Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins

21. fundur
Þriðjudaginn 15. september 1992, kl. 22:09:14 (780)

     Össur Skarphéðinsson :
    Virðulegur forseti. Fyrr í kvöld hélt hv. þm. Finnur Ingólfsson ágæta ræðu. Hann hlóð miklu lofi á hæstv. sjútvrh. og í miðri ræðu sinni virtist sem það rynni upp fyrir þingmanninum að hæstv. ráðherra er ekki einungis yfirmaður sjávarútvegsmála heldur líka dómsmála. Hann varpaði fram þeirri kenningu að sennilega væri hann í ríkisstjórn til þess að hafa hina ráðherrana í eins konar gæsluvarðhaldi. Nú er það svo að sé þessi kenning rétt mætti sennilega segja, miðað við það sem aðrir þingmenn hafa sagt hér í kvöld, að fangarnir hafi gert uppreisn og náð völdum.
    Hins vegar skjöplaðist hv. þm. Finni Ingólfssyni. Hann gleymdi því nefnilega að ráðherrann gegnir líka öðru embætti. Hefði hann munað eftir því hefði hann sennilega beðið um að hæstv. dóms.- og kirkjumrh. mundi biðja fyrir þeim.
    Það er auðvitað ljóst að það eru að verða kaflaskipti í íslenskum sjávarútvegi. Nú eru fyrir dyrum mjög erfið ár. Klakið í sjónum hefur misfarist áttunda árið í röð. Það er óneitanlega svo að þegar staða þorskstofna er orðin eins og hún er í dag þá er ljóst að umtalsverður samdráttur hlýtur að verða. Þetta var að sjálfsögðu komið fram í sumar og varð tilefni þeirrar umræðu sem hér fer fram í kvöld. Þau svæði sem verst urðu úti voru vitaskuld þau sem voru mest háð þorskveiðum. Svo vildi til að vegna aflasamsetningar kom skerðingin einna minnst niður í Reykjavík og í Vestmannaeyjum en verst niður á ýmsum stöðum á Vestfjörðum og á Norðausturlandi. Vitaskuld sköpuðust miklar umræður um það hvernig væri hægt að bregðast við þessari skerðingu. Sjútvrh., sem næstum því hver stjórnarandstæðingur á fætur öðrum hefur hlaðið miklu lofi á, brást m.a. svo við að hann ákvað í krafti embættis síns að heimila auknar aflaheimildir á ýmsum tegundum öðrum en þorski. Ég held að það hafi verið afskaplega viturleg ráðstöfun og ég tel að sagan eigi eftir að leiða í ljós að hún muni standast vegna þess að grönn skoðun á skýrslu Hafrannsóknastofnunar bendir einfaldlega til þess að menn þar hafi verið afar varfærnir í ýmsum útreikningum sínum á öðrum stofnum. Það er líka svo að það er þrátt fyrir allt mjög gott árferði í sjónum. Fyrir utan þorsk eru svo að segja allir stofnar á uppleið. Við það bætist að með ýmsum mikilvægum nytjastofnum eins og t.d. ufsa er að bætast góð búbót með flökkufiski norðan úr Barentshafi.
    Ég taldi, þegar á þessum tímamótum var staðið og það var ljóst að þorskveiðar mundu ekki einungis minnka næsta ár heldur nokkur ár í röð, að það væri eðlilegt að reyna að létta sjávarútveginum þetta með því að taka þennan umframafla, sem hæstv. sjútvrh. heimilaði, og beita honum til að jafna skerðinguna. Ég var líka aðili að þessari samþykkt í sjútvn., sem hv. þm. Halldór Ásgrímsson las hér upp áðan, þar sem m.a. var talað um að allra leiða skyldi leitað til að jafna þessa skerðingu. Ég gerði skoðanir mínar mjög ljósar í fjölmiðlum. Ég gat þess m.a. eins og hv. þm. Halldór Ásgrímsson las hér áðan að ég væri undir engum kringumstæðum reiðubúinn að skerða Hagræðingarsjóð. Ég vil að sú skoðun mín komi hér fram. Ég tel að það komi ekki til greina að reyna að svipta brott þeim stoðum sem standa undir sjóðnum. Við höfum markað þá stefnu að láta Hagræðingarsjóðinn standa straum af hafrannsóknum, m.a. til þess í fyrstu að kosta starfsemi Hafrannsóknastofnunar. Ég tel hins vegar nauðsynlegt að ef menn ætla sér að breyta Hagræðingarsjóði verði það gert með þeim hætti að það eigi fremur að marka honum meiri tekjustofna til þess að hann geti sinnt úreldingarþætti sínum og jafnframt sinnt í framtíðinni til að mynda kortlagningu, tilraunaveiðum og vinnslu á nýjum tegundum.
