Neytendalán

18. fundur
Fimmtudaginn 10. september 1992, kl. 16:46:48 (620)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegi forseti. Hér er enn á ferð gamall kunningi okkar í efh.- og viðskn. Þetta frv. hefur tekið nokkrum breytingum frá því að við sáum það fyrst í vor og er búið að þrengja svið þess. Frv. fjallar orðið um neytendalán en hét frv. um lánsviðskipti þegar það kom fyrst fram og fékk nokkrar athugasemdir sem slíkt.
    Ég vil taka undir með viðskrh. að það er brýn þörf á að settar séu skýrar reglur um neytendalán. Þar hafa menn oft á tíðum getað tekið mjög háa vexti í skjóli þess að upplýsingaskylda hefur ekki verið mjög ströng varðandi kjörin og í raun engin krafa um að neytendur væru á skýran hátt upplýstir um hvað það kostaði í raun og veru að taka hlutinn á lánskjörum miðað við það að staðgreiða.
    Þetta er einn angi af stærra máli. Það er mjög brýnt hér á landi að upplýsa neytendur, lántakendur í þessu tilfelli --- ekki bara í vöruviðskiptum heldur á fleiri sviðum á lánamarkaðnum --- um stöðu sína og réttindi og um gildi þess að skrifa undir fjárhagsskuldbindingar. Það er nú eilítill útúrdúr frá þessu máli.
    Ég ítreka að þetta mál er í vinnslu og ég sé ekkert sem bendir til annars en að það fái áframhaldandi athugun og farsælan endi áður en það kemur inn í þing aftur frá nefndinni.