Upplýsingamiðlun og aðgangur að upplýsingum um umhverfismál

24. fundur
Föstudaginn 18. september 1992, kl. 17:47:13 (1072)

     Umhverfisráðherra (Eiður Guðnason) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég þakkaði báðum hv. þm. áðan fyrir jákvæðar undirtektir við frv. en tók jafnframt fram að mér fannst þess gæta nokkuð almennt í ræðum þeirra hversu andsnúin þau eru málinu almennt sem þetta tengist, þ.e. samningnum um hið Evrópska efnahagssvæði. Það var það sem ég sagði og ekkert annað og það er ekki hægt að skilja á neinn annan veg. En ég ítreka þakkir fyrir jákvæðar undirtektir við frv. sem hér liggur fyrir.
    Mér finnst, virðulegi forseti, að í orðum hv. þm.

Kristínar Einarsdóttur varðandi alþjóðareglur og umhverfismál gæti nokkurs grundvallarmisskilnings. Það getur hver þjóð sett sér svo strangar reglur sem hún kýs. En þær eru marklausar, gagnslausar og ónýtar ef ekki kemur til samstarf þjóðanna vegna þess að mengun virðir ekki landamæri. Það er svo margsagt og svo dagljóst að við erum að tala út frá öðrum forsendum. Við getum sett okkur ströngustu reglur í veröldinni hér á Íslandi en það mun halda áfram að berast hingað mengun frá meginlöndum Ameríku og Evrópu ef ekki kemur til samstarf þjóðanna þar sem þær í sumu hljóta að láta af sínum ýtrustu kröfum og taka saman höndum um að vinna bug á þeim vandamálum sem við er að etja. Þess vegna voru þau orð sem hv. þm. Björn Bjarnason vitnaði hér til áðan úr frv. til breytinga á stjórnarskipunarlögum. Þau orð eru auðvitað alveg rétt. Þetta er rétt mat á málinu. Þegar verið er að tala um sjálfsákvörðunarrétt, þá er hann einfaldlega ekki fyrir hendi í þeim mæli sem menn vilja vera láta.
    Ég hlýt, virðulegi forseti, að andmæla þeim orðum hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar varðandi fyrirhugað álver á Keilisnesi. Þar verða gerðar og eru gerðar mjög strangar kröfur um mengunarvarnir í samræmi við það besta sem annars staðar er og þar mun fara fram einhver ítarlegasta úttekt á umhverfismálum áður en starfsemin hefst.