Evrópskt efnahagssvæði

10. fundur
Mánudaginn 31. ágúst 1992, kl. 13:35:52 (146)

     Jón Helgason :
    Hæstv. forseti. Hæstv. utanrrh. finnst sennilega skörin vera farin að færast upp í bekkinn þegar einn af hinum vanþakklátu oföldu kálfum, sem hann ræddi um í framsöguræðu sinni, kemur í þennan ræðustól til að taka þátt í umræðu um frv. hæstv. ríkisstjórnar um Evrópskt efnahagssvæði, sem við hv. alþm. erum víst allir sammála um að getur orðið afdrifaríkasta mál sem Alþingi hefur fengið til meðferðar frá stofnun lýðveldisins. Ég vek ekki athygli á þessum ummælum hæstv. utanrrh. í framsöguræðu hans um íslenska bændur vegna þess að það sé nýlunda að heyra slíkt hjá honum, heldur vegna þess að mér

finnast þau skýrt dæmi um það skítkast og skæting sem einkenndu ræðuna í stað málefnalegra skýringa á kostum og göllum þessa mikilvæga málefnis.
    Rauður þráður í ræðunni voru ásakanir um tvöfeldni í garð fyrrv. samstarfsflokka í ríkisstjórn sem stóðu að samþykkt um að ganga til samninga um Evrópska efnahagssvæðið með ákveðnum fyrirvörum árið 1989, af því að við viljum nú skoða með gagnrýnum augum útkomuna þegar hún er smátt og smátt að birtast okkur í hinu gífurlega pappírsflóði sem er að koma á borð þingmanna.
    Þegar ákvörðunin um að EFTA-ríkin gengju til samninga við Evrópubandalagið var tekin árið 1989 taldi ég að þá værum við fyrst og fremst að ganga til samninga um útvíkkun á þeim viðskiptasamningum sem við höfum innan EFTA og með bókun 6 við Evrópubandalagið, ekki stefna að pólitískum samruna eins og virðist leiða af þeim gögnum sem nú eru lögð fyrir okkur. Sú staðreynd kemur hins vegar víða fram og birtist mér m.a. í erlendri fréttaskýringu, rétt eftir að Danir felldu Maastricht-samkomulagið, þar sem sagði að að því felldu þá mundi það skilja Dani eftir í lakari stöðu en EFTA-löndin sem hafa sameinast Evrópubandalaginu í Evrópsku efnahagssvæði eða áforma að gera það. Það gefi EFTA-löndunum tækifæri til að hafa áhrif á lög hins sameiginlega markaðar Evrópubandalagsins sem muni skapa grundvöll og löggjöf þess. Fáum mun hægt að telja trú um að við getum ráðið miklu um lagasetningu Evrópubandalagsins en eftir að við höfum tengst eða gengið í Evrópska efnahagssvæðið, þá tengir það okkur og EFTA-ríkin Evrópubandalaginu nánar en Danir eru án Maastricht-samkomulagsins samkvæmt þessari fréttaskýringu. Það er því ekki aðeins réttur þeirra sem samþykktu að fara í þessar viðræður árið 1989 að vita hvaða ávinning við gætum fengið úr úr þeim að fara eftir hinum hollráðu ábendingum og áskorunum um að skoða hvert einasta atriði þeirra með gagnrýnu hugarfari heldur beinlínis skylda. Ábyrgð þeirra er að sjálfsögðu meiri en annarra ef hrapallega tekst til. Jafnvel þó við hefðum séð fyrir niðurstöður samningsins í smáatriðum árið 1989 og verið samþykk þeim væri engu að síður nauðsynlegt að skoða þær nú í nýju ljósi vegna alls þess sem gerst hefur á alþjóðavettvangi síðan og flestir viðurkenna að hafi skapað breytta heimsmynd.
    Ég ætla ekki að rekja þá breytingu en læt nægja að nefna aðeins andstöðu Dana við Maastricht-samkomulagið og þau áhrif sem hún virðist hafa haft á viðhorf almennings í mörgum löndum hins væntanlega Evrópska efnahagssvæðis til þessarar bandalagsstefnu. En að sjálfsögðu byggist sú viðhorfsbreyting á mati af þeirri reynslu sem þessar þjóðir hafa fengið eftir því sem tíminn líður.
    Í frétt í blaðinu The European, sem var í setustofu okkar þingmanna í síðustu viku, er sagt að nú væru eins miklar líkur til að Frakkar felldu Maastricht-samkomulagið í almennri þjóðaratkvæðagreiðslu í næsta mánuði. Í þessari frétt er eftirfarandi setning um Maastricht-samkomulagið í lauslegri þýðingu, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Nú hafa meira að segja sumir háttsettir embættismenn í Evrópubandalaginu viðurkennt að Maastricht-samkomulagið hafi verið úr tengslum við almenningsálitið og þar með að það hafi átt skilið höfnun Dana. Einn þeirra sagði um leið og hann lýsti undrun á dirfsku samningsins: Við sjáum nú að samningurinn gekk of langt á sviði pólitískrar samvinnu og var ekki líklegur til að geðjast neinum.``
    Hér er sett fram sú skoðun að kerfið í Brussel sé búið að byggja upp sinn eigin heim sem ekki er í tengslum við raunveruleikann. Þetta kerfi reyni svo að auka völd sín og áhrif í andstöðu við vilja og hagsmuni fólksins.
