Ríkismat sjávarafurða

21. fundur
Þriðjudaginn 15. september 1992, kl. 15:40:00 (730)


     Össur Skarphéðinsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það kemur mér afar spánskt fyrir sjónir að heyra hv. þm. halda því fram að þetta séu mál sem séu í eðli sínu flokkspólitísk. Ég hef ekki litið svo á og satt að segja, ef hann kallar þetta einkavæðingarhugmyndir, verð ég að segja að ég hygg að hann gæti orðið glaður ef þetta væru einu einkavæðingarhugmyndirnar sem þessi ágæta ríkisstjórn hefur uppi.
    Ég verð líka að segja að það kann vel að vera rétt hjá hv. þm. að Ríkismatið geti í dag ekki sinnt sínu starfi. Þá þarf auðvitað og hefði þurft með einhverjum hætti að styrkja það. Ég sé hins vegar ekki að það rýri gildi þessa kerfis sem hér er verið að tala um. Ég hef skilið það svo að þær eftirlitsdeildir, sem til að mynda stóru sölusamtökin hafa núna og hafa með höndum visst innra eftirlit með þeim fyrirtækjum sem þeim tengjast, mundu að öllum líkindum verða skoðunarstofur í þessu kerfi. Því er mjög auðvelt að sjá það í hendi sér að þær mundu hafa með höndum hið daglega eftirlit eða hið nána eftirlit með fyrirtækjunum og síðan mundi Fiskistofan eðli máls samkvæmt hafa eftirlit með þessum skoðunarstofum. Ég get einfaldlega ekki séð að þá sé búið að setja upp tvöfalt kerfi. Það er hins vegar búið að setja upp þrepað kerfi.