Staða Kópavogshælis

11. fundur
Þriðjudaginn 01. september 1992, kl. 16:42:57 (180)


     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Ég kem hér upp vegna orða hæstv. heilbr.- og trmrh. sem ég get ekki túlkað á annan hátt en þann að það sé í rauninni ekki tekið mark á nefndum þingsins, á meirihlutaáliti þingnefndar sem þar að auki er stjórnað af hv. 11. þm. Reykn., Rannveigu Guðmundsdóttur, sem er flokkssystir ráðherrans. Það var mál sem var unnið í samráði við félmrh. sem er líka flokkssystir ráðherrans. Og það var með vilja gert, virðulegur forseti, að nefndin setti fram tilmæli til heilbr.- og trmrh. um að þessi nefnd yrði skipuð en ákvað ekki að skipa hana sjálf vegna þess að málið er á málasviði heilbr.- og trmrh. en ekki félmrh. Þar af leiðandi væri félmn. að fara yfir á svið heilbr.- og trmrh. ef hún legði þetta til. Mér finnst dálítið sérkennilegt að nú skuli ráðherra koma og nánast segja að þessi tilmæli séu að engu höfð.