    Ég tel, virðulegur forseti, eins og þetta mál er hér fram komið, að það sé nauðsynlegt að fara víðar yfir sviðið en líta einungis á Hagræðingarsjóð. Ég vil hins vegar að sú skoðun mín komi hér fram að ég tel að það sé nokkuð óheppilegt hvernig búið er að slá Hagræðingarsjóð inn í iðu þessarar umræðu, gera hana að miðdepli umræðunnar. Eins og hv. þm. Finnur Ingólfsson benti á fyrr í kvöld eru einungis 6.000 þorsktonn í þessum sjóði. Þetta er nánast dropi í það ómælishaf sem erfiðleikar sjávarútvegsins eru. ( Gripið fram í: Tólf þúsund.) 12.000 þorskígildistonn, þar af eru 6.000 þorskur. Það hefur komið fram í þessari umræðu að menn hafa miklar efasemdir um það að aðrar tegundir muni nýtast jafn vel og þorskur og þess vegna dreg ég þetta sérstaklega fram. Það er svo í dag að afkoma veiða og vinnslu er óviðunandi. Framtíðin sem blasir við er ekki mjög góð.
    Þjóðhagsstofnun telur að greinin í heild sé rekin með halla sem nemur 1,4% og þar af eru botnfiskveiðarnar að tapa 2,3%. Ef við tökum frystitogarana út úr dæminu er tapið á báta- og togaraflotanum u.þ.b. 6,8%. Vinnslan stendur hins vegar enn þá í járnum en henni er því miður spáð algjörum umskiptum til hins verra á næsta ári. Hallareksturinn sem Þjóðhagsstofnun gefur upp fyrir sjávarútveginn í dag, 1,4%, segir ekki nema hluta sögunnar. Eins og þingmenn hafa drepið á hér í kvöld samþykkti Alþingi fyrr á árinu lög sem leiddu til tímabundinnar stöðvunar á inngreiðslum í Verðjöfnunarsjóð. Jafnframt var greidd út hlutdeild þeirra fyrirtækja sem áttu inneign í sjóðnum til þess að mæta vanskilum og draga þannig úr óhóflegri vaxtabyrði. Þessi ráðstöfun ein sér, sem einungis hefur tímabundið gildi, hefur bætt afkomu greinarinnar um 4%. Þegar horft er fram hjá þessum tímabundnu aðgerðum blasir það við að raunverulegt tap greinarinnar er 5--6%. Eini þáttur greinarinnar sem býr við bærilega afkomu eru frystitogararnir sem Þjóðhagsstofnun metur að séu reknir með 11% hagnaði. Ef frystitogararnir eru undanskildir stappar nærri að heildartap greinarinnar sé um 8%. Dæmið er samt öllu verra.
    Við vitum að innlendar skuldir greinarinnar losa u.þ.b. 30 milljarða. Í hörðu ári, eins og núna, aukast vitaskuld vanskil þeirra fyrst. Fyrirtækin bregðast við með því að reyna að fleyta sér áfram í auknum mæli með skammtímalánum og afleiðingin verður sú að innlendir vextir og dráttarvextir vega mun meira í heildarbyrðinni en ella. Raunsætt mat leiðir til þeirrar óhjákvæmilegu niðurstöðu að greiðsluvextir greinarinnar í dag eru mun hærri en þeir 6% raunvextir sem Þjóðhagsstofnun byggir sína útreikninga á.
