Þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu

23. fundur
Fimmtudaginn 17. september 1992, kl. 15:09:02 (923)

     Einar K. Guðfinnsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég er farinn að þekkja hv. 2. þm. Vestf. og veit að það er hans háttur þegar hann er kominn út í horn og á erfitt með að svara að þá brýnir hann raustina eins og hann ímyndi sér að með því að kalla nógu hátt geti hann látið fenna yfir erfiðleika sína við það að finna orðum sínum stað.
    Sannleikurinn er sá og það hefur margoft komið fram og er ekki neitt prívatsjónarmið mitt, það er það sjónarmið sem m.a. kom fram í máli hæstv. sjútvrh., Þorsteins Pálssonar, þáv. formanns Sjálfstfl., að við lögðum áherslu á tvennt í senn. Við lögðum áherslu á það að vinna að tvíhliða samningum við Evrópubandalagið um lækkun tolla. En jafnframt var því ævinlega lýst yfir, og ég veit að hv. 2. þm. Vestf. veit þetta mætavel, að það væri okkar sjónarmið að Íslendingum væri mjög mikilvægt að tengjast þessari efnahagssamvinnu nýrrar Evrópu sem nú hefur litið dagsins ljós í samningnum um hið Evrópska efnahagssvæði. Um þetta þarf ekkert frekar að deila. Það er augljóst mál sem allir vita sem þekkja þessa sögu.