Umræða um lagaákvæði er varða samgöngumál

22. fundur
Miðvikudaginn 16. september 1992, kl. 15:51:05 (839)

     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Þar sem við því virðist ekki verða orðið að opna mælendaskrá aftur tel ég að það sé ekki brot á þingskapalögum að vekja á því athygli að ég held að frv. sem hér liggur fyrir sé með öllu óvenjulegt. Nú kann eitthvað að hafa verið sagt um það áður vegna þess að ég var upptekin þegar umræðan hófst. Um langt skeið, hæstv. forseti, hefur það form á lagasetningu verið gagnrýnt að leggja hér fram hvað eftir annað breytingar á ótal lögum í einu frv., svokallaða bandorma. Það þykir ekki góð lagasetning og er það enda ekki. Hér hefur nokkuð nýtt borið við þar sem lagt er fram frv. í tíu greinum þar sem sjö af greinunum eru einungis um að galopna rétt ráðherra til að setja reglugerðir um alla skapaða hluti. Það má satt að segja undrum sæta að löglært fólk skuli skila öðru eins plaggi inn á Alþingi Íslendinga. Ég vil minna á að hér talaði hæstv. iðnrh. fyrir nokkrum dögum fyrir fjölda mála sem varða hans ráðuneyti og þar er ólíku saman að jafna. Þar var hægt að hafa málefnalega umræðu um innihald þeirra frv. sem fram voru lögð. En hér er ekkert um slíkt að ræða. Hér er bara verið að heimila hæstv. samgrh. að gera það sem honum sýnist. Ég vil, hæstv. forseti, mótmæla frv. Það vill nú svo til að ég hef verið forseti hins háa Alþigis í þrjú ár og ég verð að segja alveg eins og er að mér er til efs að ég hefði leyft framlagningu frv. Þetta er ekki boðlegt frv.
    Lagabandormar eru nógu slæmir og ég gagnrýndi það stundum, bæði í þingræðum og einnig í viðræðum mínum við hæstv. ráðherra. En reglugerðabandorm hef ég aldrei séð fyrr. Ég vil mælast til þess, hæstv. forseti, að farið verði að beiðni minni um að hér verði hafin umræða um þetta því ég tel að forseti hafi brotið á hv. þm. með því að tilkynna ekki að fleiri hafi ekki kvatt sér hljóðs.