Samkeppnislög

18. fundur
Fimmtudaginn 10. september 1992, kl. 16:55:23 (624)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til samkeppnislaga sem eru á þskj. 9. Frv. um þetta efni var flutt á 115. löggjafarþingi en var ekki útrætt. Nú hefur frv. verið breytt á þann hátt að í það eru, að ósk efh.- og viðskn. þingsins, felld meginatriði frv. til laga um greiðslukortastarfsemi sem verið hefur til umfjöllunar á nokkrum undanförnum þingum en ekki náð afgreiðslu.
    Einnig er nú bætt við frv. sérstökum kafla um framkvæmd samkeppnisreglna og fleiri reglna samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Í upphaflegri mynd hafði frv. sjálfstætt gildi gagnvart þessum samningi þótt í því fælist veruleg samræming við samkeppnisreglur stærstu Evrópubandalagsríkjanna. Eftir að EES-samningurinn hafði verið undirritaður í Óportó í maí sl. þurfti því annaðhvort að semja sérstakt frv. um framkvæmd samkeppnisreglna samningsins eða bæta kafla við þetta frv. og var sá kostur valinn, m.a. í samráði við hv. efh.- og viðskn.
    Þeirri löggjöf sem frv. gerir tillögu um er nú ætlað að leysa af hólmi lögin nr. 56 frá 1978, um verðlag, samkeppnishömlur og óréttmæta viðskiptahætti. Frá því að þau lög frá árinu 1978 gengu í gildi hafa orðið mjög víðtækar breytingar á skipulagi og starfsháttum atvinnulífsins hér á landi. Kröfur um aukna framleiðni og skilvirkni hafa leitt til þess að stærri og öflugri einingar og aukin samkeppni hefur komist á í atvinnulífinu. Fyrirkomulag á sölu vöru og þjónustu hefur stöðugt verið að breytast. Þá hefur aukin milliríkjaverslun í vaxandi mæli haft áhrif á samkeppnisaðstæður á mörgum sviðum atvinnulífsins hér á landi. Aðlögun íslenska hagkerfisins að nánari efnahagssamvinnu í Evrópu þrýstir enn frekar á um þessa þróun.
    Af þessum ástæðum, virðulegi forseti, er því fyllilega tímabært að endurskoða alla íslensku samkeppnislöggjöfina í ljósi breyttra aðstæðna. Þær breytingar sem ég hef hér gert að umræðuefni hafa þegar haft veruleg áhrif á starfshætti og starfsaðferðir verðlagsyfirvalda. Fram á síðustu ár var hlutverk verðlagsyfirvalda á Íslandi að mestu fólgið í afskiptum af verðlagningunni sjálfri í einu eða öðru formi. Á þessu hefur hins vegar orðið sú breyting að stórlega hefur dregið úr beinum verðlagsafskiptum en í stað þess hafa afskipti af samkeppnisaðstæðum og samkeppnismálum farið vaxandi. Með aukinni samkeppni hefur borið meira á því að fyrirtæki með sterka stöðu á markaðnum misbeita henni, m.a. með því að mismuna viðskiptavinum og beita ósanngjörnum aðferðum gagnvart samkeppnisaðilum. Málum af þessu tagi sem koma til meðferðar verðlagsyfirvalda hefur farið fjölgandi. Réttar leikreglur um samkeppni geta haft gífurlega mikil áhrif til að bæta lífskjör almennings og stuðla að hvers konar hagræðingu í rekstri fyrirtækja. Reglur, sem vinna gegn einokun og hringamyndun, sem vinna gegn samþjöppun efnahagslegs valds og sem setja seljendum vöru og þjónustu leikreglur um samskipti við neytendur vernda hagsmuni hvers einasta manns í landinu og bæta reyndar lífskjör hans.
