Varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum

17. fundur
Fimmtudaginn 10. september 1992, kl. 11:37:31 (554)


     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Frá því að lög um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum voru sett hinn 2. júlí 1985 hefur verið unnið kerfisbundið að því að skapa forsendur að vörnum gegn snjóflóðum og skriðuföllum og hefur Ofanflóðasjóður fjármagnað það verk. Þar sem ekki voru til nógu nákvæm kort þurfti að gera sérstök hæðarlínukort fyrir þá 15 þéttbýliskjarna sem hugsanlega gætu orðið fyrir snjóflóðum og skriðuföllum og er því verki lokið. Gera varð reiknilíkan til að framkvæma hættumat fyrir þær byggðir sem ógnað er af snjóflóðum og koma því í tölvutækt form. Þá þurfti að gera úttekt á snjóflóðasögu allra þessara staða til að hættumatið gæti farið fram.
    Á grundvelli framangreindrar vinnu hefur verið unnið að hættumati fyrir snjóflóðabyggðirnar en það er forsenda þess að hægt sé að hefja gerð varnarvirkja þar sem það segir til um eftirfarandi: Hvaða hlutar byggðar eru í hættu og hvaða hlutar ekki þannig að fjármagni verði ekki sóað í hættulaus svæði, eiginleikar þeirra snjóflóða sem verjast á, svo sem upptök þeirra, skriðferil, hraða, þrýsting og skriðlengd. Þessir þættir eru afgerandi þegar velja þarf varnaraðferðir en gagnsemi þeirra fer eftir framansögðu þó svo að þar ráði einnig aðrir þættir svo sem landslag, snjósöfnun og landrými til varna. Hættumatið er mikilvægasti þátturinn í undirbúningi varna en rangt val á tegund eða staðarvali varnarvirkja getur haft í för með sér að falskt öryggi sé gefið og vörnin dugi ekki eða að vörnin auki hættu á öðrum svæðum. Þannig getur milljónatugum verið varið í varnir sem engum eru til gagns og hættan orðið jafnmikil eftir sem áður. Það sem alvarlegast er við slík mistök er að þau yrðu trúlega ekki uppgötvuð fyrr en of seint eða eftir að snjóflóð hefði brotist í gegnum eða fram hjá slíkum varnarmannvirkjum og valdið tjóni á lífi og eignum. Því er framangreind vinna ákveðinn liður í snjóflóðavörnum byggða. Til undirbúningsvinnu að snjóflóðavörnum samkvæmt framansögðu hefur Ofanflóðasjóður varið alls tæpum 11 millj. kr.
    Tillögur um gerð varnarvirkja eða annarra varnarframkvæmda hafa borist frá eftirgreindum aðilum og þær hlotið afgreiðslu sem hér segir:
    Flateyri. Komið hafa tillögur að vörnum vegna snjóflóða sem felast í gerð gluggahlera fyrir hús í Ólafstúni, gerð varnargirðinga í Innra Bæjargili og leiðigarða neðan Mynnis. Þegar hefur verið lokið við gerð gluggahleranna og var kostnaður við það verk 742 þúsund og greiddi Ofanflóðasjóður af því 445 þúsund. Búið er að hanna önnur varnarvirki og gera kostnaðaráætlun um gerð þeirra sem hljóðar upp á rúmar 54 millj. en af þeirri upphæð falla rúmar 43 millj. á Ofanflóðasjóð. Verkefnið hefur hlotið meðmæli ofanflóðanefndar og verður rætt í almannavarnaráði og er stefnt að afgreiðslu þess 17. sept. nk.
    Næst er það Ísafjörður. Unnið hefur verið að hættumati fyrir Ísafjörð í rúm tvö ár og sér nú fyrir endann á þeirri vinnu. Því eru engar tillögur enn komnar fram um heildarvarnir gegn snjóflóðum þar en af þeirri vinnu sem fyrir liggur er ljóst að snjóflóðavarnir á Ísafirði munu ekki kosta undir 100 millj. kr. á núverandi verðlagi. Árið 1989 var ráðist í gerð bráðabirgðavarna við Holtahverfi á Ísafirði og kostaði sú framkvæmd 3,5 millj. kr., þar af greiddi Ofanflóðasjóður 2,8 millj. kr.
