Kjaradómur

23. fundur
Fimmtudaginn 17. september 1992, kl. 17:24:44 (951)

     Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég verð aðeins að koma hér upp vegna þess að það var kvartað undan því að nefndarálit meiri hlutans væri fullstuttaralegt. Það eru svo sem ágætar fyrirmyndir fyrir slíkum nefndarálitum. Mér hlýnar um hjartarætur yfir því hversu vel hv. þm. fylgist með störfum ríkisstjórnarinnar og því sem þar gerist. Þetta mál er í sjálfu sér ekkert flókið og það kom ágætlega fram í ræðu hv. þm. að þjóðfélagið hefði farið á annan endann ef ekki hefði verið gripið þarna allsnarplega inn í. Það var gert því Kjaradómur kvað upp úrskurð 26. júní og það er síðan 3. júlí sem bráðabirgðalögin eru sett. Til marks um það hversu brýn nauðsynin var er helsta umkvörtunarefni hv. þm. það að hafa ekki fengið að hjálpa hæstv. ríkisstjórn við að koma þessu í gegnum þingið. Það sýnir nú að nauðsynin var virkilega brýn. Venjulega er hv. þm. ekki á þeim buxunum að vilja hjálpa ríkisstjórninni við að leysa málin.