    Mat þeirra manna sem hafa komið til okkar í hv. sjútvn. er til að mynda það að sökum þessa munar sé raunveruleg vaxtabyrði 2--3% meiri en Þjóðhagsstofnun telur. Það má ugglaust deila um þetta. Ég veit af samtölum mínum í dag við forstöðumenn Þjóðhagsstofnunar að þeir eru þessu ósammála. Ég hallast hins vegar frekar að því eftir að hafa skoðað þetta mál að talsmenn greinarinnar hafi réttar fyrir sér. Ætli það sé ekki einhver millivegur þarna á milli? Ef við tökum tillit til þessa má áætla að raunverulegt rekstrartap í dag sé meira en Þjóðhagsstofnun telur og kunni að losa á ársgrundvelli 9--10% ef við tökum frystitogarana út úr dæminu.
    Menn geta auðvitað farið vítt um til að leita skýringanna. Það er athyglisvert finnst mér að þegar hv. þm. stjórnarandstöðunnar reyna að grafa eftir skýringum staðnæmast þeir vanalega fyrst og fremst við gengis- og vaxtastefnu stjórnarinnar og vilja kenna henni um það. Ég tel að málið sé ekki svona einfalt. Ég tel að það sé erfitt að saka stefnu núv. ríkisstjórnar og þeirrar síðustu um að eiga að þessu leyti sök á ástandinu. Við getum til að mynda litið á þróun raungengisins sem þingmenn Framsfl. hafa gert hér nokkuð að umræðuefni og það með réttu. Halldór Ásgrímsson gat þess að miðað við árið 1990 hefði raungengið breyst um 3% á mælikvarða verðlags. En við getum hins vegar tekið aðrar viðmiðanir. Raungengið í dag er ívið hærra en það var að meðaltali á síðasta áratug. Ef við höldum okkur við mælikvarða verðlags er það 1,7% hærra en það var á milli 1980 og 1992. Það er hins vegar 3,3% lægra en árið 1987 og heilum 8% lægra en 1988. Á mælikvarða launa er munurinn meiri. Ég vil líka geta þess af því að menn

eru að saka ríkisstjórnina og gengisstefnu hennar um að eiga verulega sök á vandanum að um þessar mundir er búið að skapa þannig skilyrði í verðlagsmálum innan lands að verðbólgan er talsvert lægri en í samkeppnislöndunum sem ætti auðvitað að þrýsta raungenginu niður á við fremur en hitt.
    Ef við lítum svo á vextina þá er það svo að raunvextir á gengistryggðum lánum hafa lækkað síðustu tvö ár. Nýjustu teikn og nýjustu fréttir frá því í dag benda til þess að sú þróun muni halda áfram. Gengistryggðar skuldir sjávarútvegsins eru einhvers staðar á bilinu 64--68% svo lægri vextir af þeim skipta verulegu máli. Ég nefni það t.d. að vextir af útlánum Fiskveiðasjóðs hafa lækkað úr 9,5% frá því í febrúar niður í 8,95% í dag. Það munar um þetta. Vextir verðtryggðra innlendra lána hafa lækkað síðan í fyrra. Þeir eru hins vegar 0,6% hærri en 1990. Raunvextir af öðrum lánum hafa hækkað örlítið frá því í fyrra. Þjóðhagsstofnun, eins og ég sagði áðan, metur það svo að raunvextir af heildarskuldum séu 6%. En ég er þeirrar skoðunar, og ég er sammála talsmönnum greinarinnar um það að vaxandi erfiðleikar hennar hafa leitt til þess að greiðsluvextir eru talsvert meiri og umfram þessa tölu. Ég tel hins vegar að þessar upplýsingar og viðmiðun við síðustu ár, m.a. síðustu ár fyrri ríkisstjórnar, sýni að vaxtaþróun á skeiði þessarar ríkisstjórnar hafi ekki skipt sköpum um afkomuna í greininni. Ég vil líka geta þess, vegna þess að við höfum verið að tala hérna um báta- og togaraflotann og ég gat þess að tapið af honum væri áætlað um 6,8%, að því má bæta við að olíukostnaður sem er afar mikilvægur liður í rekstri flotans hefur lækkað talsvert. Meiri hluti skipanna er knúinn af gasolíu og frá síðasta ári hefur hún lækkað um hvorki meira né minna en 18--19%. Ég tel því að það sé mjög erfitt að kenna þessum þáttum um hina slæmu stöðu greinarinnar.
