Stjórnarskipunarlög

9. fundur
Fimmtudaginn 27. ágúst 1992, kl. 16:10:53 (120)


     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Það er búið að segja margt vel í þessari umræðu og ég vil láta það koma fram að ég er ákaflega ánægður með málflutning þeirra stjórnarandstæðinga sem hér hafa tekið til máls bæði í þessari umræðu og í umræðunni um lögfestingu EES-frv. fyrirfarandi daga. En ég kemst ekki hjá því að láta í ljósi óánægju með vissa þætti umræðunnar og þá fyrst með þann fréttaflutning sem sjónvarpið hefur ástundað af henni. Þar hefur það hent að Ríkissjónvarpið hefur birt glefsur úr ræðum manna sem gefa alranga mynd af umræðunum og ræðum þeirra. Áhorfendur fá sem sagt ekki rétta mynd af skoðunum einstakra ræðumanna. Ég ligg t.d. undir því, eftir fréttaskot sem birt var úr ræðu sem ég flutti fyrir tveimur dögum, að vera sérstakur talsmaður EES-samningsins. Það er ég ekki í þeirri mynd sem hann endanlega varð. Það liggur alveg ljóst fyrir. Það mátti skilja svo að hv. 7. þm. Reykn., Steingrímur Hermannsson, flokksbróðir minn, væri það líka. Svo er ekki. Ég er ekki meðmæltur þessum samningi og tala ekki fyrir honum í þinginu en ég reyni hins vegar að segja hlutlaust frá og tíunda bæði kosti og galla. Og ég þori nú ekki annað en taka þetta fram í upphafi máls míns til þess að koma í veg fyrir að í fréttum Ríkissjónvarpsins í kvöld verði það haft eftir mér að ég telji að EES-samningurinn samræmist stjórnarskrá því að það tel ég að hann geri ekki. Ég færði rök fyrir þessu í ræðu minni um frv. um EES og vísa til þeirra. Það skiptir reyndar litlu máli þó að sjónvarpið gefi ranga mynd af ræðum því að við höfum þó alltaf vörn í því að Alþingistíðindin birta ræður okkar orðréttar og geyma þær þar til framtíðar. Þó að einhver smámisskilningur kunni að koma upp á grundvelli fréttamats einstakra sjónvarpsmanna getum við vísað til Alþingistíðinda og þau sýna það svart á hvítu hvert viðhorf okkar hefur verið til mála. Þetta var nú lítils háttar útúrdúr, að gefnu tilefni.
    Hitt er miklu verra og alvarlegra í þessu máli hvernig sumir talsmenn ríkisstjórnarinnar, og þá á ég sérstaklega við þrjá herra sem sitja allir í salnum, hv. 3. þm. Reykv. Björn Bjarnason, hæstv. forsrh. Davíð Oddsson og hæstv. viðskrh. Jón Sigurðsson, hafa talað í þessum umræðum. Og ég verð að segja að ég trúi því ekki að þeir túlki sjónarmið allra liðsmanna ríkisstjórnarinnar á Alþingi. Ég gjörþekki nefnilega marga af liðsmönnum ríkisstjórnarinnar sem eiga sæti á þingi og veit að þeir eru vandir að virðingu sinni og er ábyggilega ekki sama um það drengskaparheit sem þeir á sinni tíð unnu skv. 47. gr. stjórnarskrárinnar, þ.e. þeir hétu því að viðlögðum drengskap, eins og við allir, að halda íslensku stjórnarskrána.
