Stjórnarskipunarlög

16. fundur
Fimmtudaginn 10. september 1992, kl. 03:36:08 (507)


     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegur forseti. Hæstv. utanrrh. gaf það í skyn áðan og átti þá sjálfsagt m.a. við mig og hv. þm. Ragnar Arnalds að við værum að flytja frv. í einhverjum annarlegum pólitískum tilgangi og í skyndingu. Það hefur komið fram í umræðunum, hæstv. utanrrh., og rétt að ráðherrann hafi þrek til að hafa það sem sannara reynist, að fyrir tæpum 10 árum fluttum við svona tillögu, ég og hv. þm. Ragnar Arnalds og reyndar rúmum 10 árum áður hafði hv. þm. Ragnar Arnalds flutt svipaða tillögu á Alþingi þannig að það hefur lengi verið skoðun okkar alþýðubandalagsmanna að til þess að greiða fyrir alþjóðlegum samskiptum af því tagi sem við erum að ræða nú þyrfti að gera breytingar á íslensku stjórnarskránni. Það hefur legið fyrir lengi. Það lá fyrir í greinargerð sem dr. Gunnar Thoroddsen, þáv. forsrh., flutti Alþingi á fyrstu mánuðum ársins 1983. Og er það virkilega þannig að hæstv. utanrrh. finni sig svo illa staddan í þessari umræðu að jafnvel heimastíllinn dugir ekki til að sannfæra hann sjálfan um að rökin séu traust, að hann þurfi að grípa til svo ómerkilegra aðdróttana sem hann flutti hér áðan?