Kjaradómur

15. fundur
Þriðjudaginn 08. september 1992, kl. 15:07:19 (377)

     Ólafur Ragnar Grímsson (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Það eru mikil tíðindi að þessari umræðu eigi að ljúka án þess að hæstv. fjmrh. svari þeirri spurningu sem beint hefur verið til hans ítrekað, hvaða ráðherrar ræddu við forseta lýðveldisins. Það er rétt sem kemur fram hjá hv. þm. Stefáni Guðmundssyni að í texta laganna stendur að fjmrh. hafi tjáð forseta lýðveldisins efnislega þessi atriði. Það snýr að efnisþáttum bráðabirgðalaganna. Spurningin hér hefur snúist um stuðning þingsins á bak við bráðabirgðalögin og enn á ný er spurt að því, hvaða ráðherra ræddi við forseta lýðveldisins. Og það er mjög merkilegt að það fæst ekkert svar í umræðunni við þeirri spurningu.
    Svo var einnig spurt: Hvað sagði sá ráðherra við forseta lýðveldisins? En ef svarið er að enginn ráðherra hafi rætt við forseta lýðveldisins eru það auðvitað mjög merkileg tíðindi og dugir þá ekki að spyrja hvað hafi verið sagt við hann vegna þess að samtalið hafi aldrei farið fram. Þess vegna er það ítrekað hér enn á ný að fjmrh. svari þessari spurningu í þinginu því það er vont fyrir framhald málsins ef viðstaddir ráðherrar treysta sér ekki til að segja þinginu með einföldum hætti hver ræddi við forseta lýðveldisins.
    Hæstv. fjmrh. hefur svo kosið að blanda inn í umræðuna fjarvistum hans sjálfs við afgreiðslu fjáraukalaga fyrr á þessu ári og fullyrðingum mínum um efnislega afstöðu hans til þeirra fjáraukalaga. Hann hefur þar með verið að gefa í skyn að hann hafi verið ósammála tillögu fjárln. í lykilatriði í afgreiðslu þeirra fjáraukalaga, tillögu sem er hátt á annan milljarð að upphæð og vegna þess að hæstv. fjmrh. hefur með þeim hætti komið með að mál inn í þingið sé ég mig tilknúinn, virðulegi forseti, að biðja um utandagskrárumræðu af styttri gerðinni um afstöðu hæstv. fjmrh. til fjáraukalaganna fyrir árið 1990 sem sett voru fyrr á þessu ári. Og ég fer hér með formlega fram á utandagskrárumræðu um afstöðu hæstv. fjmrh. til tillagna fjárln. og efnisinnihalds fjáraukalaganna fyrir árið 1990, umræðu af styttri gerðinni og er til viðræðu um það hvenær hún fari fram. Ég er ekkert að knýja á um það í dag eða á morgun en tel nauðsynlegt að hún eigi sér stað innan tíðar því að það er auðvitað ekki hægt að afstaða fjmrh. lýðveldisins til slíks grundvallaratriðis liggi í lausu lofti.