Lagaákvæði á sviði heilbrigðis- og tryggingamála vegna EES

19. fundur
Föstudaginn 11. september 1992, kl. 12:16:31 (631)

     Ingibjörg Pálmadóttir :
    Virðulegi forseti. Það er á flestum sviðum sem breytingar verða í þjóðlífi Íslendinga ef samningurinn um hið Evrópska efnahagssvæði verður samþykktur eins og fram kom í máli síðasta hv. ræðumanns og eru þó ekki öll kurl komin til grafar.
    Síðasti ræðumaður fór inn á flókinn feril frv. og fór jafnvel inn á ýmsa hluti sem ég hef ekki áður einbeitt mér að, jafnvel ræddi hann um að þetta gæti skert frelsi rýrra kynbótahrúta o.s.frv., en það er nú ekki það sem frv. fjallar aðallega um, heldur er hér til umræðu frv. til laga um breytingar á lagaákvæðum á sviði heilbrigðis- og tryggingamála vegna aðildar að samningi um hið Evrópska efnahagssvæði. Frv. er svokallaður bandormur og felur í sér breytingar á mörgum málaflokkum, t.d. lögum um heilbrigðisstéttir, lagaákvæðum á vátryggingarsviðinu, lögum um eiturefni og hættuleg efni, lyfjalögum og lögum um atvinnutryggingar og ýmsu fleiru. Í frv. er þannig sullað saman hinum ólíkustu málaflokkum. Ég tel að eðlilegra hefði verið að skipta þessu niður eftir málaflokkum og það væri fróðlegt að heyra skýringu á því hvers vegna hagkvæmara þykir að hafa þennan háttinn á en hæstv. heilbrrh. hlýtur að skýra það í máli sínu á eftir. Mun auðveldara væri fyrir hv. þm. að taka hvern málaflokk fyrir sig og einbeita sér að honum.
    Heilbr.- og trn. hefur nú þegar rætt ýmis ákvæði frv. og fengið umsagnir margra hagsmunaaðila þar að lútandi. Rétt er að geta þess að frv. hefur tekið umfangsmiklum breytingum frá því að það var lagt fram sem handrit í sumar. Það er aðallega varðandi tryggingamálin sem breytingar hafa orðið frá því við lásum handritið og það sýnir kannski best að það er viss sveigjanleiki þrátt fyrir IX. viðauka, um fjármál og þjónustu. Það segir okkur í sambandi við þær breytingar sem hafa verið gerðar á frv. varðandi Húsatryggingar Reykjavíkur að þennan sveigjanleika getum við kannski líka notað í sambandi við Brunabótafélag Íslands. Báðum þessum aðilum er nú gert jafnt undir höfði og það er auðvitað rétt.
    Varðandi heilbrigðisstéttir í I. kafla frv. er það í beinu framhaldi af reglum um frjálst flæði fólks hér á þessu svæði Evrópubandalagsins og með samþykkt þessara laga má ekki mismuna fólki ef það hefur prófskírteini í viðkomandi fagi þrátt fyrir það að við vitum nákvæmlega að hvað snertir ýmsa faghópa í heilbrigðisstéttum er meiri menntun á Íslandi en hjá þessum þjóðum sem um ræðir. Tek ég þá sérstaklega t.d. hjúkrunarfræðinga og ljósmæður og jafnvel sjúkraþjálfara sem hafa meiri menntun á Íslandi, en ekki má mismuna þessum aðilum ef þeir hafa próf í viðkomandi fagi. Í mörgum þessum löndum er líka krafist minni grunnmenntunar en til sambærilegra prófa hér á Íslandi. Því er ekki alltaf verið að tala um sambærilega menntun þegar við erum að tala um sambærileg stöðuheiti. Það sem er að gerast nú er það að vegna fjársveltis Háskóla Íslands erum við kannski smátt og smátt að fá minna menntað fólk frá öðrum EES-löndum. Vonandi ekki, en því miður er margt sem bendir til þess.
    Aðeins er hægt að mismuna á einu sviði, það er varðandi málakunnáttu. Það er hægt að mismuna fólki ef það getur ekki talað íslensku eða skrifað íslenskt mál og ég spyr nú: Verður það ekki afar erfitt fyrir okkur? Við getum lengi sagt að þessir útlendingar tali ekki og skrifi ekki íslensku hundrað prósent. ( Gripið fram í: Má þá krefjast þess að sjúklingarnir tali erlend tungumál?) Ég heyri ekki hvað hv. þm. segir en það hefur örugglega verið eitthvað skemmtilegt því hann brosir og hlær og ég ræði við hann síðar um það. Það sem ég er að spyrja um er þetta: Hversu lengi og hvernig getum við staðið á því gagnvart EB-dómstólum að útlendingar tali ekki og skrifi fullkomlega íslenskt mál? Ég er þess vegna hrædd um að við eigum eftir að lenda í ógöngum einmitt varðandi þetta. Hvort það verði mikið flæði af fólki frá öðrum EB-löndum inn á störf heilbrigðisstétta verður þó tíminn að leiða í ljós, en ég held að léleg launakjör ýmissa heilbrigðisstétta verði þess valdandi að það verði kannski ekki eins mikil ásókn og margir gætu ímyndað sér.