    Það eru því lítil sannindi í ásökun hæstv. utanrrh. í framsöguræðu hans um óyfirstíganlega vanmetakennd þeirra Íslendinga sem vilja beita rökréttri hugsun og heilbrigðri dómgreind við ítarlega skoðun á þessu örlagaríka máli. Þvert á móti höfum við, sem það viljum gera, svo mikla trú á kostum landsins og viti, þekkingu og framtaki þjóðarinnar að við teljum að hún eigi margra góðra kosta völ ef rétt er á málum haldið.
    Það er að vísu erfitt að ætla sér að keppa við þá skýjaborg sem hæstv. utanrrh. ætlar samningnum að reisa hér þar sem gullgæsirnar hans eiga að koma fljúgandi til þeirra sem á þær vilja kalla. En á meðan hæstv. ráðherra finnur þeirri skýjaborg ekki fastari

grundvöll að standa á en fram kom í ræðu hans er erfitt að treysta því að hún muni veita okkur skjól. Þar gætu þó skýr svör við einföldum spurningum veitt nokkrar upplýsingar. Því vil ég spyrja hæstv. utanrrh. hvort hann ætli EES-samningnum að skapa hér svipað ástand í efnahags-, atvinnu- og félagsmálum og nú er í Evrópubandalagslöndunum. Þar er margt hægt að bera saman, en ég nefni aðeins eitt. Við vitum að þar er gífurlegt atvinnuleysi sem óttast er að fari enn vaxandi. Í fréttum frá Bretlandi, sem liggur okkur næst, var í sumar sagt að allt að þriðjungur ungs fólks í sumum borgum hefði enga atvinnu. Afleiðingarnar væru örvænting, upplausn og óeirðir sem enginn kynni ráð við. Þar í landi fleyta samt sjálfsagt margir rjómann ofan af á kostnað þess hluta þjóðarinnar sem kaffærist. Er það slíkt samfélag sem hæstv. utanrrh. vill skapa hér? Eða telur hæstv. ráðherra líklegt að þegar Íslendingar verða komnir undir hina stóru sæng Evrópska efnahagssvæðisins muni þar verða einhver staður sem veiti okkur betri yl en öðrum? Er ekki líklegra að það verði hinir sterkari sem þar nái í bestu aðstöðuna jafnvel þó við vantreystum ekkert yfirlýsingum í skálaræðum, sem hæstv. ráðherra ræddi um og við skiljum mætavel að ráðherrarnir kjósi stundum að gleymdust fljótt.
    En ef við viljum hvorki leiða yfir okkur ástand sem nú er í Evrópubandalagslöndunum né teljum líklegt að okkar hlutur verði þar betri en annarra, telur hæstv. utanrrh. þá að innganga Íslands og annarra EFTA-landa í Evrópska efnahagssvæðið muni bæta svo hag Evrópubandalagsins að það sé eftirsóknarvert að rugla reytum okkar sem mest saman með þeim?
    Við sem spyrjum slíkra spurninga og óskum eftir svörum við þeim fáum ásakanir um að vilja hafa þetta gullna tækifæri af þjóðinni. Jafnframt er bæði beint og óbeint gefið í skyn að þjóðinni yrði varpað út í ystu myrkur einangrunar og fátæktar og allar bjargir bannaðar þar sem þetta tækifæri komi aldrei aftur ef það verður ekki notað nú. Það er þessi einstrengingslegi málflutningur sem vekur líka þá spurningu af hverju málstaðurinn þurfi á honum að halda. Það hefði óneitanlega verið meira traustvekjandi ef hæstv. utanrrh. hefði líka vikið eitthvað að hinni hliðinni. Hver verður t.d. beinn útlagður kostnaður okkar af aðildinni? Hvert verður gjald okkar til EFTA vegna þess kerfis sem þar þarf að koma upp? Hve há verður greiðsla okkar til byggðastyrkja í Evrópubandalagslöndunum? Verður hún margföld á við það sem núv. hæstv. ríkisstjórn telur rétt að verja til byggðamála á Íslandi? Og hversu marga þarf íslenska ríkisstjórnin að ráða til að vinna á sínum vegum að EES-málum bæði hérlendis og erlendis? Og hver er áætlaður kostnaður við það?