    Það er á því vaxandi skilningur hér á landi eins og annars staðar í Evrópu að virk samkeppni er mjög mikilvæg til þess að stuðla að hagkvæmari nýtingu framleiðsluþáttanna og efnahagslegum framförum. Eins og fram hefur komið hefur samkeppni hér á landi aukist í ýmsum greinum á síðustu árum en mikið vantar á í mörgum þeirra að hún sé fullnægjandi. Með frv. er að því stefnt að efla virka samkeppni enn frekar á þeim sviðum þar sem hún getur best tryggt hag neytenda, atvinnulífsins og samfélagsins alls. Þetta er ætlunin að gera með því að skerpa þær samkeppnisreglur sem nú eru í gildi, auka það sem nefnt hefur verið gagnsæi markaðarins og viðskipta á honum og með því að draga úr opinberum samkeppnishömlum.
    Með frv. er þó aðeins með óbeinum hætti hægt að stuðla að síðast talda atriðinu þar sem ýmsar opinberar samkeppnishömlur, ég nefni innflutningsbönn, tæknilegar viðskiptahindranir, verðlagningu búvöru, verðlagningu lyfja, vátrygginga og fleiri þátta sem eru bundin í öðrum lögum þyrfti að endurskoða sérstaklega. Ég á þó von á því að skilningur á nauðsyn virkrar samkeppni á þessum sviðum einnig eigi eftir að aukast og vil reyndar benda á að í þessu frv. er ráð fyrir því gert að samkeppnisyfirvöld geti komið á framfæri ábendingum við stjórnvöld um ákvæði laga og stjórnvaldsfyrirmæla sem stríða gegn meginmarkmiði þessara laga um samkeppnismál.
    Virðulegi forseti. Ég mun nú fara yfir nokkur helstu ákvæði frv. og helstu breytingar sem það felur í sér miðað við gildandi lög. Þar ætla ég fyrst að nefna að meginstefna, það sem kalla mætti andi laganna, breytist nokkuð. Í gildandi lögum hafa bein verðlagsafskipti setið í fyrirrúmi en samkvæmt þessu frv. munu þau heyra til undantekninga. Í stað þess er megináhersla á það lögð að ná meginmarkmiði laganna um hagkvæma nýtingu framleiðsluþátta með eflingu virkrar samkeppni. Í samræmi við þetta m.a. er það lagt til að Verðlagsstofnun verði breytt í samkeppnisstofnun og samkeppnisráð taki við af Verðlagsráði.
    Lögin taka til viðskipta hér á landi en ekki til samninga, skilmála eða athafna sem ætlað er að hafa áhrif utan Íslands. Verði samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði fullgiltur hér á landi fylgja honum kvaðir um lögfestingu samkeppnisreglna sem gilda eiga í viðskiptum milli ríkja á markaðssvæðinu. Íslensk samkeppnisyfirvöld mundu með því öðlast möguleika til þess að hafa afskipti af ýmsum atriðum sem varða innflutning til Íslands, t.d. með samningum milli fyrirtækja á markaðssvæðinu utan Íslands sem ætlað er að hafa áhrif hér á landi. Það er vitað um ýmiss konar fyrirkomulag sem hefur hækkað innflutningsverð til Íslands, t.d. að dönsk fyrirtæki hafi frá fornu fari haft einkaumboð fyrir innflutning frá þriðja ríki til Íslands og þiggi fyrir það umboðslaun. Í þessu felast nýir möguleikar til að hafa áhrif á viðskiptakjör landsins og bæta þau á grundvelli samningsins um Evrópskt efnahagssvæði.
    Í 3. gr. frv. er lagt til að ráðherra geti breytt gildissviði þessara laga í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar sem Ísland tekst á hendur. Þetta á við um EES-samninginn en einnig gætu væntanlegar skuldbindingar okkar í nýju GATT-samkomulagi komið til greina. Þá er af sömu ástæðu lagt til að stofnunin aðstoði við framkvæmd samkeppnisreglna annarra ríkja og alþjóðastofnana í samræmi við gagnkvæmar skuldbindingar í milliríkjasamningum sem Ísland er aðili að.
