Þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu

23. fundur
Fimmtudaginn 17. september 1992, kl. 13:42:23 (893)


     Einar K. Guðfinnsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég hygg að staðreynd málsins sé sú að það hefur verið með ýmsum hætti sem menn hafa setið undir þessum umræðum. Ég held það hafi verið eftir tilefninu hverju sinni hvort menn hefðu áhuga á þeim ræðum sem var verið að flytja eins og gengur en almennt held ég að menn hafi fylgst vel með þeirri umræðu sem hefur farið fram um hið Evrópska efnahagssvæði, bæði í þingsalnum, í hliðarsölum og með því að kynna sér málin með ýmsum öðrum hætti. (Gripið fram í.) Þingmaðurinn var vegna annarra skyldustarfa sinna, m.a. vegna Alþingis, fjarverandi í nokkra daga, það liggur fyrir og það ætti hv. frammíkallandi að vita að ég var vegna annarra skyldustarfa minna hjá Alþingi fjarverandi umræðuna í nokkra daga en hef setið hana allbærilega að öðru leyti.
    Varðandi það sem hv. þm. sagði um Danmörku vek ég athygli á því að þegar ég fór yfir þessa þróun í Evrópu nefndi ég sérstaklega Danmörku í þessu sambandi og Írland, auk Sviss, þar sem einhver hefð hefur skapast sem við getum kallað því nafni fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu í Evrópu. Mér finnst því hv. þm. hafa verið afar óheppinn með því að taka þetta dæmi sérstaklega.