    Í lögum er ákvæði um að áætlun um aukin útgjöld skuli fylgja frumvarpi. Af hverju minntist hæstv. utanrrh. ekkert á það sem lagaskylda er að gera í framsöguræðu sinni eða greinargerð með frv.? Og að lokum má spyrja: Hvað hafa margir nú þegar verið ráðnir til starfa og hver verður kostnaðurinn við það á þessu ári, hvernig sem afgreiðslu samningsins um Evrópska efnahagssvæðið reiðir af hér og í öðrum EFTA-löndum?
    Ég tel líka að það sé lágmarkskrafa að við fáum skipurit til að skýra í grófum dráttum allt þetta flókna kerfi sem við eigum að beygja okkur undir. Hvað á að koma á fót mörgum stofnunum, nefndum og ráðum og hvernig eiga málefni okkar að ganga þar á milli Heródesar og Pílatusar? Ef málin hefðu verið kynnt þannig fyrir þjóðinni á myndrænan hátt í stað orðavaðals eins og í framsöguræðu hæstv. ráðherra, þá hygg ég að þjóðin fengi næga þekkingu til að taka afstöðu til málsins.
    Í útvarpsspjalli á laugardaginn kom fram sú ábending að gagnlegra hefði verið fyrir hæstv. ráðherra að leita til Námsgagnastofnunar til að útbúa eitthvert slíkt efni í staðinn fyrir að snúa sér að auglýsingastofum um útgáfu áróðursbæklinga.
    Að sjálfsögðu vöknuðu fjölmargar aðrar spurningar undir framsöguræðu hæstv. utanrrh. Þegar hann ræddi um bókun 3 við samninginn þar sem kveðið er á um jöfnunargjöld á unnar landbúnaðarvörur, vék hann ekkert að því sem kom fram í umræðum um það mál á Alþingi á sl. vori. Þá sögðu hæstv. landbrh. og viðskrh. að ágreiningur væri milli íslensku ríkisstjórnarinnar og Evrópubandalagsins um skilning á ákvæði sem hæstv. utanrrh. féllst á að setja inn í samninginn að kröfu Evrópubandalagsins 4. des. 1991 um að þau skuli aldrei eða undir engum kringumstæðum, eins og segir í frumtextanum, vera hærri en

árið 1991.
    Hæstv. viðskrh. var þá svo hreinskilinn að segja, með leyfi forseta, að ,,orðalagið hefði mátt vera þéttara. En úr því verður bætt á vettvangi samningsaðila eins og ákvæði segja til um í samningnum. Málið verður útkljáð á vettvangi sameiginlegu nefndarinnar sem ákvæði eru um í samningnum.`` Með öðrum orðum, við eigum að samþykkja samninginn enda þótt við vitum ekki nema í honum séu ákvæði sem skerða markað íslenskra mjólkurvara um 10%. Samkvæmt ummælum hæstv. viðskrh. fæst niðurstaða um það ekki fyrr en eftir að samningurinn hefur tekið gildi, sameiginlega nefndin tekin til starfa, ágreiningnum vísað til hennar og hún fellt úrskurð sinn.
    Aðrar EFTA-þjóðir eins og Norðmenn og Finnar, sem gerðu sérstakar bókanir til að tryggja hagsmuni sína á þessu sviði, hafa reyndar ekki verið í neinum vafa um að Íslendingar sömdu algjörlega af sér. Þrátt fyrir þessi tilvitnuðu orð hæstv. viðskrh. á Alþingi í vor gaf landbrh. út eftirfarandi yfirlýsingu í tengslum við gerð búvörusamnings varðandi töku jöfnunargjaldanna. Þau mál töldu fulltrúar framleiðenda vera óljós og ófullnægjandi vegna þess að skýringar stjórnvalda höfðu ekki fengist. Í þeirri yfirlýsingu segir svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Til fulltrúa ríkisins í samninganefnd við búvörusamninga.
    Ríkisstjórnin hefur fjallað um fyrirspurn fulltrúa ríkisins í samninganefnd við búvörusamninga varðandi yfirlýsingu um álagningu og töku verðjöfnunargjalda af unnum innfluttum landbúnaðarafurðum í væntanlegum EES-samningi sem kemur fram í erindi til ríkisstjórnarinnar frá 10. ágúst sl.
    Ríkisstjórnin staðfestir að tekin verða að fullu breytileg gjöld skv. 2. gr. bókunarinnar um almenna meginreglu verðjöfnunar við innflutning vara sem falla undir tollflokka sem taldir eru upp í 1. málsgr. 2. tölul. í 5. gr. í viðbæti 1 við bókun 3 með EES-samningi.
    Af öðrum vörum sem falla undir bókunina fer hins vegar eftir 2. málsgr. 2. tölul. 5. gr. í viðbæti 1.