    Ég er þeirrar skoðunar að vandinn sé fyrst og fremst tvíþættur. Í fyrsta lagi hefur aflinn minnkað verulega, ekki bara núna á milli 1992--1993 heldur ef við horfum aftur um síðustu árin. Ef við horfum t.d. til þess afla sem við höfðum 1989 og 1992 þá er það svo að samkvæmt upplýsingum frá Þjóðhagsstofnun hafa minni veiðiheimildir þessara síðustu þriggja ára leitt til versnandi afkomu sem nemur 4%. Miðað við sama aflamagn og 1989 væri greinin í dag rekin með svolitlum hagnaði.
    Ég hef drepið hér sérstaklega á veiðarnar og mig langar að koma hér með upplýsingar sem ég tel merkilegar og varða það hvernig samdráttur í afla hefur leikið afkomu botnfiskveiðanna. Frá 1989 hefur botnfiskaflinn dregist meira saman en sem nemur heildarafla á þessum tíma og aflasamdrátturinn einn samkvæmt upplýsingum, sem ég fékk í dag frá Þjóðhagsstofnun, hefur leitt til þess að afkoma veiðanna hefur rýrnað um hvorki meira né minna en 8--9% miðað við áætlaðan afla 1993. Þar af svarar áætlaður samdráttur á milli 1992 og 1993 2%. Hvað þýðir þetta? Það þýðir að ef við færum í dag að veiða sama magn og 1989 væru botnfiskveiðarnar reknar með drjúgum hagnaði eða sem næmi í kringum 6%. Þetta finnst mér varpa nokkuð öðru ljósi á vanda greinarinnar og hina bágu afkomu hennar en hefur komið fram í umræðunum hér í kvöld.
    Ég gæti í framhaldi af þessum upplýsingum dregið þá ályktun að það væri fyrst og fremst samdráttur í afla sem hefði leitt veiðarnar í þær ógöngur sem þær eru nú staddar. Ég tel aldeilis fráleitt að ætla að skella þeirri skuld allri á núv. ríkisstjórn. Máttur hennar og dýrð er að vísu mikil en hún hefur ekki enn náð valdi á tímgun fiska og vexti þeirra í sjónum.
    Í öðru lagi vil ég segja það að vandi sjávarútvegsins stafar af óhóflegum skuldaklyfjum sem offjárfesting síðasta áratugar hefur bundið greininni. Með minnkandi framlegð vegna minnkandi afla ræður hún alls ekki við að greiða lengur af þessum skuldum. Offjárfestingin hefur birst í allt of stórum flota og allt of mörgum vinnslustöðum miðað við veiðanlegan afla. Kostnaðurinn við að sækja veiðina og við að vinna aflann verður þess vegna allt of mikill og miðað við fyrirsjáanlegan afla á næstu árum er þannig í rauninni búið að byggja varanlegan taprekstur inn í kerfið miðað við óbreytta stöðu. Það er einfaldlega svo að það eru of mörg skip að veiða of fá tonn. Það eru of mörg vinnsluhús að vinna of lítinn afla.