    Eins og ég hef þegar nefnt er gert ráð fyrir að fimm manna samkeppnisráð komi í stað níu manna verðlagsráðs og er það í samræmi við breytt hlutverk og breytt stjórntæki þeirrar stofnunar sem ætlað er að hafa daglega framkvæmd laganna á sinni könnu. Stofnunin fær ný stjórntæki til að veita atvinnulífinu aðhald og því þykir ekki heppilegt að hagsmunaaðilar hafi þar jafnmikil áhrif og verið hefur enda væru fulltrúar þeirra settir í erfiða aðstöðu þegar bæta ætti ýmsum stjórntækjanna. Hér er því lagt til að ráðherra skipi einn mann í samkeppnisráð, Hæstiréttur tvo, eins og verið hefur, og hagsmunaaðilar tilnefni tvo ráðsmenn. Er hér lagt til að þeir verði tilnefndir af ASÍ og VSÍ og eru þá valin þau hagsmunasamtök sem hafa víðtækasta félagsaðild. Varamenn verði skipaðir á sama hátt. Samkvæmt frv. er einnig gert ráð fyrir að sérstakri fastanefnd, skipaðri þremur mönnum er fjalli um auglýsingar og er með því einfölduð sú skipan sem lögð hefur verið til í frv. um breytingu á gildandi lögum sem verið hefur til umfjöllunar á nokkrum undanförnum þingum og eru þau ákvæði hér felld inn í þetta frv. Þá er gert ráð fyrir sérstakri þriggja manna áfrýjunarnefnd. Til hennar er hægt að áfrýja ákvörðunum samkeppnisráðs og samkeppnisstofnunar. Sú skipan er hér lögð til í því skyni að auka réttaröryggi, jafnframt því sem völd samkeppnisráðsins eru stórlega aukin og því m.a. fengið sektarvald og vald til þess að mæla fyrir um afturköllun á samningum um samruna fyrirtækja og skyldum samningum.
    Í athugasemdum við frv. er gerð grein fyrir þeim meginreglum um samkeppniseftirlit sem byggt er á í iðnvæddum ríkjum. Ég ætla ekki að endurtaka það hér en í gildandi lögum eru nokkrar tegundir samkeppnishamla bannaðar. Samkvæmt frv. er gert ráð fyrir því að fjölga slíkum bönnum þannig að allar þær samkeppnishömlur sem að fenginni reynslu eru ótvírætt taldar skaðlegar verði hér eftir bannaðar. Þetta felur m.a. í sér að samningar og samráð og aðrar samstilltar aðgerðir um verð, gerð tilboða og skiptingu markaðs milli aðila verði óheimilar. Bann við markaðsskiptingu milli aðila er nýtt í íslenskri löggjöf og einnig bannið við útgáfu ýmissa starfsstétta á sameiginlegum verðtöxtum sem mjög hefur tíðkast á Íslandi. Það er einnig nýmæli að seljandi vöru getur ákveðið það verð sem endurseljandi má hæst verðleggja vöruna á. Þetta síðasta ákvæði sem ég nefni getur einkum haft þýðingu þegar seljandi vill hasla sér völl með ódýra vöru og þarf að geta tryggt sig gegn því að endurseljendur geri honum það ókleift.
    Frá þessum bannákvæðum sem ég hef gert að umtalsefni eru nokkrar undanþáguheimildir í frv. sem má beita ef þær geta leitt til aukinnar samkeppni, aukinnar framleiðni eða þegar sérstakar aðstæður sem varða almannaheill eru til staðar. Enn fremur er veitt leyfi til samstarfs eða samvinnu milli aðila sem eru það smáir að áhrif þeirra á markaðnum eru talin hverfandi, svokölluð smámuna- eða bagatel-regla, eða að talið er að samvinna þeirra geti leitt til þess að samkeppni á markaðnum raunverulega eflist. Þá eru leyfðir samningar og samvinna milli móðurfyrirtækis og dótturfyrirtækis sem í reynd mætti telja eitt og sama fyrirtækið og samningar milli nytjaleyfishafa og nytjaleyfisnotenda, þ.e. milli þeirra sem hafa yfirráð yfir einkaleyfi og aðila sem fær rétt til að nýta leyfið og þá yfirleitt gegn sérstöku gjaldi.