    Fulltrúum ríkisins er hér með falið að kynna fulltrúum bænda í samninganefndinni hvernig fyrirhugað sé að að framkvæmd verði staðið samkvæmt ofanskráðu. --- Halldór Blöndal.``
    Hér fullyrðir ríkisstjórnin að jöfnunargjöld verði tekin þrátt fyrir fyrrnefnd ummæli hæstv. viðskrh. þar sem hann segir að um heimild til þess að taka þau verði ekki vitað fyrr en sameiginlega nefndin hafi útkljáð ágreining. Því hlýtur sú spurning að vakna hvort það var ósatt sem hæstv. viðskrh. sagði á Alþingi í vor þegar hann sagði að það lægi ekki fyrir fyrr en að löngum tíma liðnum. Eða af hverju segja ráðherrar eitt í dag og annað á morgun um þetta atriði? Og af hverju minntist hæstv. utanrrh. ekkert á þennan ágreining heldur fullyrti að samningurinn bitnaði ekki á landbúnaðinum?
    Fyrst og fremst er þó ástæða til að spyrja: Af hverju varð hæstv. utanrrh. við kröfu Evrópubandalagsins um að bæta þessu fráleita ákvæði inn í samninginn 4. des. 1991, einum og hálfum mánuði eftir að hann sagði Alþingi að loknum fundi 22. okt. að samningurinn væri fullfrágenginn og tilbúinn til undirritunar? Sagði hann Alþingi þá ósatt? Enn fremur má spyrja: Hefur hæstv. ráðherra gert margar aðrar slíkar breytingar á samningnum að kröfu EB eftir að hann sagði Alþingi að samningurinn væri fullfrágenginn? Eru mörg önnur atriði í samningnum sem nú þegar er ágreiningur um skilning á milli ríkisstjórnarinnar og Evrópubandalagsins sem verða að bíða eftir úrskurði sameiginlegu nefndarinnar til að fá niðurstöðu um? Fyrir utan það sem allir vita um fiskveiðisamninginn og enn er ófrágenginn. Er það virkilega svo að það skipti ekki öllu máli hvað stendur í samningnum og fylgigögnum hans? Sú spurning vaknar eftir það sem kom fram á viðræðufundum EFTA og Evrópubandalagsins um framkvæmd landbúnaðarmála fyrr í sumar. Þar vildu fulltrúar Evrópubandalagsins lítt hlusta á rök EFTA-fulltrúanna og sögðu að svona væri þetta hjá Evrópubandalaginu og þannig skyldi það vera því þangað yrðu EFTA-löndin hvort sem er komin innan skamms. Það er reyndar í samræmi við mörg ákvæði samningsins um að ekkert megi stangast á við dóma og úrskurði Evrópubandalagsins.

    Erfitt var að skilja hæstv. utanrrh. þegar hann ræddi um forúrskurði dómstóla sem hann taldi Íslendingum mikilvæga. Hann virtist telja það jákvætt að Evrópubandalagsdómstóllinn hafnaði sameiginlegum dómstól svo niðurstaðan varð sérstakur EFTA-dómstóll, hliðstæður EB-dómstólnum.
    107. gr. samningsins fjallar um þetta og er hún þannig, með leyfi forseta:
    ,,Í bókun 34 eru ákvæði er gefa EFTA-ríki kost á að heimila dómstóli eða rétti að biðja dómstól Evrópubandalaganna að ákveða túlkun EES-reglna.``
    1. gr. bókunar 34 er þannig, með leyfi forseta:
    ,,Þegar vafi leikur á túlkun ákvæða í samningnum, sem að efni til er eins og ákvæði í stofnsáttmálum Evrópubandalagsins, með áorðnum breytingum eða viðbótum, eða gerðum sem samþykktar hafa verið samkvæmt honum, í máli sem er fyrir dómstóli eða rétti í EFTA-ríki, getur dómstóllinn eða rétturinn, telji hann það nauðsynlegt, beðið dómstól Evrópubandalaganna að taka ákvörðun í slíku máli.``
    Hér er á báðum stöðum talað um dómstól Evrópubandalaganna. Er varla hægt að skilja annað á orðanna hljóðan en hér sé átt við einn sameiginlegan dómstól, eða hver er skýringin á þessu orðalagi þegar kemur hins vegar fram að dómstólarnir eiga að vera tveir?
    Í athugasemdum með 107. gr. segir hins vegar svo m.a., með leyfi forseta:
    ,,Með 107. gr. og bókun 34 við EES-samninginn er opnað fyrir þann möguleika að dómstólar í EFTA-ríkjunum geti leitað eftir forúrskurði til EB-dómstólsins ef vafi rís um túlkun á þeim reglum EES-samningsins sem eru eins og EB-réttur. Forúrskurður felur í sér að EB-dómstóllinn úrskurðar um túlkun á EES-reglu áður en dómstóll í aðildarríki kveður upp endanlegan dóm í máli sem byggist á slíkri EES-reglu. Dómstólar í EFTA-ríkjunum væru bundnir af slíkum úrskurði ef eftir honum væri sótt.``
    ,,Skilyrði fyrir heimild dómstóla í EFTA-ríkjunum til að leita eftir forúrskurði til EB-dómstólsins er að viðkomandi ríki hafi tilkynnt um að það ætli að nota bókun 34 og heimila dómstólum sínum að sækja forúrskurði til EB-dómstólsins. Bókunin getur ekki tekið gildi fyrir Ísland án slíkrar tilkynningar. Enga nauðsyn ber til þess að gefa slíka tilkynningu. Slík heimild til handa íslenskum dómstólum mundi krefjast lagaheimildar og jafnvel stjórnarskrárbreytingar. Ekkert EFTA-ríki hefur gefið til kynna að það komi til með að heimila dómstólum að nota þessa heimild.
