Evrópskt efnahagssvæði

16. fundur
Fimmtudaginn 10. september 1992, kl. 01:46:24 (476)

     Ingibjörg Pálmadóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hæstv. utanrrh. eyddi miklu af tíma sínum í það að telja klukkustundirnar sem hafa farið í það að ræða Evrópska efnahagssvæðið og taldi að það hefðu verið mjög lítilfjörlegar spurningar sem margir hv. þm. hafa lagt fram. Ég tel það ekki lítilfjörlega spurningu þegar ég spurði hér fyrir nokkrum dögum og hef ekki fengið nein svör við því, hvar stendur síldin í þessum samningum? Ég hef ekki fengið nein svör við því. Þetta er mikið efnahags- og atvinnuhagsmunamál fyrir fjölda manns. Við eigum tækin, við eigum þekkinguna og síldin er til staðar og allt stefnir í það að við þurfum að senda þessa síld beint í bræðslu ef ekki nást samningar um tollalækkanir. En það hlýtur að vera eitthvað ljóst um þetta mál. Ég sakna þess líka í umræðunni að ekki var talað neitt um karfa þegar verið er að tala um flök og ég spyr hæstv. ráðherra hvers vegna hann tali ekki um karfann því það er nú sú fisktegund sem við seldum mest út óunna en ég held að það sé vegna þess að við höfum ekki náð verulegri samningastöðu þar því að 1997 þegar tollalækkanirnar eru komnar að fullu til framkvæmda verður enn þá 5,2% tollur á karfaflökum.