Þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu

23. fundur
Fimmtudaginn 17. september 1992, kl. 14:39:39 (918)

     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Hér er þarft mál á ferðinni sem verðskuldar líflegar umræður eins og raun hefur orðið á. Ég hjó dálítið eftir því í ræðum þingmanna af hálfu Sjálfstfl. að þeir höfðu uppi þann rökstuðning að búið væri að kjósa um væntanlegan samning um Evrópskt efnahagssvæði. Rökin voru þau að Framsfl. hefði sett á oddinn í kosningabaráttu sinni X-B ekki EB, eða eitthvað í þeim dúr. Eða með öðrum orðum af því að Framsfl. lýsti því yfir að hann styddi ekki inngöngu í Efnahagsbandalagið þá væri búið að kjósa um Evrópska efnahagssvæðið.
    Með þennan skilning í huga velti ég því dálítið fyrir mér hvað kjósendur Sjálfstfl. hafi verið að segja með því að ljá flokknum stuðning sinn. Hvað skyldi Sjálfstfl. hafa sagt við spurningunni um aðild að Efnahagsbandalaginu? Jú, Sjálfstfl. svaraði því þannig að hann útilokaði ekki aðild að Efnahagsbandalagi Evrópu. Ber að skilja það svo að þingmenn Sjálfstfl. telji sig í ljósi þess hafa heimild til að Ísland gangi inn í Efnahagsbandalagið á þessu kjörtímabili? Svo mætti álykta út frá þessum málflutningi. En þessi málflutningur byggir að sumu leyti á ákveðnum forsendum sem ég get tekið undir, sem eru þær að stjórnmálaflokkar megi ganga svo langt sem hann hafi gefið yfirlýsingar um í kosningabaráttu en ekki lengra. Hvað skyldi Sjálfstfl. hafa sagt í kosningabaráttunni um Evrópska efnahagssvæðið? Hann setti ákveðin skilyrði fyrir því að styðja það mál. Og þau skilyrði voru að samningar tækjust um hindrunarlaus viðskipti með sjávarafurðir. Það liggur fyrir og er öllum ljóst að þeir samningar hafa ekki tekist. Með röksemdafærslu þeirra þingmanna Sjáflstfl., sem þessu hafa haldið fram hér í umræðunni, hefur Sjálfstfl. því ekki heimild til að ganga frá þessum samningi því hann uppfyllir ekki þau lágmarksskilyrði sem flokkurinn setti fram í kosningabaráttunni.
    Það má halda áfram og spyrja stjórnarliða hvort þeir hafi umboð til ýmissa verka sem þeir eru að standa að nú um þessar mundir bæði í Alþfl. og Sjálfstfl. Hafa þessir flokkar t.d. núna umboð til þess að hækka vexti á lánum í félagslega eignaríbúðakerfinu um 140% eins og áform eru um að gera í dag eftir u.þ.b. klukkutíma eða svo með stuðningi fulltrúa þessara tveggja flokka? Lýstu þeir því yfir í kosningabaráttunni að þeir mundu hækka vexti á félagslegum eignaríbúðum um 140%? Ég hef lesið í gegnum kosningayfirlýsingar og landsfundasamþykktir þessara tveggja flokka frá því í vor og það er víðs fjarri því að einhverjar yfirlýsingar séu um það. En þetta er engu að síður hlutur sem á að hrinda í framkvæmd nú í dag. Og með þeim rökum sem stjórnarþingmenn sjálfir hafa lagt upp með í þessari umræðu þá hafa þeir ekki umboð til þess.
    Menn verða að gæta að því hvaða málflutning þeir hafa uppi. Því það kostar það að samræmi verður að vera í því sem menn segja í einu málinu og því sem þeir gera í öðru. Það verður þá að vera í samræmi við þær yfirlýsingar sem menn gáfu kjósendum á sínum tíma, þá stefnu sem þeir reiddu fram. Er það t.d. svo að Sjálfstf. telji sig hafa umboð til að skera niður svo um munar fjárveitingar til Landhelgisgæslu Íslands? Hvað skyldi flokkurinn hafa sagt við kjósendur fyrir kosningar? Það er auðvelt að fletta því upp hér í landsfundarsamþykktunum. Þar er því þvert á móti lýst yfir að flokkurinn muni auka fjárveitingar til Landhelgisgæslu Íslands. Hvað er flokkurinn að gera nú? Hann er svíkja kjósendur. Hann segir eitt og gerir annað í hverju málinu á fætur öðru. Það er kannski ekki út í bláinn að hæstv. utanrrh. lýsti þessum flokki þannig í Morgunblaðinu sjálfu þann 29. mars 1987 með þessum orðum í heilsíðuauglýsingu, með leyfi forseta:
    ,,Í eitruðu andrúmslofti spilltra stjórnmála þurfum við á sterku afli að halda í stað þess Sjálfstfl. sem nú gengur fram í tvennu lagi og hefur afhjúpað ásýnd hins tvöfalda siðgæðis.``
    Þetta er dómur hæstv. utanrrh. á Sjálfstfl., tvöfalt siðgæði. Og það er nú ekki svo að traustið sé yfirþyrmandi á báða bóga. Menn muna enn skrif hv. 3. þm. Reykv. um hæstv. utanrrh. Þau voru ekki fögur.
    En ég vildi, virðulegur forseti, af því að ég sé að tíma mínum er að ljúka, geta þess að hæstv. utanrrh. vék að kröfunni um þjóðaratkvæði í framsöguræðu sinni um frv. um Evrópska efnahagssvæðið og hafði þar heldur háðuleg orð um þá kröfu að vísa málinu til þjóðarinnar og um þá menn sem legðu fram slíka kröfu. Ég vitnaði í þeirri umræðu til skoðana hans sjálfs á sínum tíma, árið 1969, um að hann væri fylgjandi þjóðaratkvæðagreiðslu um inngöngu Íslands í EFTA. Hæstv. utanrrh. svaraði fáu til en sagði: Ég mun ræða þetta mál þegar við ræðum þáltill. um þjóðaratkvæðagreiðslu. Hvar er hæstv. utanrrh. nú? Hví hleypur hann úr salnum? Hví hefur hann ekki talað hér til að gera grein fyrir skoðunum sínum, sinnaskiptum sínum? Það er þýðingarmikið svo mönnum sé a.m.k. betur ljóst hvort Alþfl. er trúverðugur í þessu máli eða ekki að formaðurinn geri grein fyrir þeirri kúvendingu sinni að vera fylgjandi þjóðaratkvæðagreiðslu um EFTA með þeim rökum að það væri stærsta málið sem borið hefur inn í sali Alþingis á þeim tíma og þjóðinni mikilvægt og halda því fram með réttu að samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið sé stærsta og viðamesta og áhrifaríkasta málið sem hingað hefur komið en segja nú: Enga þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég lýsi eftir málsvörn hæstv. utanrrh., virðulegi forseti. Og ég legg ríka áherslu á að ráðherrann manni sig upp í að koma og skýra þingheimi og þjóð frá því hvers vegna hann treystir ekki þjóðinni nú eins og hann treysti henni árið 1969.