    Í samningi milli EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls er gert ráð fyrir að EFTA-dómstóllinn hafi vald til að gefa álit um túlkun á EES-reglum samkvæmt beiðni frá dómstólum í aðildarríkjum. Slík álit yrðu ekki bindandi fyrir íslenska dómstóla.``
    34. gr. samnings milli EFTA-ríkjanna um stofnun dómstóls er þannig, með leyfi forseta:
    ,,EFTA-dómstóllinn hefur lögsögu til að gefa ráðgefandi álit varðandi túlkun á EES-samningnum. Komi upp álitamál í þessu sambandi fyrir dómstóli í EFTA-ríki getur sá dómstóll eða réttur, ef hann álítur það nauðsynlegt til að geta kveðið upp dóm, farið fram á að EFTA-dómstóllinn gefi slíkt álit. EFTA-ríki getur í eigin löggjöf takmarkað rétt til að leita eftir slíku ráðgefandi áliti við dómstóla og rétti geti úrlausn þeirra ekki sætt málskoti samkvæmt landslögum.``
    Eins og fram kemur hér er 107. gr. túlkuð svo að um tvo dómstóla sé að ræða. En af hverju talaði hæstv. utanrrh. aðeins um EFTA-dómstólinn í ræðu sinni? Ætlar ríkisstjórnin ekki að nota heimildina um forúrskurð EB-dómstólsins? Af hverju finnst hæstv. ráðherra mikilvægt að leita forúrskurðar EFTA-dómstólsins, í stað þess að treysta á dómgreind íslenskra dómara, en ekki til EB-dómstólsins?
    Í athugasemdum með frv. til laga um öflun álits EFTA-dómstólsins um skýringu samningsins um EES, sem nú hefur verið lagt fram frá dómsmrh., segir, með leyfi forseta:
    ,,Álitið á aðeins að vera ráðgefandi, eins og segir í 1. mgr. 1. gr. frumvarpsins, og bindur það því ekki héraðsdómara við úrlausn máls, þótt vissulega verði að telja að eftir því yrði að öðru jöfnu farið, að því leyti sem úrlausnin veltur á álitaefninu.``
    Hæstv. dómsmrh. virðist því telja að íslenskur dómari sé mjög háður slíkum forúrskurði þó ekki sé kveðið eins fast að orði og um EB-úrskurði enda erfitt að sjá hvaða staða er að ganga gegn honum. Það kom líka skýrt fram í máli hv. 10. þm. Reykv. fyrr í þessari umræðum að hér er aðeins verið að fara krókaleið að því markmiði að EB-úrskurði skulum við hlíta.
    Drög dómsmrh. að frv. til laga um breytingu á ýmsum lögum sem varðar réttarfar, atvinnuréttindi og fleira vegna aðildar að samningnum um EES voru lögð fyrir allshn. fyrir skömmu og því frv. hefur verið dreift á hv. Alþingi.
    Við athugun nefndarinnar á þessu frv. komu fram margar spurningar. Í athugasemdum við 3. gr. frv. er fjallað um bókun 5, um stofnsamþykkt EFTA-dómstólsins, og segir þar m.a. að í 23. gr. samþykktarinnar sé byggt á því að vitnaleiðslur fari fram fyrir dómstólunum sjálfum í samræmi við starfsreglur dómstólsins. EFTA-dómstóllinn geti kvatt vitni eða sérfræðing fyrir sig. Í tengslum við þá heimild, segir eftirfarandi í íslenskri þýðingu á 26. gr. hennar:
    ,,Reynist vitni óáreiðanlegt eða rjúfi vitni eða sérfræðingur eið skal EFTA-ríki fara með slíkt brot á sama hátt og brot gegn dómstóli sínum á sviði einkaréttar. Hlutaðeigandi EFTA-ríki skal í því tilviki fara í mál við viðkomandi fyrir það til bærum dómstóli.``
    Því næst segir: ,,Þessi þýðing ákvæðisins er ekki í samræmi við frumtexta greinarinnar.``
    Nú hljóta alltaf að geta gerst mistök við þýðingu á svo miklu og erfiðu efni eins og samningurinn og öll fylgigögn hans eru. Hins vegar eru liðnar nokkrar vikur síðan þetta kom í ljós og formaður allshn. hafði þá þegar sent þennan texta til umsagnar margra aðila áður en hann var lagður fyrir nefndina. Þannig var með frv. dómsmrh. búið að tilkynna fjölmörgum aðilum nokkru áður en hæstv. ráðherra flutti sína ræðu að þýðing samningsins væri í einhverjum atriðum ekki í samræmi við frumtextann. Þrátt fyrir það sér hæstv. ráðherra enga ástæðu til að sýna hv. alþm. þá tillitssemi að hafa fyrirvara um það í framsöguræðu sinni og benda á þau atriði sem þegar er vitað um.