    Ég ætla að byrja á því að nefna ræðu hv. 3. þm. Reykv. Björns Bjarnasonar eða ræður því að hann hefur tekið hér oftar en einu sinni til máls, bæði um stjórnarskrárfrv. og um EES-frv. Ég óttast að ræður hans verði ekki til þess að flýta meðferð málsins og sennilega verða formannaskipti í utanrmn., sem þingflokkur Sjálfstfl. hefur ákveðið, til þess að seinka meðferð málsins í nefndinni. Hv. 4. þm. Reykv. Eyjólfur Konráð Jónsson, sem um langt skeið hefur verið formaður utanrmn., kappkostaði gott samstarf við alla nefndarmenn. Þó hann hafi verið pólitískur andstæðingur minn allan þann tíma sem ég hef átt sæti á Alþingi og skoðanir okkar í mörgum tilfellum ekki farið saman, vil ég að það komi fram að undir forustu hans tel ég að utanrmn. hafi unnið vel að þessu máli. Í nefndinni hefur t.d. enginn tími farið í pólitísk átök sem kannski hefði verið ástæða til að búast við að gætu komið upp. Sem formaður reyndi hann að greiða úr öllu og ástunda skipuleg vinnubrögð við könnun málsins. Ég hygg að hann hafi litið á sig sem formann og leiðtoga allrar nefndarinnar en ekki sem sérstakan handlangara hæstv. ríkisstjórnar eða hæstv. utanrrh. Og undir stjórn hans hefur nefndin unnið af samviskusemi og gætt vandaðra vinnubragða. Hv. þm. reyndi í formannstíð sinni að verða við óskum bæði stjórnarsinna og stjórnarandstæðinga við upplýsingaöflun og kvaðningu manna fyrir nefndina og þess vegna var góður friður í nefndinni undir stjórn hans. En hann er enginn undanfari í kapphlaupinu til Brussel og það hefur komið honum í koll vegna þess að nú hafa Brusselfararnir tekið öll völd í Sjálfstfl. og hv. 4. þm. Reykv. Eyjólfi Konráð Jónssyni verið sparkað af meiri hluta þingflokks sjálfstæðismanna. Hv. 3. þm. Reykv. hefur verið settur formaður í utanrmn.
    Nú vil ég að það komi fram að ég met hv. 3. þm. Reykv. ákaflega mikils og ég les greinar hans með athygli, bæði þær sem hann skrifar undir nafni og eins þær sem birtast með öðrum hætti í Morgunblaðinu. Ég er að vísu ósammála flestu sem hann lætur frá sér fara því ég hef aðrar skoðanir en hann á mjög mörgum þjóðmálum. En ég viðurkenni að hann er vinnuhestur, hreinskilinn og baráttufús. Ég tel að

hann sé mjög hentugur fyrir hið stóra blað Morgunblaðið, höfuðmálgagn Sjálfstfl. um fjölda ára, hentugur til þess að halda órofnum þræði við fortíðina, passa að kommúnisminn gleymist ekki og minna á að kalda stríðið hafi verið og sé jafnvel enn. Ég met hann mikils sem djarfan talsmann fornra sjónarmiða og út af fyrir sig bar ég traust til hans og vænti góðrar forustu hans fyrir utanrmn. En sú von mín hefur óneitanlega dvínað nokkuð við að hlusta á ræður hans hér. Ef hann færir þennan anda, sem hann hefur lagt hér inn í þessar umræður, inn í utanrmn. óttast ég að hann valdi því tæpast að hafa forustu um vönduð vinnubrögð í nefndinni eða greiða fyrir afgreiðslu EES-málsins. Hann kemur ekki hér fram í ræðustól sem forustumaður utanrmn. Hann kemur hér miklu fremur fram sem fótgönguliði fyrir ríkisstjórnina. Það flýtir ekki fyrir störfum utanrmn. ef hann flytur þann tón inn í nefndina.
    Ræða hæstv. iðnrh., Jóns Sigurðssonar, í gær olli mér líka vonbrigðum. Ég met hann líka mikils. En fullyrðingar þær sem hann hafði hér við í gær standast fæstar. Mér finnst hann tala af ótrúlegu gáleysi um stjórnarskrá lýðveldisins en hún á náttúrlega að standa hvort sem gott er í ári eða vont og, eins og hann sagði, hverjar sem þarfir þjóðfélagsins eru. Stjórnarskráin breytist ekki þó að þarfir þjóðfélagsins kunni að vera einhverjar. Það gefur manni ekki heimild til þess að fúska með stjórnarskrána, alls ekki. Stjórnarskrá lýðveldisins stendur og hana verður að halda hvort sem gott er eða vont í ári og hvort sem ríkisstjórnin stendur vel eða illa í landinu á hverjum tíma. Bágborið efnahagsástand eða óvinsæl ríkisstjórn afsakar ekki í sjálfu sér eða réttlætir með neinum hætti stjórnarskrárbrot. Það eru til tvö máltæki sem við öll kunnum og ég ætla að nefna. Nauðsyn brýtur lög er annað og hitt er: Víkingar fara ekki að lögum. Að mínu mati eru þetta hvort tveggja óskynsamleg máltæki og geta með engu móti flokkast undir spakmæli. Þessi máltæki eru búin til af yfirgangsmönnum til þess að réttlæta yfirgang og misgerðir en mér fannst hæstv. viðskrh. Jón Sigurðsson og starfandi utanrrh. þar til hinn rétti utanrrh. kemur með norðanvindinum frá Spitzbergen einhvern tíma núna um helgina. (Gripið fram í.) Það ætla ég að vona. Ég ætla að vona að hann komi frá Spitzbergen. (Gripið fram í.) Mér þætti sjónarsviptir að því ef hæstv. utanrrh. ætti ekki afturkvæmt frá Spitzbergen og legaðist þar. Það veit ég að hv. þm. og formanni þingflokks Alþfl. þætti líka. Þó að ég viti að hann dái núv. starfandi utanrrh. mjög mikið hygg ég að honum þætti vænt um að hinn kæmi heim.