    Fyrir utan þau bannákvæði við samkeppnishindrunum sem lögð eru formlega til í frv. er einnig lagt til að heimiluð verði íhlutun í aðrar tegundir eða annað fyrirkomulag athafna sem talin eru hafa skaðleg áhrif á samkeppni milli fyrirtækja. Þar er m.a. um að ræða heimildir til íhlutunar gegn misbeitingu markaðsráðandi fyrirtækja á aðstöðu sinni. Það er almennt viðurkennt að fylgjast þurfi sérstaklega vel með þessari tegund samkeppnishamla en það hefur sýnt sig vera afar erfitt í framkvæmd og á alþjóðavettvangi hafa verið skiptar skoðanir um það með hvaða hætti það skuli best gert. Hér er lagt til að íhlutun eigi sér stað að undangengnu mati á hverju tilviki og er það sami háttur og hafður er á í fámennari samstarfsríkjum okar í EFTA. Markaðsyfirráð eru sem slík í sjálfu sér ekki bönnuð en það er matsatriði samkeppnisyfirvalda í

hverju einstöku tilfelli hvort og að hve miklu leyti er um misbeitingu að ræða á markaðnum. Að undanförnu hafa verið miklar umræður um samþjöppun efnahagslegs valds í samfélaginu og það er ekki að ástæðulausu. Það má segja að í frv. sé í fyrsta sinn tekið á þessu viðfangsefni á vettvangi löggjafarinnar. Það tíðakst ekki í okkar nágrannaríkjum að hafa afskipti af eignar- eða valdahlutföllum innan einstakra fyrirtækja nema í algjörum undantekningartilfellum. Um það er fyrst og fremst fjallað í samþykktum hlutafélaga og með almennum lagaákvæðum um þak á atkvæðisrétt einstaks aðila í félagi. Slík ákvæði virðast reyndar vera á undanhaldi í löggjöf okkar nágrannalanda þar sem þau þykja í reynd ekki hafa skilað upphaflegum tilgangi. Hins vegar er algengt að hið opinbera hafi afskipti af samruna fyrirtækja sem talinn er leiða til skertrar samkeppni og samþjöppunar efnahagslegs valds. Það er einmitt það sem gert er eða lagt er til í þessu frv. og ákvæðið, eins og það er sett fram, nær bæði til samruna sem er formlegs eðlis, de jure, eða samstarf í reynd, de facto samstarf. Hér er um að ræða nýmæli í íslenskum lögum en lagt er til að samkeppnisráð hafi heimild til þess að banna samruna fyrirtækja eða yfirtöku fyrirtækis á öðru fyrirtæki ef það dregur verulega úr samkeppni á markaðnum. Einnig eru í frv. ákvæði sem gera samkeppnisráði það heimilt að ógilda samruna eða yfirtöku sem þegar hefur átt sér stað. Sama á við ef eigendur með virk yfirráð í einu fyrirtæki ná virkum yfirráðum í öðru eða það sem ég nefndi de facto yfirtöku.
    Eftirlit með samruna eða yfirtöku fyrirtækja er að sjálfsögðu nátengt eftirliti með misbeitingu á markaðsyfirráðum. Það gengur hins vegar lengra þar sem samkeppnisyfirvöldum er gert kleift að koma í veg fyrir að þær aðstæður myndist á markaðnum að fyrirtæki nái með yfirtöku eða samruna einokunar- eða markaðsráðandi stöðu. Hér er verið að leggja til að yfirvöldum verði veitt heimild til þess að ógilda samruna eða yfirtöku ef ekki duga önnur úrræði gegn misbeitingu markaðsyfirráðanna til þess að tryggja nægilega virka samkeppni. Það leiðir af sjálfu sér að jafnafdrifaríkri heimild og samkeppnisyfirvöldum væri fengin með þessu ákvæði yrði ekki beitt nema ríkar ástæður væru til og að talið væri að virkri samkeppni væri veruleg hætta búin ef samruni eða yfirtaka fengi að standa.