    Því miður er það staðreynd að þrátt fyrir afar bága afkomu allan síðasta áratug með nokkrum undantekningum þá kepptust menn í sjávarútvegi við að fjárfesta hver um annan þveran. Ég nefni árin 1988 og 1989. Þau voru sjávarútveginum mjög erfið og árið 1988 sennilega eitt alversta rekstrarár áratugarins. Á þessum tveimur árum var samt fjárfest um samanlagt 7,3 milljarða kr., þar af í fiskvinnslunni fyrir 1,5 milljarða fyrra árið og 4,3 milljarða kr. hið síðara. Í dag eru heildarskuldir greinarinnar um 95 milljarðar. Árlegar tekjur eru ekki áætlaðar nema á milli 75 og 80 milljarðar kr. Eins og menn þekkja úr fyrirtækjarekstri er það talið nálgast hættumörk í rekstri hefðbundinna fyrirtækja ef skuldir ná því að verða jafnmiklar og árlegar tekjur. Miðað við þetta er sjávarútvegurinn í dag kominn langt út fyrir ystu mörk. Ég held að það sé erfitt að kenna núv. ríkisstjórn um þetta. Ég held að þetta stafi af skipulagsleysi sem á rætur að rekja til síðasta áratugar. Ég vil líka að við gefum því örlítinn gaum, og það styður það sem ég er að segja, að síðasta áratug stóð botnfiskafli í stað þrátt fyrir sveiflur milli einstakra ára. Fiskverð fór eigi að síður mjög hækkandi á mörkuðum okkar erlendis svo það er ekki hægt að draga aðra ályktun en þá að vaxandi skuldir eru fyrst og fremst skapaðar af of mikilli fjárfestingu og þar með rangri stjórnun í greininni, frá því á síðasta áratug ekki síst.
    Því er svo við að bæta að fiskvinnslan býr við sérstakan vanda sem felst í því að hráefnisverð á

erlendum mörkuðum hefur hækkað langt umfram hækkanir á afurðum erlendis. Þjóðhagsstofnun metur það svo að hvert kíló af slægðum botnfiski hafi frá ársbyrjun 1990 og fram á þetta ár hækkað um 22--24%. Á sama tíma hefur útflutningsverð á botnfiskafurðum ekki hækkað nema um 8%. Í skýrslu sjútvrn. frá því í maí á þessu ári er sett fram sú þumalfingursregla að hækkun á hráefnisverði um 10% leiði til þess að afkoma vinnslunnar versni um 5,6%. Samkvæmt þessu hefur hækkunin á hráefnisverði vinnslunnar rýrt afkomu hennar á þessum tíma um 6--9%. Þarna er því um ákveðinn tekjuskiptingarvanda að ræða í greininni sem virðist vera nokkuð erfitt að eiga við í dag.
    Ég tel að ef menn ætla að setja fram lausnir sé það ljóst að framtíð greinarinnar verður aldrei tryggð fyrr en búið er að vinda ofan af þeirri offjárfestingu sem er til staðar í sjávarútveginum og létta þar með skuldaklyfjunum af greininni. Án þess mun hún halda áfram að sökkva. Það verður að fækka skipum, tel ég, en einkum og sér í lagi tel ég að það verði að fækka einingum í vinnslunni. Og undir þetta, virðulegi forseti, taka raunar margir ágætir þingmenn stjórnarandstöðunnar. Formaður þingflokks Kvennalistans telur t.d. þörf á að fækka fyrirtækjum í sjávarútvegi. Þannig sagði hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir í grein í Morgunblaðinu 22. júlí, með leyfi forseta:
    ,,Jafnframt er ljóst að of mörg sjávarútvegsfyrirtæki eru að slást um of lítinn afla enda verður að fækka þeim þannig að einhver þeirra standist hretið.``
    Það er því ljóst að formaður þingflokks Kvennalistans er þeirrar skoðunar að það sé forsenda þess að sjávarútveginum verði bjargað og einhver fyrirtæki hans standist hretið að greinin verði með einhverjum hætti grisjuð. Þingmaðurinn er reyndar kjarkmeiri en margir aðrir. Hún leyfir sér að hugsa það upphátt sem aðrir hafa einungis þorað að gera í leyndum huga síns. Hún spyr í sömu grein, með leyfi forseta: ( Gripið fram í: Ertu sammála henni?)
