Þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu

23. fundur
Fimmtudaginn 17. september 1992, kl. 13:50:12 (897)


     Einar K. Guðfinnsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er heldur dapurlegt að heyra hv. þingmann tala í senn um stjórnmálafræði og sýna svona dæmalausa útúrsnúninga eins og er þó raunar háttur hans í þingsalnum. Ég nefndi það aldrei í mínu máli að þjóðaratkvæðagreiðsla hefði ekki haft einhverja þýðingu í hinni pólitísku framvindu í Evrópu. Ég var hins vegar, svo ég nefni það í þriðja eða fjórða sinn, að vekja á því athygli að það væri mikil oftúlkun, svo ég noti nú frægt orð, þegar menn töluðu um að þjóðaratkvæðagreiðsla væri að færast í þann vöxt að það gæfi sérstakt tilefni til þess að henni væri beitt hér varðandi EES-málið. Það var auðvitað kjarni þess sem ég var að vísa til. Ég nefndi sérstaklega athugun sem fram fór á árunum 1945 og fram yfir 1980 sem leiddi þetta m.a. mjög rækilega í ljós. Það hefur ekkert í málflutningi hv. þm. hnikað því sem ég hef fullyrt og það sem ég hef sagt í þeim efnum stendur auðvitað óhaggað þrátt fyrir hraustlega tilburði hv. þm. til að sýna fram á annað.