Áhrif EES-samnings á sveitarfélögin

17. fundur
Fimmtudaginn 10. september 1992, kl. 11:30:12 (550)


     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Ég verð að segja það að málflutningur hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar og Hjörleifs Guttormssonar fannst mér hreint út sagt furðulegur. Hér er spurt einfaldra spurninga um það hvort úttekt liggi fyrir á áhrifum EES-samningsins. Ég reyndi að svara því skýrt og greinilega hvernig þau mál standa. Slík athugun er í undirbúningi á vegum Sambands íslenskra sveitarfélaga. Það hefur verið gerð ítarleg úttekt af hálfu félmrn. á áhrifum samningsins á vinnumarkaðinn, sem vissulega snertir sveitarfélögin einnig, mjög ítarleg skýrsla. Ég hef gert hér grein fyrir einni tilskipun sem beint varðar sveitarfélögin. Og það að amast út í það þó að vitnað sé hér í ræðu ráðuneytisstjórans í félmrn., sem hvað best þekkir þessi mál og hefur fylgst með samningnum alveg frá upphafi fyrir hönd ráðuneytisins, að amast út í það þó vitanð sé í ræðu sem hún heldur á fjármálaráðstefnu Sambands sveitarfélaga þar sem hún er að gera grein fyrir áhrifum þessarar tilskipunar, t.d. á sveitarfélögin, finnst mér alveg furðuleg, og finnst mér lýsa hálfgerðri málefnafátækt viðkomandi þingmanna í þessu máli.