun 1] við samninginn og öðrum ákvæðum samningsins. Reglugerðir EBE þar sem vísað er til í 1. mgr. eru prentaðar sem fylgiskjal með lögum þessum.``

    Síðan kemur 2. gr. um þriggja manna nefnd sem á að skipa til að hafa eftirlit með framkvæmd þessara laga, þá kemur 3. gr. sem segir að ráðherra geti með reglugerð gefið nánari fyrirmæli og svo 4. gr. um að lögin öðlist gildi um leið og samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið öðlist gildi að því er Ísland varðar.
    Svona líta þessi frv. nú út, þ.e. í 1. gr. erum við að lögtaka gerðir Efnahagsbandalagsins eins og þær eru skrifaðar af Efnahagsbandalaginu og það er vísað til þess hvernig við eigum að lesa þessar gerðir vegna þess að bókun 1 er tekin hér inn í 1. gr. ( Forseti: Forseti verður að biðja hv. þm. að fresta ræðu sinni ef ekki er komið að því að hún ljúki henni. Ekki hefur náðst samkomulag um að halda hér áfram svolítið lengur til þess að hv. þm. geti lokið sinni ræðu og sá sem næstur er á mælendaskrá sem til stóð að mundi ljúka sinni ræðu í dag. Því verður fundinum frestað núna ef hv. þm. vildi fresta sinni ræðu.)
    Ég skal fúslega verða við því, ég á enn svolítið eftir þannig að það duga mér ekki neinar örfáar mínútur til að ljúka máli mínu svo ég fresta að sjálfsögðu ræðunni.