Stjórnarskipunarlög

23. fundur
Fimmtudaginn 17. september 1992, kl. 11:58:45 (872)

     Flm. (Ragnar Arnalds) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Vegna hinnar sögulegu upprifjunar hv. þm. Björns Bjarnasonar hér áðan þá get ég ekki á mér setið að vekja athygli hans á því að hann fór ekki alveg rétt með sagnfræðina hvað varðar málatilbúnað um þjóðaratkvæðagreiðslur. Ég vil geta þess að á kjörtímabilinu 1963--1967 flutti ég hvað eftir annað frv. til stjórnskipunarlaga einmitt um lögfestingu á þjóðaratkvæðagreiðslu sem fram færi að kröfu þriðjungs þingmanna og ég var reyndar þar líka með tillögur um það að ákveðinn hluti kjósenda gæti gert sömu kröfur. Þessar tillögur voru einnig fluttar í stjórnarskrárnefnd á sínum tíma. En ég ætla ekki að fjölyrða um þetta atriði sem skiptir ekki stóru máli. Mér þótti hins vegar býsna djarft hjá hv. þm. að halda því fram að EES-málið hafi verið kynnt þjóðinni fyrir seinustu kosningar. Ég spurði í framíkalli: Hvenær var þjóðinni kynnt EES-málið fyrir seinustu kosningar? Ég er hræddur um að fleirum en hv. þm. Birni Bjarnasyni verði stirt um svör ef hann á að gera grein fyrir því. Auðvitað vitum við að einhverjar blaðagreinar voru skrifaðar um málið, m.a. af fyrrv. forsrh. eða Hjörleifi Guttormssyni og nokkrum öðrum mönnum. En að halda því fram að málið hafi verið kynnt sérstaklega fyrir þjóðinni er auðvitað mesta fjarstæða.
    Fyrrv. forsrh. Steingrímur Hermannsson komst þannig að orði að í þessum kosningum yrði tekist á um Evrópubandalagið, hugsanlega aðild að Evrópubandalaginu. Hann nefndi ekkert sérstaklega þar Evrópska efnahagssvæðið vegna þess einfaldlega að þeim samningum var engan veginn lokið og lá ekkert fyrir um það hver niðurstaða yrði í þeim samningum og það var auðvitað útilokað fyrir nokkurn flokk að taka afstöðu til þess hvort menn vildu samþykkja samning um Evrópska efnahagssvæðið eða ekki vegna þess að hann lá alls ekki fyrir. Þessi fullyrðing hv. þm. er því auðvitað mjög fjarstæðukennd og furðuleg að ekki sé meira sagt.