    Mér fannst hæstv. viðskrh. og starfandi utanrrh. ganga fram í þessari umræðu eins og víkingur sem vill laga lögin að þörfum sínum og þörfum þjóðfélagsins og ríkisstjórnarinnar, ekki kannski bara lögin heldur sjálfa stjórnarskrána. Nauðsyn má aldrei brjóta lög, hvað þá heldur stjórnarskrá. Það er alveg sama hvaða pólitískir hagsmunir ríkisstjórnar eru í húfi. Svo eru ráðherrar núv. ríkisstjórnar að tala um það að pólitískir stundarhagsmunir ráði afstöðu okkar stjórnarandstæðinga í þessum EES-málum. Pólitískir stundarhagsmunir ráða ekki afstöðu okkar í stjórnarandstöðunni. Það eru pólitískir stundarhagsmunir sem ráða afstöðu ríkisstjórnarinnar. Ríkisstjórnin vill lögtaka EES-samninginn. Ræðumenn Sjálfstfl. eða stjórnarflokkanna, sem hér hafa talað, vilja hins vegar af hagkvæmnisástæðum ekki fara að eðlilegum starfsháttum við lögfestinguna. Mér líður illa að horfa upp á þessa léttúð ráðherranna og ég bið menn að taka eftir því að ég nota orðið léttúð en ekki ófyrirleitni því ég er kurteis maður. Ég tel að þeir noti léttúð í umgengni sinni við stjórnarskrána þessa dagana.
    Svo kem ég að hæstv. forsrh. Ég treysti því að hann heyri mál mitt þótt ekki sé hann í sínu sæti þessa stundina. ( Gripið fram í: En við tökum eftir því að þú segir.) Ég vil biðja hv. þm. að doka við og bíða eftir því sem ég hef að segja við hæstv. forsrh. --- Getur frú forseti gert ráðstafanir til þess að forsrh. sé hér nær svo ég megi eiga við hann lítinn orðastað? --- Ég býð hæstv. forsrh. velkominn í salinn og þakka honum fyrir að sýna mér það langlundargeð að hlusta á mig.
    Mér finnst að hæstv. forsrh. tali í öðru orðinu um að hann vilji standa vörð um stjórnarskrána og telur að frv. sem hér er á dagskrá slaki um of á kröfum stjórnarskrárinnar við gerð milliríkjasamninga. Hann hefur e.t.v. nokkuð til síns máls í því efni og sjónarmið hans að því leyti til er að vissu leyti virðingarvert ef ekki kæmi til að í hinu orðinu vill hann lögtaka EES-samninginn. En þetta fer bara ekki saman. Þetta stangast á.
    Nú veit ég það að hæstv. forsrh., kunningi minn, er ekki kleyfhugi og fer það þess vegna illa að koma hér fram annaðhvort sem dr. Jeckyll eða mr. Hyde. ( Gripið fram í: Eða þá hringhugi. Það eru bara tvær tegundir.) Ég legg engan dóm á það. Ég fullyrði hins vegar að hæstv. forsrh. er ekki kleyfhugi í eðli sínu. Ég bið hv. 8. þm. Reykn. að spara hér athugasemdir sínar þar til hann fær orðið síðar í umræðunum.
