Kjaradómur

15. fundur
Þriðjudaginn 08. september 1992, kl. 14:35:46 (361)

     Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Herra forseti. Þessi umræða utan dagskrár er býsna kyndug því að mér sýnist það álitaefni sem hér hefur verið dregið fram til umræðu sé efnisatriðum þessa frv. óviðkomandi. Það er rétt sem hér hefur komið fram að það hefur verið venja á síðari árum, og ég tel að það sé góð venja, þegar gefin hafa verið út bráðabirgðalög að þeir flokkar sem standa að ríkisstjórn hverju sinni leita eftir því jafnan áður en lög eru gefin út hvort þingmenn stjórnarliðsins standi ekki heils hugar að baki þeirri löggjöf sem gefa á út. Stundum er þetta gert á formlegum þingflokksfundum, stundum með samtölum við þingmenn.
    Það hefur komið fram í þessari umræðu af hálfu hæstv. fjmrh. að þetta var ekki gert í því tilviki sem hér um ræðir að því er varðaði þingflokk sjálfstæðismanna. Hins vegar samþykkti flokkurinn einróma að standa að lögunum þegar hann var kallaður saman eftir að þau voru gefin út. En lykilatriðið í málinu er það sem hefur komið fram af hálfu hæstv. fjmrh., að það er ekki skilyrði fyrir útgáfu bráðabirgðalaga að ríkisstjórn, sem hefur með forseta Íslands bráðabirgðalöggjafarvaldið, kanni það hjá einstökum þingmönnum eða þingflokkum fyrir fram hvort meiri hluti er fyrir þeirri lagasetningu sem á döfinni er. Það væri nánast óþarfi að hafa þessa heimild ef þetta væri skilyrði fyrir útgáfu bráðabirgðalaganna. Sú heimild er í stjórnarskránni vegna þess að það er mat stjórnarskrárgjafans að þær aðstæður kunni að koma upp að grípa þurfi til lagasetningar með þeim hætti að ekki sé hægt að kalla Alþingi saman. Þess vegna er þetta ekki skilyrði og hefur ekki efnislega þýðingu fyrir þær umræður sem hér fara fram.
    Ég veit vitaskuld ekki hvernig umræður fara fram í öllum tilvikum á milli ráðherra, sem gefur út bráðabirgðalög, og forseta Íslands. En það kemur mér á óvart ef þar er sérstaklega rætt um hvort búið sé að kanna með meiri hluta eða ekki vegna þess að það hefur ekki efnislega þýðingu, það er ekki skilyrði fyrir útgáfu bráðabirgðalaga. ( Forseti: Ég verð að minna hæstv. ráðherra á að ræðutíma hans er lokið.) Hitt vil ég ítreka að það er góð venja þegar ríkisstjórnir gefa út bráðabirgðalög að kanna hvort þingmeirihluti er fyrir hendi.