Stjórnarskipunarlög

23. fundur
Fimmtudaginn 17. september 1992, kl. 12:02:46 (874)

     Flm. (Ragnar Arnalds) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Aðalatriði þessa máls er að sjálfsögðu það að fyrir seinustu kosningar lá engan veginn fyrir neitt um það hvernig samningurinn liti endanlega út og hann hefur vissulega tekið talsverðum breytingum frá því að fjallað var um hann veturinn 1991. Alltaf lá fyrir að þó að Alþb. væri þeirrar skoðunar að rétt væri að kanna þann möguleika sem fælist í Evrópska efnahagssvæðinu og ekki væri rétt að vísa þeim möguleika fyrir fram á bug þá höfðum við alla tíð fullan fyrirvara á afstöðu okkar og við sögðum bæði opinberlega og í ríkisstjórn að við vildum ekki taka afstöðu til málsins fyrr en við sæjum hvernig þessi samningur ætti að líta út og hvert ætti að vera innihald hans. Þannig var auðvitað um fjöldamarga aðra flokka og einstaklinga sem tóku þátt í þessari kosningabaráttu. Af þessari ástæðu liggur auðvitað ljóst fyrir að engan veginn var verið að kjósa um samninginn um Evrópska efnahagssvæðið í seinustu kosningum. Það er alveg hrein fjarstæða að halda slíku fram. Vel getur verið að einstakir menn hafi verið búnir að gera upp hug sinn, og það á t.d. við um Kvennalistann, en ég hygg að afstaða fæstra annarra hafi legið skýrt fyrir. Ég vísa þessu algjörlega á bug sem hreinni fjarstæðu.