Evrópskt efnahagssvæði

16. fundur
Miðvikudaginn 09. september 1992, kl. 15:24:50 (421)

     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég vil nýta mér þann takmarkaða rétt sem ég hef til orðaskipta við hv. 6. þm. Norðurl. e. undir liðnum andsvör til þess að mótmæla þeim málflutningi sem enn kemur fram hjá honum og þeir framsóknarmenn hafa gert sig seka um alloft, á undanförnum dögum, að halda því fram að við höfum misst af einhverju tækifæri sem máli skipti veturinn 1990--1991 með því að setja þá ekki lög eða breyta jarðalögum til þess að koma þar fyrir girðingum varðandi ásókn útlendinga fyrir fram ef svo skyldi fara að gerður yrði EES-samningur og í honum fælist frelsi til fjárfestinga, staðfesturéttur og búseturéttur.
    Þetta lýsir miklum grundvallarmisskilningi á eðli málsins og ég held að það sé óhjákvæmilegt að fara í það ekki seinna en nú á þessum degi að upplýsa þá framsóknarmenn um það að þetta byggir á vanþekkingu. Þetta byggir á misskilningi á eðli málsins. Staðreyndin er auðvitað sú, og það munu þeir skilja sem lesa samninginn vandlega, að það hefði engu máli skipt hvort slíkar girðingar hefðu verið færð í lög veturinn 1990--1991, árið 1960 eða árið 1930. Það sem ræður hér er hvort gildandi og eldri lagaákvæði standast samninginn eða ekki. Ef þau gera það ekki þarf að breyta þeim hvort sem þau eru frá 1991, 1930 eða sautjánhundruð og súrkál. Þau ákvæði sem hins vegar samrýmast samningnum er hægt að setja nú eða á næstu árum, svo lengi sem og að því tilskildu að þau stangist ekki á við samninginn.
    Þetta verðið þið að fara að skilja, hv. framsóknarmenn. Og það er misskilningur að á þeim stutta tíma sem var til stefnu, frá því í desember 1990 þangað til þingi var slitið í mars 1991 vegna alþingiskosninga, hafi menn misst af einhverju tækifæri í þessum efnum. Það er grundvallarmisskilningur sem opinberar annaðhvort vanþekkingu á málinu eða vísvitandi tilraunir til þess að villa um fyrir mönnum.