    ,,Það virðist því komið að skuldadögum og við hljótum að spyrja okkur af fyllstu alvöru hvort þjóðarframleiðslan standi undir jafndreifðri byggð og nú er í landinu.``
    Hér stígur einn af oddvitum stjórnarandstöðunnar fram á sviðið og spyr hvort það sé skynsamleg byggðastefna að halda uppi þeirri dreifðu byggð sem nú er í landinu miðað við þann samdrátt sem fyrirsjáanlegur er í þjóðarframleiðslu vegna samdráttar í nytjastofnum þjóðarinnar.
    Hér, virðulegi forseti, er gengið lengra en nokkur stjórnarsinni hefur gert í umræðum um þann vanda sem áföll í sjávarútvegi skapa þjóðinni því hér er ekki einungis rætt um grisjun fyrirtækja í sjávarútvegi, virðulegur forseti. Hér er í fyrsta skipti spurt að því í þessum sölum frá því ég kom hingað --- og það er athyglisvert að þar er á ferðinni formaður þingflokks eins af stjórnarandstöðuflokkunum --- hvort ekki sé nauðsynlegt að grisja hinar dreifðu byggðir. Þeirri spurningu ætla ég ekki að svara, virðulegur forseti, en ég er hjartanlega sammála hv. þm. Kristínu Ástgeirsdóttur að því leyti að ég tel fækkun eininga í sjávarútvegi höfuðnauðsyn eigi greinin að eignast lífvænlega framtíð. Og þá má spyrja: Hvernig á að fækka einingunum?
    Hv. þm. Jóhann Ársælsson svaraði þeirri spurningu fyrir sitt leyti, og þá væntanlega Alþb., í umræðum um skýrslu sjútvrh. um vanda sjávarútvegsins hér á hv. Alþingi 11. maí sl. Ég spurði hann þá úr þessum stól hvort hann vildi standa að því að fækka þeim. Í svari hans kom fram að hann teldi vinnslugetuna of mikla og hans leið til að fækka vinnslustöðvum kom fram í eftirfarandi svari, með leyfi forseta:
    ,,Um það hvernig eigi að fækka einingum í sjávarútvegi get ég sagt alveg hreint út: Það eiga menn að sjá um sjálfir. Ríkið á ekki að skipta sér af því hve margir verka fisk á Íslandi.``
    Ég get ekki, virðulegur forseti, dregið aðra ályktun af þessu svari Alþb. en eftirfarandi: Þegar staðhæft er að menn eigi sjálfir að sjá um að hætta og fækka þannig einingum í vinnslunni og ríkið eigi ekki að skipta sér af því, eins og þingmaðurinn sagði ótvírætt fyrir hönd síns flokks, þá eru menn ekki að tala um neitt annað en það sem kallað hefur verið gjaldþrotaleið. Gott og vel. Hún kann að reynast nauðsynleg í sumum tilvikum. En ég er þeirrar skoðunar að það eigi eftir fremsta megni að reyna að aðstoða fyrirtæki til að hætta og draga þannig úr þeirri umframgetu sem er að finna í greininni. Hins vegar er alveg tómt mál að tala um það, eins og þjóðarbúið stendur í dag, að finna það fjármagn annars staðar en innan greinarinnar sjálfrar og undir það hafa reyndar margir talsmenn sjávarútvegsins tekið. Svo vill til að það kann að vera hægt að finna fjármagn innan hennar á næstu árum. Það er að minnsta kosti mín skoðun, og við erum hér að ræða um Hagræðingarsjóð, og ég tel að þá komi til kasta margeflds Hagræðingarsjóðs, sem ég tel að eigi að styrkja verulega, þannig að hann geti í raun og veru staðið undir nafni sínu, sjóður hagræðingarinnar.