    Ég sagði áðan að ég væri að vissu leyti sammála forsrh. sem vill ekki opna stjórnarskrána of mikið og því vil ég hlusta á röksemdir hans. Ég tel að við eigum að búa við afdráttarlausa stjórnarskrá eins og okkar stjórnarskrá raunverulega er. Á hitt ber þó að líta að það er skárra að opna smugu þannig að hægt sé að staðfesta t.d. mannréttindasáttmála og umhverfissáttmála án stórfelldra tilfæringa svo sem stjórnarskrárbreytingar. Áskilinn er í tillögu okkar aukinn meiri hluti á Alþingi. Ég hefði persónulega viljað að meiri hlutinn væri stærri, t.d. fimm sjöttu hlutar þingheims, en samkomulag varð um að krefjast þriggja fjórðu. Þetta ákvæði sem við viljum setja í 21. gr. ásamt því að gera hana miklu fyllri en hún er í núverandi mynd gefur ákveðna tryggingu fyrir því að óprúttnir stjórnmálamenn með tæpu meirihlutavaldi á Alþingi geti ákveðið að afsala svo og svo miklu af fullveldi þjóðarinnar. Á þetta ákvæði reynir ekki hér og nú við lögfestingu EES-samningsins. Verði stjórnarskrárbreytingin samþykkt, eins og ég ætla að vona,

á þessu þingi þá verður þingrof, efnt til kosninga og stjórnarskrárbreyting samþykkt á nýju þingi. Í þessum kosningum verður að sjálfsögðu ekki einungis kosið um stjórnarskrárbreytinguna. Það verður kosið um EES-samninginn, stefnur flokka í þjóðmálum og flokkar og menn dæmdir af verkum sínum. Það er þetta sem hæstv. ríkisstjórn eða a.m.k. sumir ráðherrarnir óttast framar öðru og þess vegna vilja þeir ekki stjórnarskrárbreytingu og eru tilbúnir eða virðast tilbúnir til að loka augunum fyrir brotum á stjórnarskránni, tilbúnir til að gleyma í bili því drengskaparheiti sem þeir unnu þegar þeir tóku sæti á Alþingi í fyrsta sinn. Ég trúi því ekki að meiri hluti Alþingis sé tilbúinn að taka með svona léttúðugum hætti á drengskaparheiti sínu. Ég trúi því ekki. Það sem ynnist við samþykkt þessa stjórnarskrárfrumvarps væri að, að því samþykktu, hefðum við fengið aukna tryggingu í stjórnarskrá og aukið aðhald, að hún yrði ekki brotin af óprúttnum og naumum meiri hluta á Alþingi. Það er það sem réttlætir þessa stjórnarskrárbreytingu. Það mætti eins hugsa sér í þessu tilfelli stjórnarskrárbreytingu varðandi EES-málið, þ.e. eins og hv. frummælandi, 7. þm. Reykn., nefndi í framsöguræðu sinni, að setja inn í stjórnarskrána ,,þrátt-fyrir-ákvæði``, að þrátt fyrir ákvæði stjórnarskrár mætti staðfesta EES-samninginn.
    Hv. þm. Svavar Gestsson sem hér var næstur á undan mér í ræðustólnum talaði um hinn ægilega veruleika en mér fannst hann ekki telja hann mjög nærtækan, þ.e. inngöngu Íslands í Evrópubandalagið. Ég tel að innganga Íslands í Evrópubandalagið sé því miður komin á dagskrá hjá hluta ríkisstjórnarinnar og hluta stuðningsliðs hennar. Ég vil ekki segja hvað sá hluti er stór en þær raddir eru farnar að heyrast úr stjórnarherbúðunum og engin leið er til þess að loka eyrunum fyrir þeim og láta sem ekkert sé. Inngangan í Vestur-Evrópusambandið sem ríkisstjórnin ákvað að sækja um, þ.e. hernaðarstoð Evrópubandalagsins, er til merkis um þetta. Kosningastefnuskrá Alþfl. fyrir síðustu kosningar var til merkis um það. Aldamótanefnd Sjálfstfl., undir forustu Davíðs Oddssonar sem nú er forsrh., fyrir síðasta flokksþing Sjálfstfl. var aðvörun. Skýrsla utanrrh. í fyrravor til Alþingis var aðvörun. Blaðaviðtöl hæstv. viðskrh. í norskum blöðum í sumar eru meira en lítil aðvörun. Yfirlýsingar formanns fjárln., hv. þm. Karls Steinars Guðnasonar, og ýmissa fleiri minni spámanna eru líka aðvörun sem við getum ekki látið eins og vind um eyru þjóta. Síðast en ekki síst nefni ég skrif hv. 3. þm. Reykv., Björns Bjarnasonar. Síðasta dæmið varðandi skrifin hjá hv. 3. þm. Reykv. ætla ég að rifja upp enn og aftur, þ.e. það sem hann sagði í Morgunblaðinu þriðjudaginn 16. apríl 1991. Þar sagði hann:
