Stjórnarskipunarlög

9. fundur
Fimmtudaginn 27. ágúst 1992, kl. 17:42:21 (140)


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég átta mig ekki alveg á því hvers vegna hv. 8. þm. Reykn. óskar svona eindregið og fast eftir því að fá alla pappírana á borðið því að mér heyrist nú á honum að hann telji sig fullvel vita hvar þeir séu niður komnir og hvað í þeim standi þannig að hann virðist þekkja málið betur en hann lætur í skína og það sýnir enn betur að á þessu máli hefur engin launung verið eða leynd úr því að hv. þm. er svona vel kunnugt um tilurð þessarar könnunar, inntak hennar, umfang og hvar hún sé staðsett. Það er meira en ég veit.
    En ég tek það fram vegna þess sem hér var áður sagt um það að hún yrði fyrst lögð fram í utanrmn. þá er það að sjálfsögðu af tilliti til þeirrar nefndar og virðingu fyrir hennar störfum, að þar sé hinn eðlilegi vettvangur að kynna þetta mál og ég vona að hv. 8. þm. Reykn. sé mér sammála um það.