Öryggi framleiðsluvöru

18. fundur
Fimmtudaginn 10. september 1992, kl. 14:45:00 (595)

     Guðrún Helgadóttir (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Til að spara tíma hef ég kosið að koma athugasemdum mínum á framfæri eða öllu heldur fyrirspurn í andsvarsformi. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra, af því að ég sé ekki að það sé tekið fram, hvort ekki beri að hafa allar leiðbeiningar og aðvaranir á vöru á því tungumáli sem talað er í hverju aðildarríki. Það er lítið gagn í alls kyns aðvörunum og vörulýsingum á framleiðsluvöru ef neytendur ekki geta lesið það sem á vörunni stendur.