    ,,Þeir sem hafa kynnt sér umræðurnar um EES og þær vonir sem bundnar eru við samningaviðræður EFTA og EB í ríkisstjórnum EFTA-landanna (utan Íslands?) vita að þar líta menn á EES sem fyrsta og annað skrefið inn í Evrópubandalagið.`` Og síðar í sömu grein sagði hann: ,,EES-samningsgerðin er skipulegasta átak sem gert hefur verið til að opna Íslandi og öðrum EFTA-ríkjum leið inn í Evrópubandalagið.``
    Þetta var og er sjálfsagt enn skoðun hv. 3. þm. Reykv. Hann hefur skrifað hverja greinina eftir aðra í sumar um það að Íslandi beri vandlega að hugleiða inngöngu í Evrópubandalagið. Hann hefur með aðdáunarhreim lýst afstöðu Finna sem tóku kollsteypu og sjá sér nú þann eina bjargræðisvott í neyð sinni, sem vissulega er ákaflega mikil, að ganga í Evrópubandalagið. Síðasta dæmið sem varar okkur við hvert stefnir eru formannsskiptin í utanrmn. Það liggur ljóst fyrir að hv. 4. þm. Reykv., Eyjólfur Konráð Jónsson, vill ekki ganga í Evrópubandalagið og vinnur gegn því opinberlega. Þess vegna sparkaði meiri hluti þingflokks sjálfstæðismanna hv. þm. úr stóli formanns utanrmn. og setti þar hv. 3. þm. Reykv., Björn Bjarnason, mann sem hvað eftir annað hefur lýst áhuga sínum á inngöngu í Evrópubandalagið. Hann er pólitískur undanfari í kapphlaupinu til Brussel. Og fjárinn má vita hvort þessi ríkisstjórn, sem við höfum hér í landinu, freistaðist ekki til að nota einfaldan meiri hluta á Alþingi til þess að knýja fram inngöngu Íslands í Evrópubandalagið, þvert á stjórnarskrána og gæti þá vitnað til þess að sú hefð hefði skapast að fara ekki nákvæmlega eftir stjórnarskránni. Hún gæti vitnað til þessa að í desember eða janúar eða hvenær sem það nú verður, þá hefði Alþingi samþykkt lögfestingu EES-samningsins þrátt fyrir stjórnarskrárákvæði þar um. Svo gætu Brussel-fararnir fengið einhverja nafnkennda lögfræðinga til þess að skrifa álitsgerð um að ekki væri verulega íþyngjandi að ganga í Evrópubandalagið og sviðin væru vel afmörkuð og ekki væri tekið fram í 2. gr. íslensku stjórnarskrárinnar að hér skyldu alíslensk stjórnvöld fara með framkvæmdarvaldið. Hver veit. Ég er ekki óttalaus.
    Mig langar til þess hér og nú að leiðrétta misskilning, svona svo öllu sé til skila haldið, sem kom fram í ræðu hv. 15. þm. Reykv., Kristínar Einarsdóttur, fyrr í dag þar sem hún hafði misskilið ummæli hv. 7. þm. Reykn., Steingríms Hermannssonar. Hann mismælti sig hér að vísu í ræðustól og sagði einu sinni þjóðaratkvæðagreiðsla í gær í staðinn fyrir stjórnarskrá en leiðrétti sig síðan strax aftur, en leiðréttingin virðist hafa farið fram hjá hv. þm. og það er okkur öllum ljóst að þjóðaratkvæðagreiðsla sem færi fram nú í haust er einungis leiðbeinandi fyrir Alþingi en breytir ekki stjórnarskrá eða heimilar að brjóta hana. Ég er meðflm. að þáltill. um að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla um EES-samninginn. Sú tillaga er alveg óháð þessu frv.
    Það er sjálfsagt að lofa þjóðinni að segja álit sitt á EES-málinu. Það er afdrifaríkasta mál sem hér hefur verið á dagskrá, a.m.k. frá lýðveldisstofnun og sennilega lengur. Ummæli hæstv. utanrrh. í framsögu með EES-frv. þóttu mér hrokafull í meira lagi og eru mér mikil hneykslunarhella þar sem hann efnislega sagði að þjóðin væri of vitlaus til þess að óhætt væri að bera málið undir hana. Nú skil ég að vísu þessi ummæli öðrum skilningi heldur en ég gerði þegar þau voru sögð eftir þær upplýsingar sem fram komu í

morgun, þ.e. að utanrrn. hafi keypt Gallup-stofnunina til að gera skoðanakönnun, en af því að utanrrn. líkaði ekki niðurstöður skoðanakönnunarinnar einhverra hluta vegna, þá liggur ráðuneytið á þessum niðurstöðum og birtir þær ekki og felur þar með upplýsingar sem keyptar voru fyrir opinbert fé. Ég vil nota þetta tækifæri, frú forseti, til þess að taka undir kröfu hv. 8. þm. Reykn., Ólafs Ragnars Grímssonar, um að þessi könnun verði birt og ekki bara þessi könnun heldur líka spurningarnar sem hugsanlega gætu hafa verið leiðandi í einhverjum atriðum.