    Í þessu frv. hæstv. dómsmrh. kemur einnig hvað eftir annað fram að dómar Evrópudómstólsins hafi mikil áhrif á framkvæmd reglna og tilskipana Evrópubandalagsins sem við eigum nú að lögfesta. Hæstv. utanrrh. hefur líka hvað eftir annað lýst því hér yfir að engin þörf sé fyrir hv. alþm. að hafa neina vitneskju um það hvað í þeim stendur þegar spurt er um þýðingar á þeim.
    Í frv. er einnig ákvæði um rýmkun á réttindum til fasteignakaupa en ekki til að þrengja þau, og segir m.a. í grg., með leyfi forseta:
    ,,Það leiðir af III. hluta samnings um Evrópska efnahagssvæðið og viðaukum V, VII og XII að veita verður ríkisborgurum annarra samningsríkja sama rétt til fasteignakaupa hér á landi og íslenskum ríkisborgurum að því leyti, sem það er nauðsynlegt til að nýta þau réttindi sem samningurinn veitir til frjálsra fólksflutninga, staðfestu og þjónustustarfsemi. Með ákvæðum 20.--23. gr. frumvarpsins eru lagðar til nauðsynlegar breytingar á lögum nr. 19/1966 um eignarrétt og afnotarétt fasteigna þessu til samræmis.
    Í 22. gr. frumvarpsins er gengið út frá því að sá, sem nýtur ofangreindra réttinda, þurfi ekki að afla sérstaks leyfis til fasteignakaupa hér á landi.``
    Um þetta efni er einnig fjallað í álitsgerð þeirra Ólafs Walters Stefánssonar, Stefáns Más Stefánssonar og Tryggva Gunnarssonar sem þeir gerðu fyrir dómsmrn. og landbrn. Þar er margítrekað að allar takmarkanir á landslöggjöf sem fela í sér misrétti EES-þegna eru andstæðar EB-rétti og bannaðar. Og jafnframt að dómstóll EB hafi mikil áhrif við þróun fordæmisreglna á þessu sviði því það séu dómar hans sem skipti hér máli.
    Enn fremur segir þar, með leyfi forseta:
    ,,Í öllum tilvikum er það þó skilyrði að reglurnar séu með þeim hætti að þeim sé beitt þannig að ekki feli í sér mismun gagnvart þeim sem getur byggt rétt á EES-reglum samkvæmt framansögðu.
    Sá sem kaupir fasteign hér á landi með stoð í EES-rétti samkvæmt framangreindu verður væntanlega ekki beittur misrétti með hliðsjón af þjóðerni sínu við hóflega öflun fasteigna til tímabundinnar dvalar, t.d. sumarbústaða. Öflun lands og jarða verður aðeins bundin skilyrðum t.d. um búsetu sem ekki fela í sér misrétti.``
    Það er því vandséð að mikið hald sé í girðingum hæstv. utanrrh. um þá möguleika sem hann telur að séu fyrir hendi til að hindra landakaup útlendinga á meðan ekki kemur nokkur stafur á blaði um það frá ríkisstjórninni, enda verðum við alltaf að hafa það í huga að það er ekki vilji Íslendinga, hugkvæmni við byggingu girðinga eða lög frá Alþingi sem ræður því hvernig framkvæmdin verður heldur fyrst og fremst túlkun Evrópubandalagsins.
    Hæstv. utanrrh. hæddist að kjarnleysi forustumanna sjávarútvegsins fyrir að þora ekki að mæla með samningnum þrátt fyrir að hann muni að mati hæstv. ráðherra verða lyftistöng til fjölbreyttra atvinnuhátta. Ekki skal lítið gert úr gildi þess að skapa sjávarútveginum betri kjör. En ég hef í sumar komið í fleiri en eitt frystihús þar sem fiskur er unninn í neytendapakkningar í miklu magni og seldur beint í erlendar verslanir, tollfrjáls með góðu verði. Það er því alrangt að tollur sé á öllum unnum fiski til Evrópubandalagsins og tollur komi í veg fyrir alla vöruþróun, þvert á móti, þarna var um fullunnar neytendapakkningar að ræða.