    Það er nýmæli í frv. að lagt er til að samkeppnisráði verði veitt heimild til þess að leggja á stjórnvaldssektir vegna brota á samkeppnisreglunum. Þetta ákvæði um stjórnvaldssektirnar er í samræmi við þróun þessara mála í nágrannaríkjum okkar. Við ákvörðun stjórnvaldssektanna skal tekið tillit til þess skaða sem samkeppnishömlurnar hafa valdið eða geta valdið og þess ávinnings sem þær hafa í för með sér. Sektirnar geta þó hæst numið 10% af ársveltu viðkomandi fyrirtækis. Ákvörðunum samkeppnisráðs um ógildingu á samruna fyrirtækja og um álagningu stjórnvaldssekta má skjóta til áfrýjunarnefndar sem skipuð er sérfróðum mönnnum. Úrskurðir áfrýjunarnefndar og ákvarðanir samkeppnisráðs eru aðfararhæfir og tengist það hinum nýju aðfararlögum á þann hátt að mælt er fyrir um framkvæmd aðfarar samkvæmt 13. kafla laganna og að kveðja skuli gerðarþola fyrir héraðsdóm ef fara á að aðgerðum í samræmi við þetta. Með þessu móti er tryggð skjót málsmeðferð fyrir héraðsdómi jafnframt því sem fyllsta réttaröryggis er gætt.
    Sá kafli í frv. sem fjallar um óréttmæta viðskiptahætti er í meginatriðum óbreyttur frá samsvarandi kafla í gildandi lögum. Hér er um að ræða ákvæði sem í nágrannaríkjum okkar eru ýmist höfð í samkeppnislögum eða í sérstökum lögum um markaðsstarfsemi í viðskiptum. Nú er þó bætt inn nýju ákvæði um auglýsingar sem einkum er ætlað til verndar börnum gegn óeðlilegum áhrifum auglýsinga. Á hinn bóginn er fellt brott ákvæði sem felur í sér bann við úthlutun vinninga í verðlaunasamkeppni í tengslum við kynningu á vöru eða þjónustu. Sannleikurinn er sá að það hefur ekki reynst unnt að framfylgja núgildandi banni við slíkum viðskiptaháttum og almennur skilningur á því að yfirleitt sé þörf á slíku banni virðist hverfandi.
    Í frv. er lögð áhersla á að auka gagnsæi á markaðnum með upplýsingamiðlun enda er það grundvallarforsenda fyrir því að samkeppni sé virk að seljendur og kaupendur vöru og þjónustu beri gott skynbragð á verð, viðskiptakjör og gæði og hafi greiðan aðgang að upplýsingum um þau efni.
    Virðulegi forseti. Eins og ég hef þegar minnst á hefur frv. verið breytt verulega frá þeirri mynd sem það var í þegar það var lagt fram á 115. löggjafarþingi, m.a. að því leyti að bætt er við það kafla um eftirlit með greiðslukortastarfseminni. Á nokkrum undanförnum þingum hefur verið lagt fram stjórnarfrumvarp um greiðslukortastarfsemi en það hefur ekki orðið útrætt. Á síðasta vori samþykkti hv. efh.- og viðskn. að óska eftir því að meginefni greiðslukortafrumvarpsins yrði fellt inn í þetta frv. og verði samkeppnisráði þar m.a. veitt heimild til að setja reglur um greiðslukortastarfsemina sem tryggi að hagur neytenda hér á landi verði eigi lakari í slíkum viðskiptum en almennt gerist í öðrum ríkjum hins fyrirhugaða Evrópska efnahagssvæðis.
