Skoðanakönnun á þekkingu fólks á EES

17. fundur
Fimmtudaginn 10. september 1992, kl. 11:11:24 (542)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Það fór aldrei svo að skólamál kæmust ekki á dagskrá hjá hinu háa Alþingi. Má ég rifja upp að fyrir nokkru birtust þau tíðindi að gríðarlega hátt hlutfall nemenda í lagadeild Háskóla Íslands hefði fallið þar og prófessor í þeirri deild hélt því fram að stór hluti nemenda væri ekki það sem hann kallaði sendibréfsfær. Hverjir bæru nú ábyrgðina? Ekki lagaprófessorarnir, sem eru að taka við þessum nemendum, eða hvað? Kennarar á fyrri skólastigum, eða hvað, hv. þm.? Um það verður nú ekki ályktað í utandagskrár- eða ,,að-bera-af-sér-sakir``-umræðu.
    En ég vil vekja athygli, af því þetta eru umræður um skólamál, virðulegi þingmaður, að nýlega kom út mjög lært rit eftir merkan jesúíta sem heitir Deschooling America eða Afskólun Ameríku. Þar voru færð fyrir því mjög veigamikil rök að ólæsi í Bandaríkjunum hefði vaxið samkvæmt stærðfræðilegri fylgni í réttu hlutfalli við aukningu útgjalda til skólamála.