Atvinnumál

14. fundur
Mánudaginn 07. september 1992, kl. 15:31:51 (329)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég er ánægður með að þingmaðurinn telur að hann hafi talað af mjög miklu viti í þessum löngu ræðum sínum. Ég held að hann sé reyndar einn um þá skoðun að þær hafi allar verið þrungnar viti. Það kann að vera vit af því tagi, eins og þingmaðurinn nefndi sjálfur og reyndi að færa rök fyrir, að Japan væri orðið eitt af nágrannaríkjum okkar. Ég hygg að álíka mikið vit sé í því eins og hann hefur reynt að halda fram. En varðandi meðaltalstölurnar sem birtar eru er þetta rangt hjá þingmanninum. Meðaltalstölurnar eru rangar tölur og þingmaðurinn getur ekkert komist hjá því að viðurkenna það.