Kjaradómur

12. fundur
Miðvikudaginn 02. september 1992, kl. 14:55:04 (243)

     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er alveg ljóst að þegar stjórnarskránni var breytt síðast í tengslum við þingskapalögin, þá var það markmið löggjafans, markmið allra flokka að þrengja verulega svigrúm bráðabirgðalöggjafans frá því sem verið hafði. Það er engin spurning um það. Og þó að menn hafi horfið frá fyrstu hugmyndum í þeim efnum að því er varðaði meðferð mála hér á Alþingi, þá lá þessi vilji löggjafans fyrir, þingmanna úr öllum flokkum sem fluttu það frv. sem svo að lokum varð að lögum. Þess vegna verð ég að segja það, virðulegi forseti, að ég tel það hættulegan skilning og mjög alvarlegt umhugsunarefni þegar hæstv. fjmrh. segir í framsöguræðu sinni fyrir fyrstu bráðabirgðalögunum sem sett eru eftir að stjórnarskránni var breytt, að ríkisstjórnin hafi kosið að setja bráðabirgðalög af því að hún óttaðist að það færi fram umræða á Alþingi. Það auðvitað gengur ekki að láta yfirlýsingu af þessu tagi frá hæstv. fjmrh. í þessu tilviki fara hér fram í þingsalnum án þess að henni sé mótmælt og það vil ég gera sérstaklega sem aðili

að þeim nefndum sem sömdu þingskapalagafrumvörpin eins og þau voru í lokagerð sinni.
    Í öðru lagi vil ég segja við hæstv. fjmrh. að um það eru mýmörg dæmi að Alþingi hafi á nokkrum mínútum eða nokkrum klukkustundum afgreitt mál þegar mikið hefur verið talið liggja við, m.a. í tengslum við niðurstöður kjaradeilna af ýmsu lagi, setningu laga um gerðardóma eða úrskurðaraðila í viðkvæmum kjaradeilum sem hefðu getað haft í för með sér alvarlegar afleiðingar fyrir þjóðfélagið í heild. Þá var það svo hvað eftir annað að fulltrúar allra flokka beittu sér fyrir því að um þau mál fóru fram mjög stuttar umræður á Alþingi og þess vegna gat ríkisstjórnin auðvitað beitt sér fyrir því að kalla Alþingi saman. Hún hefur enga afsökun og ummæli fjmrh. stríða gegn viðhorfum löggjafans þegar stjórnarskránni var breytt síðast í þessu efni.