Þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu

23. fundur
Fimmtudaginn 17. september 1992, kl. 13:31:28 (891)

     Einar K. Guðfinnsson :
    Virðulegi forseti. Í ljósi þess að mál sem snúa að Evrópska efnahagsvæðinu og samningum þar að lútandi eru meðal hinna stærstu sem við höfum tekist á við, þá hefði það e.t.v. ekki komið mjög á óvart að mikill þungi væri að baki þeirri kröfu að fram færi þjóðaratkvæðagreiðsla um samninginn.
    Í sjálfu sér hefði ég ekki orðið mjög undrandi sjálfur þó að slík krafa hefði hljómað mjög víða og mjög hátt í þjóðfélaginu en því er nú öðruvísi farið. Sannleikurinn er sá að þrátt fyrir ályktanir nokkurra heildarsamtaka launafólks og annarra samtaka sem hv. 1. flm. þáltill. nefndi áðan, þá er ótrúlega lítill þungi á bak við þessa kröfu. Mér finnst sú staðreynd einmitt endurspeglast í þessum þingsal sem lengst af þessari umræðu, bæði umræðunni nú og einnig þeirri sem fram fór áðan, hefur verið næsta þunnskipaður. Hér hefur til að mynda verið endrum og sinnum í dag fremur fátt fólk til að hlýða á umræðuna og ég hygg að það endurspegli á nokkurn hátt hversu lítill raunverulegur áhugi er á kröfunni um þjóðaratkvæði um EES-samninginn. ( Gripið fram í: Þér finnst að hann ætti að vera meiri?) Það hefði ekki komið mér á óvart þó hann hefði orðið meiri vegna þess að hér er um svo stóran samning að ræða og vegna þess að krafa um þjóðaratkvæði hefur oft verið uppi á borðum okkar í ýmsum öðrum málum sem jafnvel eru smærri í sniðum.
    Það sem jafnan hefur einkennt kröfuna um þjóðaratkvæði í okkar þjóðfélagi hefur verið það að henni hefur verið haldið fram af mönnum meðan þeir eru í minni hluta og hafa þar af leiðandi ekki haft aðstöðu til þess að tryggja framgang hennar. Það hefur líka einkennt þetta mál að aldrei hefur það gerst eftir að sömu menn og sömu flokkar og einu sinni kröfðust þjóðaratkvæðis, hvort sem það var vegna inngöngu í Atlantshafsbandalagið eða vegna varnarsamningsins við Bandaríkin 1951, höfðu aðstöðu til þess að fylgja eftir þessari kröfu í stjórnarsamstarfi hafi þeir látið brjóta á þessu. Með öðrum orðum aldrei talið þetta svo þýðingarmikið mál að ástæða væri til þess að bera það fram fyrir allt annað í hinni pólitísku umræðu. (Gripið fram í.) Ég hygg og mig grunar að svo sé ekki heldur nú, hv. þm., án þess að ég ætli að svara fyrir það. Kannski væri ágætt að fá þau svör síðar.
    Ég vek athygli á því að eins og fram hefur komið höfum við Íslendingar afar litla hefð í þessum málum. Þjóðaratkvæða hefur verið leitað á fyrri hluta aldarinnar í málum sem eru af ólíku tagi, bæði sem lutu að sjálfstæði Íslands og einnig málum af allt öðrum toga eins og t.d. um afstöðu til áfengisbanns og þegnskylduvinnu. Þannig sjáum við að í raun eru hugmyndir um hefðir í þessum efnum afskaplega rýrar og sérkennilegar og á þeim grundvelli geta menn ekki sett fram kröfu um þjóðaratkvæðagreiðslu um EES-samkomulagið.
    Ef við skoðum ákvæði stjórnarskrárinnar þar sem kveðið er á um hvenær efnt skuli til þjóðaratkvæðis, þá er þar líka um að ræða mjög einangruð og sérmótuð tilefni sem heldur ekki er hægt að vísa til þegar menn setja fram kröfu um þjóðaratkvæði varðandi EES-samkomulagið. Það hefur borið dálítið á því í þessari umræðu, bæði núna vegna þessarar þáltill. og frv. sem rætt var um áðan því það verður ekki hjá því komist að þessar umræður skarist, að vitnað hafi verið til þess að slík þróun til þjóðaratkvæðagreiðslu hafi verið vaxandi löndunum í kringum okkur. Ég held að mjög sé ofmælt hvað þetta áhrærir. Sannleikurinn er sá að það má fremur teljast til undantekninga en reglna að þjóðir beiti þjóðaratkvæðagreiðsluheimildum sínum. Sviss er undantekning og svo áberandi undantekning að það er fjarstæðukennt að vera að vísa til fyrirkomulagsins þar þar sem allt önnur hefð ríkir. Ég hef t.d. undir höndum athugun sem einn kunnasti stjórnmálafræðiprófessor Breta Ivor Crew gerði á þessum málum frá árinu 1945 og fram yfir 1980. Þá kemur í ljós að Sviss hefur að vísu þá sérstöðu að 160 sinnum eða rúmlega það hefur þjóðaratkvæðagreiðslu verið beitt á þessum árum. Í Danmörku og á Írlandi hafði verið fimm eða sex sinnum gripið til þessa ráðs en annars staðar heyrði þetta til algjörra undantekninga. Í a.m.k. 10 þessara 20 lýðræðisríkja sem hann hafði skoðað, þar á meðal Bandaríkjunum, hafði aldrei á þessu tímabili verið gripið til þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er því ofmæli þegar talað er um að þróunin sé að verða í þessa átt í okkar heimshluta eins og stundum hefur verið látið liggja að þó það hafi kannski ekki beinlínis komið fram í máli hv. 1. flm. áðan.
    Þetta kemur reyndar fram þegar þjóðirnar hafa verið að gera upp afstöðu sína til milliríkjamála eins og EES-samningsins og Maastricht-samkomulagsins og er þá alls engin regla að menn grípi til þjóðaratkvæðagreiðslu.
    Svo ég vitni enn til Bretlands, þegar Bretar ákváðu að ganga í Evrópubandalagið var ekki þjóðaratkvæðagreiðsla. Bretar gengu í Evrópubandalagið 1973, endurgerðu síðan þann samning og um það var síðan greitt atkvæði í þjóðaratkvæðagreiðslu 1975 eða tveimur árum síðar. Aftur á móti rifjar það auðvitað upp og vekur athygli á því að þeir sem nú standa að kröfunni um þjóðaratkvæði með þessari þáltill. gætu e.t.v. staðið í þeim sporum að vera aðilar að ríkisstjórn, a.m.k. aðilar að stjórnarmyndunarviðræðum, þó ég sé nú ekki að spá því að það sé mjög líklegt á næstu árum. Þá hlýtur þessi spurning að vakna: Með hvaða hætti ætla menn að ganga til þeirra viðræðna? Hvaða kröfur ætla menn að gera þá um þjóðaratkvæði? Ætla menn að gera þá kröfu um þjóðaratkvæði til þess að taka þetta mál upp m.a. í ljósi þess að Bretar töldu sig geta gert þetta þrátt fyrir að vera búnir að gera samning um inngöngu í Evrópubandalagið og eftir endurgerð þess samnings gripið til þess ráðs að hafa um það sérstakt þjóðaratkvæði?
    Í sjálfu sér væri hægt að ræða þetta mál mjög ítarlega og fróðlegt væri að gera það út af fyrir sig, en tími minn er búinn og því hlýt ég að ljúka máli mínu að sinni.