    Við jafnaðarmenn höfum sett fram hugmyndir um veiðigjald sem eru ekki ýkja vinsælar nema e.t.v. hjá hluta þingflokks Kvennalistans. Það er auðvitað svo að miðað við núverandi stöðu sjávarútvegs er erfitt að ætla sér að taka af honum fé í formi veiðigjalds eða aflagjalds til þess að standa straum af nauðsynlegu hagræðingarátaki innan greinarinnar sjálfrar. Ég vil hins vegar vekja athygli á því að þær hugmyndir sem við höfum sett fram um veiðigjald byggjast ekki á að veiðigjald verði sett á samstundis af fullum þunga. Þess í stað hefur Alþfl. lagt fram þá hugmynd að gjaldið verði tengt rekstrarafkomu greinarinnar

þannig að það komi ekki til áhrifa á greinina sem heild fyrr en hún hefur siglt út úr þeim vanda sem hún er í og farin að skila arði aftur. Við höfum jafnframt sagt að veiðigjaldið eigi ekki að koma til áhrifa nema yfir mjög langan tíma og við höfum nefnt 10 ár eða jafnvel meira í því sambandi.
    En mig langar líka að benda á það, virðulegi þingheimur, að innan sjávarútvegsins eru burðarásar sem eru í dag þrátt fyrir þá óáran sem ríkir í þjóðarbúinu og greininni, burðarásar sem eru að skila drjúgum hagnaði. Ég minni á frystitogarana sem hafa árum saman skilað góðum hagnaði og sem spáð er vaxandi hagnaði á allra næstu árum. Nú liggur líka fyrir að fjölmargir nýir frystitogarar eru að bætast við flotann. Ég tel það ekki jákvæða þróun og ég held að fæstir í þessum sölum telji það. Ég tel að þessi þróun kunni að skerða vaxtarmöguleika í ýmsum öðrum greinum sjávarútvegs. Þess vegna tel ég fyllilega réttmætt og viðeigandi að varpa fram þeirri spurningu hvort ekki sé hægt að ná sátt um það að setja með einhverjum hætti veiðigjald á frystitogarana.
    Fyrr í kvöld hafa menn rætt þann aðstöðumun sem er á vinnslu úti á sjó um borð í frystitogurum og hins vegar í landi. Þetta veiðigjald, sem ég er hér að leggja til á frystitogara, gæti samsvarað þeim mun sem er á aðstöðu frystitogaranna og vinnslunnar í landi. En við vitum að hann er verulegur. Slíkt gjald mundi jafna þennan aðstöðumun sem er annars vegar á vinnslunni úti á sjó og hins vegar í landi. Eins og við vitum, og eins og hv. þm. Ingibjörg Pálmadóttir veit, þá er þessi aðstöðumunur í vaxandi mæli að hrekja vinnsluna alla á haf út. En um leið og aðstöðumunur þessara tveggja vinnslugreina yrði jafnaður með þessum hætti yrðu til fjármunir sem færu ekki úr greininni heldur yrðu notaðir innan hennar til að standa straum af hagræðingarátaki í sjávarútvegi, bæði með því að stuðla að úreldingu innan veiðanna jafnt sem vinnslunnar, en jafnframt líka að standa undir kostnaði við tilraunaveiðar á nýjum tegundum eða vannýttum tegundum.
    Ég teldi eðlilegast að þetta gjald rynni inn í Hagræðingarsjóðinn og hlutverk hans yrði með lögum víkkað út þannig að með auknum tekjum mundi hann ekki aðeins sinna úreldingu skipa, heldur mætti einnig íhuga að láta Hagræðingarsjóðinn aðstoða vinnslustöðvar til að hverfa úr rekstri án gjaldþrota. Sömuleiðis yrði það þá lögbundið hlutverk hans að styðja við kortlagningu og tilraunaveiðar vannýttra tegunda.
