Álit EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um EES

23. fundur
Fimmtudaginn 17. september 1992, kl. 20:50:52 (982)

     Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um öflun álits EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um Evrópska efnahagssvæðið. Frv. er til komið vegna ákvæða í 34. gr. samnings EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls. Er þar kveðið á um lögsögu EFTA-dómstólsins til að gefa ráðgefandi álit um túlkun á EES-samningnum. Segir þar að ef álitaefni koma upp í þessu sambandi fyrir dómstóli í EFTA-ríki geti sá dómstóll, ef hann álítur það nauðsynlegt til að geta kveðið upp dóm, leitað eftir slíku áliti hjá EFTA-dómstólnum. Er EFTA-ríkjunum veitt heimild til að takmarka þennan rétt dómstóla sinna við þá dómstóla sem kveða upp úrlausnir sem sæta ekki málskoti samkvæmt landslögum viðkomandi ríkis.
    Álitaefni sem varða EES-samninginn geta komið upp, hvort heldur er við rekstur einkamáls eða opinbers máls og þau geta komið upp fyrir héraðsdómi og Hæstarétti eða sérdómstólum, svo sem Félagsdómi eða siglingadómi.
    Af lagatæknilegum ástæðum hefur sú leið verið farin að kveða á um þetta efni í einu lagi í stað þess að leggja til breytingar á margvíslegri réttarfarslöggjöf þar sem það á við. Frv. tekur því til meðferðar hvers konar mála þar sem álitaefni geta komið upp varðandi túlkun á EES-samningnum.
    Með frv. er gert ráð fyrir því að heimild þessi nái bæði til héraðsdómstóla og Hæstaréttar auk sérdómstóla samkvæmt nánari reglum sem lýst er. Er heimildin því ekki takmörkuð við Hæstarétt einan svo sem samningurinn heimilar og er það gert í ljósi þess að eftir almennum réttarfarsreglum á að leitast við að leysa mál á grundvelli sömu gagna og röksemda fyrir báðum dómstigum en á því yrði brestur ef fyrst væri unnt að leita álits EFTA-dómstólsins undir rekstri máls fyrir Hæstarétti.
    Svo sem fram kemur í 1. gr. frv. og 34. gr. samningsins er álit það sem EFTA-dómstóllinn gefur einungis ráðgefandi. Álit EFTA-dómstólsins bindur ekki dómara við úrlausn máls, þótt telja verði að eftir því verði að öðru jöfnu farið að því leyti sem úrlausnin veltur á álitinu.
    Rétt er að taka fram að ákvæðin kveða á um heimild dómstólsins til að leita álits en ekki skyldur.
    Frú forseti. Ég tel ekki efni til að gera frekari grein fyrir efni frv. sem hér er til umfjöllunar og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. allshn.