    Hæstv. utanrrh. vitnaði í fríverslunarsamning Bandaríkjanna og Kanada máli sínu til stuðnings í framsöguræðu sinni. Þessi málflutningur hæstv. ráðherra gefur mér tilefni til að vitna í nokkur atriði um undirbúning og framkvæmd þess samnings sem koma fram í kanadískri bók er kom út á síðasta ári. Höfundur hennar heitir Mel Hurtig. Er hann fyrirlesari, rithöfundur og stjórnmálamaður sem hefur verið heiðraður af mörgum kanadískum háskólum og fengið fjölda annarra viðurkenninga. Í upphafi bókarinnar segir hann m.a., með leyfi forseta, að í ársbyrjun 1985 hafi áætlun kanadísku ríkisstjórnarinnar verið að byrja að mynda andstöðu svo að um mitt ár var það augljóst að ríkisstjórnin þyrfti mikið áróðursátak. Fríverslunarsamningurinn var ákaft gylltur fyrir Kanadamönnum sem allra meina bót við öllu því sem þjakaði Kanada. Aldrei fyrr í sögu þjóðarinnar hafi svo miklu afli og svo miklum peningum verið veitt í svo öfluga fjölmiðlabaráttu sem ætluð var til að hafa áhrif á skoðanir fólks og niðurstöðu kosninga. Ríkisstjórnin með nokkrum héraðsstjórnum í félagi við stórfyrirtækin, bæði innan og utan Kanada, varði fjármagni sem á sér enga hliðstæðu til að sannfæra Kanadamenn um að hinn áformaði fríverslunarsamningur væri ekki aðeins nauðsynlegur heldur væri hann örugglega allra meina bót fyrir efnahagsvandamál þeirra. Mest af hinum mörgu tugum milljóna dollara sem eytt var í þessa baráttu kom annaðhvort frá skattgreiðendum eða frá aðilum sem ekki voru gefnar upplýsingar um hverjir væru. Mikið kom frá fyrirtækjum sem stjórnað var af erlendum aðilum.
    Þegar lokasamningurinn var loksins kynntur almenningi til skoðunar 11. des. 1987 hafi margt óvænt komið í ljós. Samningamenn Kanada höfðu látið undan á mörgum mjög mikilvægum sviðum, mjög mikið var slakað á reglum um hindrun á eignaraðild Bandaríkjamanna, heimildir Kanada til að stjórna eigin orkubirgðum og orkuverði voru stórlega skertar og tilslökun á hlut Kanada í auðlindum sínum. Allan tímann var kanadísku þjóðinni kynntur samningurinn sem var undirritaður undir því yfirskini að þeir væru að losna við tolla. Neysluvöruverð mundi lækka og útflutningur verða auðveldari með öruggum aðgangi að Bandaríkjamarkaði. Raunverulega var tollalækkun aðeins lítill hluti af víðtækum lista yfir mikilvæg svið viðræðna. Um mörg þeirra vissi þingið, fjölmiðlar og kanadíska þjóðin ekki en Kanada lét af hendi verslanir, jarðir, hús og verksmiðjur til að fá það sem kynnt var sem ,,öruggur aðgangur``. Það er nú augljóst að hann fengu þeir ekki. Fyrstu tvö ár samningsins hefur viðskiptajöfnuður við Bandaríkin versnað, ekki batnað, bandarísk lög, ekki alþjóðalög, eru oftast lögð til grundvallar við lausn á viðskiptaárekstrum Kanada og Bandaríkjanna.
    Eftir að GATT-samningur í Tókíó 1979 var kominn til framkvæmda voru tollar á iðnaðarvörum frá Kanada til Bandaríkjanna aðeins 4% af tollskyldum vörum. 80% af kanadískum útflutningi til Bandaríkjanna var tollfrjáls. Augljóslega voru tollar ekki hindrun fyrir mestan hluta af útflutningi Kanada til Bandaríkjanna. Í mörg ár hafði Kanada haft jákvæðan viðskiptajöfnuð við nágrannann í suðri.
    Það ótrúlega gerðist að meðan samningamenn Kanada veittu margar örlagaríkar eftirgjafir, svo að möguleikar þeirra til að skipuleggja eigin framtíð og stjórna eigin efnahag minnkuðu mjög, allt til þess að fá öruggan aðgang að Bandaríkjamarkaði og losna við hinn litla toll sem eftir var, þá leyfðu þeir bandaríska dollaranum að hækka nærri því um 25% frá því að fríverslunarsamningurinn kom á dagskrá í Kanada og þangað til hann tók gildi 1989. Ótrúlegt. Kanadamenn létu af hendi stjórn á eigin landi til að losna við toll sem nam 2--3% og á sama tíma var samþykkt áætlun sem lagði 25% refsigjald á allan kanadískan útflutning til Bandaríkjanna. Hið háa gengi Kanadadollars bæði hindrar útflutning og eykur innflutning. Hvernig gat Kanada verið svo heimskt að fara inn á leikvöll samningsins og senda lið út á völlinn með þunga járnkúlu og sverar keðjur hárra vaxta og tilbúið hátt gengi dollarans?
