Velferð barna og unglinga

17. fundur
Fimmtudaginn 10. september 1992, kl. 12:04:24 (563)

     Fyrirspyrjandi (Jón Helgason) :
    Hæstv. forseti. Á síðasta Alþingi var samþykkt eftirfarandi þál.:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta gera úttekt og semja skýrslu um orsakir vaxandi erfiðleika og hættur fyrir börn og unglinga sem koma m.a. fram í aukinni neyslu vímuefna, sjálfsvígum, ofbeldi og öðrum afbrotum.
    Til að vinna að þessu verkefni skipi ríkisstjórnin nefnd með fulltrúum frá öllum stjórnmálaflokkum á Alþingi. Í starfi sínu leiti nefndin upplýsinga hjá þeim stofnunum, félagasamtökum og öðrum aðilum sem um þetta málefni hafa fjallað.
    Nefndin skili skýrslu sinni og ábendingum um úrbætur svo fljótt að taka megi málið til meðferðar á næsta Alþingi í samræmi við þá niðurstöðu sem nefndin kemst að í starfi sínu.``
    Ekki þarf að fara mörgum orðum um tilefni þessarar tillögu, svo tíð eru hin válegu tíðindi sem berast okkur má segja um hverja helgi sem henda ekki aðeins börn og unglinga heldur einnig fullorðið fólk. Ástandið er svo alvarlegt að við hljótum að verða að leita allra leiða til að grípa í taumana.
    Í ársskýrslu Unglingaheimilis ríkisins, sem er nýkomin út, er þessu ástandi aðeins lýst og þar segir svo m.a., með leyfi forseta:
    ,,Unglingar flosna upp úr skóla og eiga engan fýsilegan valkost enda er þeirra ekki þörf á vinnumarkaði. Þeir ánetjast auðveldlega neikvæðum þáttum unglingamenningar, vímuefnanotkun meðal unglinga fer vaxandi og þeir byrja nú fyrr að neyta áfengis en áður. Aldur þeirra sem látast af völdum vímuefnaneyslu hefur farið lækkandi. Greinileg aukning er á eftirspurn eftir þjónustu Unglingaheimilis ríkisins, t.d. á móttökudeild og unglingaráðgjöf.
    Með tilkomu meðferðarheimilis fyrir unga vímuefnaneytendur á Tindum hefur ekki dregið úr aðsókn á aðrar deildir Unglingaheimilisins.
    Hversu stór er þessi vandi? Svarið verður alltaf háð huglægu mati en þó skal hér reynt að nefna tölur um fjölda unglinga sem hægt er að fullyrða að eigi í verulegum vanda og hætta er á að skaðist varanlega og nái ekki eðlilegum þroska að óbreyttu.
    Neyslukannanir hafa sýnt að um 2% unglinga á aldrinum 14--16 ára eru komin í alvarlega misnotkun vímuefna og 6--7% eru í vikulegri neyslu sem telja verður alvarlegt hættuefni.``
    Þetta talar skýru máli um þá miklu og brýnu þörf að hér sé reynt að snúa þessari þróun við og af þeim sökum hef ég leyft mér að bera fram eftirfarandi fyrirspurn til hæstv. félmrh. sem mun hafa fengið þessa þáltill. til meðferðar:
    ,,Hvað líður störfum nefndar sem Alþingi samþykkti með þingsályktun á síðasta þingi að fela ríkisstjórninni að skipa til að fjalla um velferð barna og unglinga og skila á skýrslu og ábendingum til að leggja fram á yfirstandandi þingi?``