Atvinnumál

14. fundur
Mánudaginn 07. september 1992, kl. 16:38:29 (340)

     Steingrímur Hermannsson (andsvar) :
    Herra forseti. Mér þykir leitt að þurfa að segja það en hæstv. forsrh. grípur nú til þess sem hann gerir nokkuð oft, að snúa út úr. Ég sagði ekki orð um að það ætti að fella gengið. Ég sagði í fyrri ræðu minni áðan að stöðugt gengi mætti ekki vera trúaratriði og menn yrðu að líta á allar aðstæður í því sambandi. Ég efast um að það sé rétt sem hæstv. forsrh. sagði um rétt gengi í dag þegar litið er á fjölmargar aðrar greinar eins og skipaiðnaðinn og ferðaiðnaðinn og fleira. Þetta sagði ég áðan. Ég sagði að fyrri ríkisstjórn treysti sér ekki til að fella gengið vegna erfiðleika fiskeldisins sem áður fyrr var gert hvað eftir annað þegar sjávarútvegurinn var í svipuðum erfiðleikum. Við treystum okkur ekki til þess. Það er alveg hárrétt. Svo ég tel að það eigi að skoða betur núna, miklu betur, þá blöndu gjaldeyris sem við er stuðst og ég er þeirrar skoðunar að einhver hægfara leiðrétting á genginu, þegar búið er að skoða þessa blöndu, kunni að vera réttlætanleg. Ég get ekki metið hvað hún þarf að vera mikil.