    Í heilbr.- og trn. höfum við fengið mjög mikilvægar ábendingar frá ýmsum heilbrigðisstéttum sem er eftir að kryfja til mergjar og ég býst við að margt af því sem þar hefur verið bent á verði tekið ekki bara til umfjöllunar heldur til greina. Mér heyrist það á flestum í heilbr.- og trn. að þeir hafi áhuga fyrir því. Ég segi þá hér með í bili skilið við heilbrigðisstéttirnar hvað frv. varðar, en áskil mér allan rétt til að bera fram brtt. á síðari stigum málsins.
    Mig langar að fara nokkrum orðum um tryggingamálin. Ég tel að þar sé um gjörbreytingu að ræða. Hér er verið að tala um byltingu í tryggingamálum, á vátryggingarsviðinu, því að hér hefur um aldaraðir verið sú hefð að sveitarfélögin hafa séð um að allar fasteiginir séu tryggðar, en svo verður ekki ef þessi lög taka gildi. Þá ber einstaklingurinn sjálfur ábyrgð á því, en sveitarfélögin hafa haft þessa skyldu og þetta hefur verið samofið framfærsluskyldunni. Ef brennur ofan af fólki er það framfærsluskylda sveitarfélagsins að sjá um að hann fái húsnæði, þak yfir höfuðið og aðra framfærslu. Það er sem sé verið að breyta þessari grundvallarskyldu og sveitarfélagið verður ekki ábyrgt fyrir tryggingunum, en auðvitað áfram gagnvart framfærslunni. Það breytist að sjálfsögðu ekki neitt.
    Það sem ég óttast í þessu er að ég held að það taki fólk mjög langan tíma að átta sig á því að það ber sjálft ábyrgð á tryggingum. Ég ætla því að spyrja hæstv. heilbrrh. hvernig hann hafi hugsað sér að haga eftirliti með því. Samkvæmt frv. verður að sjálfsögðu áfram skyldutrygging en hvernig verður eftirlitinu háttað á eftir? Mér finnst vera mjög mikið atriði að fá að heyra hvernig það er hugsað.
    Ýmislegt hefur komið fram í þessum umræðum um breytingar á tryggingunum almennt. Hér er talið að um mjög hagstæð iðgjöld sé að ræða á Íslandi. Það hefur verið leitt að því líkum að það séu tólf sinnum lægri iðgjöld t.d. á timburhúsum hér á Íslandi, á Reykjavíkursvæðinu, en í borgum á Norðurlöndum. Mér finnst margt benda til þess að þegar ekki verður lengur boðið út í svo stórum einingum sem verið hefur muni iðgjöld hækka. Ég vildi gjarnan fá að heyra hvernig hæstv. heilbr.- og trmrh. lítur á það, hvort hann telji að tryggingaiðgjöld muni hækka hér á Íslandi eður ei.
    Samt finnst mér allra stærsta málið í þessu að tryggja að allar fasteignir séu tryggðar. Það er auðvitað alveg númer eitt. (Gripið fram í.) Já, það hefur verið rætt, bæði í gamni og alvöru, varðandi Húsatryggingar Reykjavíkur að hægt hafi verið að koma því inn í samninginn að undanskilja þær þó að síðan hafi verið gerð breyting á. Mig langar að fá svar frá hæstv. heilbr.- og trmrh.: Þurfum við þá gjörbyltingu í vátryggingarmálum sem þetta frv. leggur til að verði gerð varðandi EES-samninginn?
    Heilbr.- og trn. hefur fengið mjög ítarlegar upplýsingar og tilmæli frá m.a. Brunabótafélagi Íslands og er með vissar breytingartillögur frá þeim sem eftir er að skoða ofan í kjölinn í nefndinni. Þær verða skoðaðar ásamt öðrum ábendingum sem við höfum fengið.
    Mig langar að fara nokkrum orðum um Atvinnuleysistryggingasjóð og atvinnuleysistryggingar, en sú grein í frv. felur í sér að ríkisborgarar frá EES-landi hafa sömu réttindi til bóta alls staðar á svæðinu. Ég er alveg viss um að þessi réttur mun valda því að margir frá þessum löndum munu koma hingað í atvinnuleit og það mun náttúrlega breyta ýmsum strúktúr í þjóðlífinu. Ég tel að við Íslendingar séum ekki búnir að undirbúa okkur nógu vel undir það að fá mikinn fjölda fólks hingað. Ég tel t.d. að mjög fróðlegt verði að sjá hverjar breytingar verða á lögum um almannatryggingar. Það er aðkallandi að það frv. verði lagt fram því að það tengist auðvitað þessu máli mjög náið.
    Um þetta frv. mætti auðvitað hafa mörg orð, en ég ætla að geyma mér það þangað til á seinni stigum en ég er ekki í nokkrum vafa um að í meðhöndlun heilbr.- og trn. mun frv. taka verulegum breytingum.