    Kanada á nú í miklum efnahagslegum og stjórnmálalegum erfiðleikum. Þeir sem trúa á eigið land og telja mikilvægt að halda tilveru sinni skulu gera það sem þeir geta til að kynna þessar upplýsingar fyrir vinum, ættingjum og samborgurum. Ef Kanada ætlar að halda velli verður að fella ríkisstjórn Mulroneys í næstu kosningum og það verður að mynda í staðinn ríkisstjórn sem hefur afl og visku til að ógilda hinn hræðilega samning og færa Kanada aftur þau grundvallarverðmæti sem flestir Kanadamenn hafa lengi virt og eflt: sanngirni, samúð, lýðræðislegar endurbætur, jafnrétti og efnahagsstefnu sem virðir mannleg verðmæti.
    Ég ætla ekki að draga þessa umræðu með lengri endursögn úr þessari bók en margt er í henni sem er áreiðanlega gagnlegt fyrir hv. alþm. að lesa. Ég vil því bæta henni við þau gögn sem hv. 8. þm. Reykn. benti á að gott væri að kynna sér um þennan samning. En í tilvitnunum sem ég las kemur fram að kanadíska ríkisstjórnin hefur fallið fyrir freistingunni að oftúlka þýðingu tollalækkunarinnar eins og mér virðist hæstv. utanrrh. okkar gera í framsöguræðu sinni.
    Þar kemur líka fram að stórfyrirtækin í Kanada vörðu gífurlegu fjármagni, bæði innlendu og erlendu, til að fá samninginn samþykktan. Stórfyrirtækin litu því ekki svo á að hann væri í þágu hagsmuna neytenda eins og hæstv. utanrrh. reyndi að telja okkur trú um, heldur væri þetta aukna frelsi fyrst og fremst í þágu stórfyrirtækjanna. Það er vegna þróunar síðustu ára að rekstur er í ört vaxandi mæli að færast í hendur fárra alþjóðlegra stórfyrirtækja. Það kemur m.a. fram í matvæladreifingum þar sem þau geta þá sett framleiðendum stólinn fyrir dyrnar um afurðaverð en ákveðið verð til neytenda án tillits til þess sem þau greiða framleiðendum og margfaldað þannig gróða sinn. Slíkt er að sjálfsögðu í anda frjálshyggjunnar sem er kjarninn í þeirri stefnu sem Evrópubandalagið og þar af leiðandi EES á að byggjast á, eins og m.a. kom fram í ræðu hv. 10. þm. Reykv. hér í umræðunni. Í bók Mel Hurtigs kemur fram hvernig reynslan í Kanada strax á fyrstu árum fríverslunarsamnings þeirra sýnir að sú stefna er að brjóta niður velferðarkerfi þeirra og skapa hinn harða og tillitslausa heim frjálshyggjunnar.
    Ég hef minnst hér á örfá af þeim fjölmörgu atriðum sem við alþingismenn þurfum á næstu vikum og mánuðum að taka tillit til við meðferð og afstöðu okkar til þessa örlagaríka máls sem hér er til meðferðar og jafnframt varpað fram nokkrum spurningum og athugasemdum um efni sem hljóta að hafa áhrif á þá afstöðu. Að sjálfsögðu verðum við alltaf mjög háð því sem er að gerast á alþjóðavettvangi hvernig sem við skipum okkur í hóp annarra þjóða. Spurningin er hins vegar hvort við eigum að afsala íslensku ríkisvaldi rétti til að taka ákvarðanir um framvindu mála hérlendis á mörgum sviðum fyrir það að telja sjálfum okkur trú um að geta haft einhver áhrif innan hins stóra bandalags, þó að talsmenn Evrópubandalagsins hafi reyndar sagt skýrt í greinargerð að slíkt sé algjör blekking, eða hvort við eigum að afþakka hugsanlegan, óljósan ávinning og halda rétti okkar til að taka ákvarðanir á eigin spýtur eftir því sem okkur finnst skynsamlegast á hverjum tíma.
    Fyrir meira en þremur árum setti hæstv. utanrrh. sér það markmið að ná fram þessum samningi. Þá var heimurinn annar en hann er í dag. Síðan hefur hæstv. ráðherra unnið af ofurkappi að ná þessu markmiði, m.a. að mynda núv. ríkisstjórn til að tryggja sér nógu marga til að styðja hann hér á Alþingi athugasemdalaust. Það er því mannlegt að vilja keyra hann hér í gegn án efasemda og gagnrýni þó að í hann vanti ýmsar forsendur sem

í byrjun voru taldar algjört skilyrði fyrir gerð hans. En jafnvel þó þeim skilyrðum hefði verið fullnægt hlýtur að verða að meta það vel hvort hugmynd sem fæddist í veröld sem var eigi við í dag.