    Frá því að umrætt frv. kom fyrst fram hafa íslensku greiðslukortafyrirtækin á ýmsan hátt breytt viðskiptaháttum sínum og eins hefur orðið veruleg tækniþróun sem gerir kleift að bókfæra samstundis greiðslumiðlunarseðla og þar með viðhafa betri varnir gegn misnotkun þessa greiðsluforms. Hins vegar ríkir, eins og allir sjá, fákeppni á þessu þjónustusviði hér á landi sem hefur leitt til þess að greiðslumóttakendur og samtök þeirra kvarta yfir stöðu sinni gagnvart greiðslukortafyrirtækjunum. Þá mun krafa íslensku fyrirtækjanna og bankakerfisins um þriðjamannstryggingu fyrir skilvísum greiðslum korthafa vera nær einsdæmi.
    Í 8. kafla frv. er lagt til að samkeppnisstofnun og samkeppnisráði sé falið eftirlit með greiðslukortastarfseminni og skuli þess gætt að viðskiptakjör neytenda verði eigi lakari í slíkum viðskiptum en almennt gerist í okkar helstu viðskiptaríkjum. Í lok 8. kafla er lagt til að ráðherra hafi heimild til að setja með reglugerð nánari reglur um greiðslukortastarfsemi að fengnum tillögum samkeppnisráðs þar að lútandi. Eru þá bæði hafðar í huga þær tæknibreytingar sem stöðugt verða á þessu sviði og eins að sífellt er unnið að samræmdum alþjóðareglum um þessa starfsemi sem stöðugt verður fjölþjóðlegri. Þá getur samkeppnisráð jafnframt beitt öðrum almennum heimildum sem lagt er til að það fái til þess að hlutast til um greiðslukortastarfsemina, t.d. vísa ég þar til misbeitingarákvæða 17. gr. þessa frv.
    Eins og ég hef þegar nefnt er gert ráð fyrir því að samkeppnisyfirvöldin beiti aðeins í undantekningartilfellum beinni íhlutun í verðákvarðanir. Megináherslan er lögð á það að samkeppni ríki á markaðnum en verðlagsíhlutun komi því aðeins til greina að önnur úrræði hafi ekki dugað. Í frv. er hins vegar lögð til heimild í 9. kafla þess fyrir ríkisstjórnina til þess að setja á tímabundna almenna verðstöðvun eða aðrar verðlagningarreglur ef mjög óvenjulegar aðstæður skapast í þjóðfélaginu.
    Í 10. kafla frv. er fjallað um upplýsingaskyldu til verðlagsyfirvalda og skal sérstaklega bent á ákvæði 43. gr. sem veitir samkeppnisstofnun heimild til skyndirannsókna á vettvangi og heimild til þess að leggja hald á gögn. Það hefur sýnt sig í viðskiptaríkjum okkar að slík heimild er nauðsynleg við samkeppniseftirlit til þess að hægt sé að koma í veg fyrir að gögnum um óleyfilegt samráð fyrirtækja um verð eða markaðsskiptingu sé skotið undan eða þau eyðilögð.
    Ákvæðum 11. kafla frv. var, eins og ég hef áður nefnt, bætt við fyrri gerð þess eftir að samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði var undirritaður. Samkeppnisreglurnar sem gilda eiga í viðskiptum yfir landamæri milli EES-ríkja eru að talsverðum hluta þess eðlis að þær snúa beint að lögaðilum, þ.e. þeim er ætlað að hafa bein réttaráhrif. Til þess að Íslendingar fullnægi skuldbindingum sínum samkvæmt samningnum þarf því að lögfesta reglurnar hér á landi.