    Vegna þess að ég veit hversu vinsælt umræðuefni veiðigjald er í þessum sölum þá vil ég halda áfram á þessari braut sem ég er nú staddur á. Ég tel að hægt væri að koma fram með aðra hugmynd um veiðigjald sem einnig yrði nýtt til að hagræða innan greinarinnar sem færi ekki út úr greininni. Það er vitaskuld von okkar allra, að sem allra fyrst takist að ná upp þeim nytjastofnum sem nú eru í lægð og sem hefur kostað þjóðarbúið ómælda erfiðleika. Ég er þeirrar skoðunar að þegar stofnunum vex fiskur um hrygg og aftur verður hægt að auka veiðiheimildir eigi að veita öllum nýjum kvóta umfram þær veiðiheimildir sem eru í gildi í dag inn í Hagræðingarsjóðinn. Þessar nýju heimildir yrðu svo seldar samkvæmt þeim reglum sem nú gilda í sjóðnum, þ.e. að skipum og útgerðum verði boðnar heimildirnar til kaups á gangverði í hlutfalli við þann kvóta sem þær hafa fyrir. Andvirðinu verði hins vegar alfarið varið til að hagræða innan greinarinnar. Þannig er ekki hægt að segja að gjaldið yrði skattur á greinina vegna þess að það yrði kyrrt innan hennar, það rynni einungis til þess að efla og treysta undirstöður hennar með stórtæku hagræðingarátaki.
    Ég tel, eins og ég hef áður drepið á, að þetta átak ætti að hafa þrenns konar markmið. Í fyrsta lagi ætti það að beinast að því að efla þann þátt í starfsemi Hagræðingarsjóðsins sem lýtur að úreldingu skipa og í því sambandi vil ég nefna sérstaklega að sjóðurinn ætti að veita aukna umbun þeim útgerðum sem taka skip úr flotanum hér heima og senda til veiða í erlendri lögsögu. Þar liggja geysilegir möguleikar. Ég gæti nefnt mörg lönd. Ég læt mér nægja að nefna Kam tsjatka , þar sem fjölmargir ónýttir veiðistofnar eru til staðar, þar sem okkur hefur verið tekið opnum örmum og þar sem kleift yrði í kjölfarið að selja ekki einungis þekkingu heldur fleiri skip, veiðarfæri og hvers konar vélbúnað.
    Í öðru lagi yrði hlutverk hins eflda Hagræðingarsjóðs að standa straum af úreldingu innan vinnslunnar, en ég vil minna á, virðulegi forseti, að hæstv. sjútvrh. hefur á sumum stigum umræðunnar um sjávarútvegsmál einmitt varpað fram vísi að þeirri hugmynd, að einhvers konar úreldingarsjóður fyrir fiskvinnsluna verði settur á stofn.
    Í þriðja lagi mundi svo Hagræðingarsjóðurinn styðja tilraunaveiðar og tilraunavinnslu á nýjum og vannýttum tegundum. Ég nefni sérstaklega tilraunir með ný veiðarfæri svo sem djúplínu fyrir hina vinsælu langhala, en líka öðruvísi veiðibúnað sem gerðir til að mynda smáum togskipum kleift að stunda t.d. veiðar á búra á miklu dýpi og sömuleiðis að veiða í flottroll tegundir á borð við úthafs- og djúpkarfa. Ég tel að slíkan búnað sé hægt að þróa og hann er í þróun. Það vantar stuðning við slíka þróun og það mundi í senn stórauka nýtingu smárra togskipa sem búa við takmarkaðan kvóta á hefðbundnum nytjategundum og um leið stórbæta afkomu þeirra. Yrði þetta gert, virðulegi forseti, þá er hægt að segja með sanni að Hagræðingarsjóðurinn stæði undir nafni.
    Ég tel að þau frumvörp sem hér liggja fyrir miði í rauninni að því að skella fótunum undan hagræðingarhlutverki sjóðsins. Ég er því algjörlega andvígur. Ég tel að greinin hafi miklu meiri þörf á því að hagræðingarhlutverk sjóðsins yrði styrkt og það er það sem ég tel að við ættum að ræða hér í kvöld.