    Ef ég væri spurður einn góðan veðurdag af Gallup hvort ég teldi mig þekkja EES-málið vel, mjög vel, þá veit ég ekki nema mér vefðist tunga um tönn vegna þess að margt er mér óljóst í því máli enn þó að ég þykist vita þó nokkuð um það og hafi eytt löngum tíma bæði í Evrópustefnunefnd, utanrmn., þingmannanefnd EFTA og víðar til þess að kynna mér þetta mál.
    Ég tel að það sé öllum fyrir bestu að niðurstöður þessarar könnunar, svo og hvernig hún var unnin, verði birtar.
    Ég tel enn fremur óhjákvæmilegt eftir það sem á undan er gengið að fundargerðir ríkisstjórnarinnar þar sem EES-málið hefur verið til umræðu, þ.e. bæði fundargerðir síðustu ríkisstjórnar og eins þeirrar sem nú situr, verði birtar. Hæstv. forsrh. braut hefð, og ég hef a.m.k. ekki orðið vitni að því hér á Alþingi áður að forsrh. hafi farið að lesa úr fundargerðum, hvorki sinnar ríkisstjórnar né annarra, með þeim hætti sem hér var gert í gær. Það er a.m.k. mjög óvenjulegt. En fram hafa komið hjá hv. 8. þm. Reykn., Ólafi Ragnari Grímssyni, ásakanir um að hæstv. forsrh. hafi farið með fölsun í upplestri sínum, þ.e. að hann hafi ekki tekið það fram að skýrsla hæstv. utanrrh. hafi verið lögð fram til upplýsingar á fundinum, sleppt því að taka það fram að hún hafi verið lögð fram til upplýsingar. Þetta eru mjög alvarlegar ásakanir og ég held að það sé líka öllum fyrir bestu að botn fáist í þetta mál og það verði að birta allar fundargerðir ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar og ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar þar sem bókað hefur verið um EES-málið vegna þess að ef ekki er eytt og bornar til baka hinar alvarlegu ásakanir hv. 8. þm. Reykn., Ólafs Ragnars Grímssonar, á hæstv. forsrh. um að hafa misfarið gróflega með sannleikann, þá skil ég ekki hvernig hæstv. forsrh. getur setið. Í mörgum löndum yrðu ráðherrar að segja af sér ef þeir gætu ekki afsannað svona ásakanir.
    Frú forseti. Ég ræddi ítarlega um stjórnarskrárþátt EES-málsins í ræðu minni á þriðjudaginn var, í fyrradag, og ég ætla ekki að endurtaka það sem ég sagði þá en vil þó aðeins hlaupa á nokkrum greinum stjórnarskrárinnar til að öllu sé til skila haldið í þessari umræðu. 2. gr. stjórnarskrárinnar hljóðar svo:
    ,,Alþingi og forseti Íslands fara saman með löggjafarvaldið. Forseti og önnur stjórnarvöld samkvæmt stjórnarskrá þessari og öðrum landslögum fara með framkvæmdarvaldið. Dómendur fara með dómsvaldið.``
    Ég tel að öll atriði þessarar greinar þarfnist athugunar og þær séu brotnar annaðhvort að efni eða anda nema hvort tveggja sé. Löggjafarvaldið er skert. Við verðum að taka við löggjöf sem aðrir setja. Við höfum að vísu formlega neitunarvaldið, getum ekki beitt því og erum tilneydd að lögtaka --- nú veit ég ekki hvort það eru 40 frumvörp á ári eða 40 lög eins og hv. síðasti ræðumaður sagði eða hvort þau eru fleiri eða færri. En allt um það, þá verðum við að setja lög eftir forskrift.
    Það má líka minna á að samkvæmt 36. gr. stjórnarskrárinnar er Alþingi friðheilagt og enginn má raska friði þess né frelsi. Alþingi á að vera frjálst að ákvarðanatöku sinni. Það er það ekki með nokkrum hætti eftir að við verðum að vinna að lagasetningunni eftir forskrift.