    Í því frv. sem hér er mælt fyrir og í því frv. sem liggur fyrir um fullgildingu samningsins um Evrópskt efnahagssvæði er lagt til að meginmál EES-samningsins skuli hafa lagagildi á Íslandi. Að því er varðar samkeppnisreglur er hér um að ræða ákvæði 53.--60. gr. samningsins og því til viðbótar er samkeppnisreglur að finna í bókunum 21--25 með samningnum og viðauka XIV við hann. Þá eru reglur sem lúta að samkeppni fyrirtækja í samningnum um eftirlitsstofnun EFTA og í samningnum um dómstól EFTA, samanber bókun 4 við þann samning.
    Samkeppnisreglur EES og samkeppnisreglur frv. eru í meginatriðum byggðar á sama grundvelli. Það er gert ráð fyrir því að samkeppnisstofnun muni jafnframt því sem hún framfylgir samkeppnisreglum í iannanlandsviðskiptum aðstoða við framkvæmd samkeppnisreglna EES. Það þykir því hagkvæmt að fella inn í samkeppnislagafrv. þær EES- og ESE-reglur sem nauðsynlegt er að lögfesta á Íslandi við fullgildingu EES-samningsins.
    Nátengdar samkeppnissviðinu eru reglur EES um ríkisaðstoð og því er hér lagt til að þau ákvæði samningsins sem þann þátt snerta og þarf að lögfesta sérstaklega verði felld inn í frv. Hluti af samkeppnisreglum EES, ESE-reglna og reglna um ríkisaðstoð má setja með stjórnvaldsfyrirmælum og er því lagt til að ráðherra fái sérstaka heimild til að setja slík fyrirmæli með reglugerð eftir því sem nauðsynlegt reynist til að efna samningsskyldur okkar.
    Ég ætla ekki að þessu sinni að fjalla um efni einstakra greina í 10. kaflanum. Þær eru ítarlega útskýrðar í athugasemdum með frv. Ég vil þó vekja sérstaka athygli á ákvæðum 51. gr. þar sem lagt er til að ráðherrar fái heimild til þess, að fenginni umsögn samkeppnisráðs, að setja reglugerð um nánari framkvæmd samkeppnisreglna samningsins um Evrópska efnahagssvæðið og samningsins um eftirlitsstofnun og dómstól EFTA. Einnig er hér lagt til að ráðherra sé heimilt að setja nánari reglur um framkvæmd reglna EES-samningsins um ríkisaðstoð til aðila hér á landi. Slík reglugerð sem hér um ræðir er nauðsynleg, ekki síst til þess að upplýsa aðila hér á landi um þessar reglur. Svo ég nefni dæmi þá er ríkisaðstoð flokkuð með flóknum hætti í heimilan stuðning og óheimilan. Frá meginreglunni um bann við ríkisaðstoð sem raska samkeppnisstöðu fyrirtækja eru t.d. undantekningar sem flokkast undir aðgerðir gegn byggðaröskun og aðgerðir sem heimila fjárstuðning úr opinberum sjóðum.
    Þá er hér lagt til að ný samkeppnislög í samræmi við frv. taki gildi 1. jan. nk. og að gefnu tilefni og til að taka af öll tvímæli er ákvæði í frv. um það að starfsmenn Verðlagsstofnunar eigi rétt á sambærilegum störfum hjá samkeppnisstofnun og eigi því ákvæði laga um biðlaun ekki við um þá breytingu sem hér um ræðir. Eðlilegt þykir að breytingin úr verðlags- í samkeppniseftirlit taki gildi um áramót og ekki sé ég neitt því til fyrirstöðu að frv. verði að lögum og taki gildi þá þótt fullgilding samningsins um Evrópskt efnahagssvæði kynni að dragast á langinn hjá einhverju aðildarríkjanna.
    Virðulegi forseti. Að mínu áliti er þetta frv. tímamótamál. Það er mjög mikilvægt að það fái hér skjóta og ítarlega umfjöllun. Alþingi hefur haft tækifæri til þess að fjalla um meginþætti frv. í ýmsum myndum á ýmsum stigum á undanförnum mánuðum. Ég legg til að frv. verði að lokinni 1. umr. vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.