Tollalög

20. fundur
Mánudaginn 14. september 1992, kl. 14:55:09 (686)


     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það kemur alltaf betur og betur í ljós hversu skammt á veg undirbúningsvinna að hinu Evrópska efnahagssvæði er komin. Það var mjög athyglisvert að heyra hæstv. fjmrh. lýsa því yfir að það ætti eftir að fara fram heilmikil nefndarvinna áður en hægt væri að leggja mat á það hvað raunverulega stæði í bókun 3 varðandi jöfnunargjöldin. Þetta er athyglisvert í því ljósi að utanrrn. hefur talið sig í stakk búið til að gefa mjög ákveðnar yfirlýsingar um það hvað væri hægt að byggja á þessari bókun. En nú segir hæstv. fjmrh. að málið sé í nefnd þriggja ráðuneyta og vonast sé til þess að þar verði komin einhver niðurstaða sem geti gagnast efh.- og viðskn. í sinni vinnu. Ég ítreka við fjmrh. hvort það sé ekki réttur skilningur hjá mér að þarna sé í raun ekki komin nein niðurstaða um það hvað felst í jöfnunargjaldsákvæðinu og hvað bókun 3 þýðir.
    Í öðru lagi var mjög athyglisvert að heyra hvað hæstv. fjmrh. ræddi um ytri tollana þegar hann sagði að ýmsir í utanrrn. hefðu viljað ganga þar lengra en hann. Ef þetta er skoðað í ljósi þess að allt fram að þessu hefur verið sagt við okkur að samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði hefði ekkert með viðskipti okkar við lönd utan svæðisins að gera. Síðast aðfararnótt föstudagsins vísaði hæstv. utanrrh. þessu máli alfarið frá sér, kvaðst ekkert um það vita, þetta væri eitthvað sem þeir hefðu verið að kokka uppi í fjmrn.