    Það er jafnframt tekið fram í stjórnarskránni að alþingismenn megi ekki fara eftir neinum reglum frá kjósendum sínum, þeir eigi að fara eftir samvisku sinni. Það geta þeir ekki lengur ef þeir verða að fara eftir reglum frá kjósendum úti í Evrópubandalaginu. Þetta var um löggjafarvaldið sem ég tel að sé skert og þvingað með EES-samningnum.
    Varðandi framkvæmdarvaldið er sömu sögu að segja. Hluti framkvæmdarvaldsins er fluttur úr landi og það gildir mig algerlega einu þó að fundist hafi fjórir lögfróðir menn úti í bæ sem haldi því fram, noti það sem röksemd að það sé ekki tekið fram í 2. gr. stjórnarskrárinnar að um alíslensk stjórnvöld sé að ræða sem eigi að fara með framkvæmdarvaldið, og það sé heimilt að framselja það svo og svo mikið til útlanda. Ég nefni það að ekki bara alþingismenn skv. 47. gr. stjórnarskrárinnar vinna drengskaparheit að því að halda hana og eru þar af leiðandi ábyggilega í talsverðum vandræðum, þeir sem langar til að samþykkja EES-samninginn en hafa unnið þetta drengskaparheit. Samkvæmt 10. gr. stjórnarskrárinnar vinnur líka forseti Íslands eið eða drengskaparheit að stjórnarskránni er hann tekur við störfum. Forseti Íslands vann þetta heit síðast 1. ágúst sl.
    Varðandi dómsvaldið, þá flyst það að hluta til úr landi og ég vitna til 59. gr. stjórnarskrárinnar: ,,Skipun dómsvaldsins verður eigi ákveðin nema með lögum.``
    Ég vitna til 60. gr. stjórnarskrárinnar: ,,Dómendur skera úr öllum ágreiningi um embættistakmörk yfirvalda.``
    Ég vitna til 61. gr. stjórnarskrárinnar: ,,Dómendur skulu í embættisverkum sínum fara einungis eftir lögunum.``
    Allt er þetta fyrir bí meira og minna ef þessi samningur verður lögtekinn.
    Það er nokkuð sama hvar þessari blessaðri stjórnarskrá okkar er flett. Spurningarnar vakna hvarvetna.

    Í 69. gr. segir: ,,Engin bönd má leggja á atvinnufrelsi manna, nema almenningsheill krefji, enda þarf lagaboð til.`` Hæglega getur komið til þess að þessi 69. gr. samræmist ekki að anda til þeim samningi sem hér er lagt til að verði lögfestur.
    Í 67. gr. stjórnarskrárinnar segir: ,,Eignarrétturinn er friðhelgur. Engan má skylda til að láta af hendi eign sína, nema almenningsþörf krefji; þarf til þess lagafyrirmæli, og komi fullt verð fyrir.``
    Ég hef séð drög að frv. frá hæstv. ríkisstjórn þar sem hún vill reyna að vernda auðlindir í jörðu í höndum Íslendinga með því móti að taka þær af einstaklingum sem sannanlega eiga þær og hafa lögverndaðan rétt skv. 67. gr. stjórnarskrár til þess að eiga þær og þjóðnýta og án þess að verð komi fyrir. Svona mætti lengi telja.
    Hæstv. utanrrh. taldi í framsöguræðu sinni á fimmtudaginn var fyrir frv. um EES-samninginn að, eins og hann orðaði það, álitsgerð fjórmenninganna --- ég man nú ekki hvort hann kallaði þá fjórmenninga en ég held að hann hafi notað svo stórt orð sem sérfræðingar --- hafi orðið til að eyða vafa. Ég er ekki frá því að þarna hafi hæstv. utanrrh. ratast satt á munn. Ég er ekki frá því en ekki með þeim skilningi sem hann lagði í það. Þessi álitsgerð eyddi öllum vafa í mínum huga, þ.e. ég hélt að svo kynni að vera að samningurinn bryti ekki í bága við stjórnarskrá. En eftir að ég var búinn að lesa málsvörn þeirra fjórmenninga utanrrh. þá var ég ekki í nokkrum vafa, þeir voru búnir að eyða mínum vafa. Eftir að hafa lesið hana var ég viss um það að úr því að þeir ekki fundu haldbærari rök en þeir settu fram, þá væru þau ekki finnanleg og þar af leiðandi væri ekki nokkur vafi á því að stjórnarskránni þyrfti að breyta eða það væri ekki hægt að lögtaka þennan samning samkvæmt okkar stjórnarskrá.