    Í kjölfar aurskriðanna á Ólafsfirði voru gerðir rennslisskurðir í fjallshlíðina ofan bæjarins til að hindra vatnsmettun jarðvegsins og hamla þannig gegn aurskriðum. Samþykkt var að Ofanflóðasjóður tæki þátt í þeirri framkvæmd og voru greiddar úr honum 1,7 millj. af 2,2 millj. kr. sem verkið kostaði. Árið 1988 fór Ólafsvíkurbær þess á leit að greitt yrði úr Ofanflóðasjóði vegna snjóflóðavarna sem gerðar voru fyrir setningu laga um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum. Var samþykkt að greiða úr sjóðnum 454 þús. til Ólafsvíkurbæjar.
    Árið 1991 var samþykkt tillaga Seyðisfjarðarkaupstaðar að áætlun um aurskriðuvarnir á árinu 1991 upp á samtals 2,7 millj. og að Ofanflóðasjóður greiddi 80% af þeirri framkvæmd. Þrátt fyrir það hefur Seyðisfjarðarkaupstaður ekki enn ráðist í verkið. Fyrir liggja nú fyrstu frumtillögur að snjóflóðavörnum fyrir Seyðisfjörð og hefur fyrsti hluti tillagnanna verið hannaður og kostnaðaráætlun gerð fyrir hann. Eru niðurstöðutölur þess hluta áætlunarinnar rúm 41 millj. og yrði hlutur Ofanflóðasjóðs um 33,5 millj. Þessi áfangi er um 20% af heildarvarnarþörf Seyðisfjarðar.
    Árið 1986 komu tillögur frá Siglufirði um gerð snjóflóðavarna vegna hitaveitu bæjarins í Skútudal og hljóðaði framkvæmdin upp á 1,8 millj. sem var samþykkt af hlutaðeigandi aðilum. Siglufjörður hefur ekki enn nýtt sér framkvæmdaféð.
    Vegna hinnar miklu hættu sem verið hefur af völdum grjóthruns í Óshlíð hafa verið samþykkt framlög úr Ofanflóðasjóði til uppsetningar á grjótvarnarnetum og koma þau á móti framlögum frá Vegagerð ríkisins. Alls hefur Ofanflóðasjóður lagt í þær framkvæmdir 12 millj. kr. og samþykkt 6 millj. kr. í ár en það fé hefur ekki enn verið nýtt. (Forseti hringir.) Virðulegi forseti. Ég er rétt að ljúka máli mínu en ég vil vekja athygli á því að hér er um nokkuð viðamikla fyrirspurn að ræða.
    Til undirbúnings snjóflóðabyggingum hefur verið varið tæpum 11 millj. kr. Til framkvæmda á sviði varna hafa borist áætlanir frá sex sveitarfélögum ásamt Vegagerð ríkisins upp á samtals 126 millj. kr. Samþykktar hafa verið framkvæmdaáætlanir upp á tæplega 30 millj. kr. Lokið er framkvæmdum fyrir um 19 millj. kr. af þeim. Nú eru til afgreiðslu framkvæmdaáætlanir upp á samtals 96,5 millj. kr. fyrir tvo staði, þ.e. Flateyri og Seyðisfjörð. Endanlegar tillögur þessara sveitarfélaga bárust Almannavörnum ríkisins til afgreiðslu nú í sumar og er umfjöllun um þær hafin bæði í Ofanflóðanefnd og Almannavarnaráði. Hrein eign Ofanflóðasjóðs við reikningsuppgjör 1. jan. 1992 var 93 milljónir. (Forseti hringir.) Ljóst er að sú upphæð ásamt fyrirsjáanlegum tekjum dugir engan veginn til að sinna þeim verkefnum sem æskilegt væri að sinna á næstu árum.
    Ekki er hægt að gefa neitt einhlítt svar við spurningunni um hvort sveitarfélög geti í öllum tilvikum staðið undir sínum hluta kostnaðar við ofanflóðavarnir. Ég held að sú kostnaðarþátttaka sveitarfélaga sem lögin gera ráð fyrir skynsamleg en að sjálfsögðu geta komið upp tilvik þar sem sveitarfélög eiga erfitt með að fjármagna sinn hlut af þessum framkvæmdum.