    Ég bendi hv. þm. á fskj. I með frv. til stjórnarskipunarlaga á þskj. 30 þar sem 1. flm. er Steingrímur Hermannsson og við nokkur ásamt honum. Fylgiskjal I er það fylgiskjal sem við teljum styðja það hvað ríkast að nauðsyn sé að breyta stjórnarskránni og eina helstu sönnunina fyrir því að EES-samningurinn samrýmist ekki íslensku stjórnarskránni, það er álit fjórmenninga utanrrh. Síðan vitnum við líka til gagnmerkra álitsgerða dr. Guðmundar Alfreðssonar þjóðréttarfræðings og prófessorsins í stjórnsýslurétti við Háskóla Íslands, Björns Þ. Guðmundssonar.
    Það væri freistandi að fara nokkrum orðum um útúrsnúninga hæstv. utanrrh. Jóns Baldvins Hannibalssonar sem hann hafði í ræðu sinni á fimmtudaginn var og um stjórnarskrárbrot fyrirfarandi ára. Það hafa vissulega komið fram álitamál um hvort tiltekin lög samræmdust íslensku stjórnarskránni. Ég nefni álitsgerðir frá Sigurði Líndal um framleiðsluráðslögin og um úthlutun kvóta. Nú vil ég ekki leggja dóm á það hvort Sigurður Líndal prófessor hefur rétt fyrir sér, en það dettur auðvitað engum í hug eins og hæstv. utanrrh. lét liggja að í útúrsnúningum sínum að breyta stjórnarskránni út af því. Ef svo fer að við komumst að því með haldbærum rökum að lögin samrýmist ekki stjórnarskránni, þá auðvitað breytum við lögunum en ekki stjórnarskránni í þessu tilfelli.
    Hv. 5. þm. Norðurl. e. Tómas Ingi Olrich ræddi hér nokkuð afstöðu Framsfl. í ræðu sinni hér fyrr í dag og hann dró mjög rangar ályktanir í máli sínu. Framsfl. studdi ákvörðunina um það að ganga til samninga um myndun Evrópsks efnahagssvæðis, setti fram ákveðna fyrirvara. Fyrirvararnir eru ekki inni í lokagerð samningsins. Þessi samningur er allt annar samningur en við ætluðumst til að gerður yrði. Hann er ekki sú tveggja stoða lausn um samskipti EFTA annars vegar og Evrópubandalagsins hins vegar sem við vonuðum að hann yrði og það lá alltaf fyrir allan tímann að við mundum þurfa að meta lokaniðurstöður samningsins, hvort hann væri aðgengilegur eða aðgengilegur ekki. Ég vildi mjög gjarnan að EES-samningurinn væri það aðgengilegur að hann væri hagstæður Íslendingum. Það vildi ég sannarlega. En því miður er þetta annar samningur en við vonuðumst eftir að gerður yrði. Ég var að vona það í síðustu kosningabaráttu, bæði fyrir og eftir, að EES-samningurinn og aðild að Evrópsku efnahagssvæði yrði valkostur fyrir Íslendinga gegn EB, þ.e. að menn yrðu ásáttir um að Evrópskt efnahagssvæði væri fullnægjandi fyrir Ísland og hættu þessari stórhættulegu ásókn um að fjötra Ísland inni í Evrópubandalaginu sem ég teldi einhverja mestu ógæfu sem yfir okkur gæti dunið af mannavöldum. En sú von er dáin. Afstaða núv. valdhafa hefur því miður deytt þessa von mína. Þeir knýja á um lögfestingu EES-samningsins vegna þess að þeir telja hana vera skref inn í Evrópskt efnahagssvæði. Og hv. 3. þm. Reykv. sagði eins og ég vitnaði til áðan: ,,EES-samningsgerðin er skipulegasta átak sem gert hefur verið til að opna Íslandi og öðrum EFTA-ríkjum leið inn í Evrópubandalagið.`` Vitnaði ég hér, með leyfi forseta, til blaðagreinar í Morgunblaðinu eftir títtnefndan hv. 3. þm. Reykv., Björn Bjarnason. Og ég er alveg viss um það að þessir menn, þessir áköfu baráttumenn fyrir inngöngu Íslands í Evrópubandalagið, verða ekki til friðs þó að EES-samningurinn verði samþykktur. EES-samningurinn verður ekki varanlegur áfangastaður fyrir Ísland að þeirra mati. Þeir halda áfram. Þeir vilja bara hafa þetta fyrir áningarstað.