Frumvarp um Lánasjóð íslenskra námsmanna

24. fundur
Föstudaginn 18. september 1992, kl. 17:56:58 (1077)

     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Síðasta mál á dagskrá þessa langa fundar er frv. til laga um breytingu á lögum um Lánasjóð ísl. námsmanna. Það var fyrsta þingmannafrumvarpið sem lagt var fyrir það þing sem nú hefur staðið í nokkrar vikur. Það er sett aftast á þessa dagskrá í dag vegna þess að það er bersýnilega ekki mikill áhugi á að ræða það mál og bersýnilega enginn tími til þess eins og sakir standa og ég harma það mjög.
    Það er stundum sagt, virðulegi forseti, að Alþingi Íslendinga sé fjarri veruleikanum úti í þjóðfélaginu. Þessa dagana eru námsmönnum og fjölskyldum þeirra að berast útreikningar á tekjugrunni vegna námsársins 1992--1993. Þetta fólk stendur núna frammi fyrir þeim staðreyndum að þurfa að skera niður sinn framfærslueyri mjög verulega frá því sem verið hefur eða hætta námi ella. Það hafa mjög margir kosið að hætta námi. Samkvæmt tölvuútskrift frá Lánasjóði ísl. námsmanna yfir nemendur í Háskóla Íslands er staðan sú að það hefur orðið 30% fækkun í hópi þeirra námsmanna sem eru með börn á framfæri og stundað hafa nám. Þeir eru 30% færri. Þegar um er að ræða námsmenn sem eru í hjúskap, þá eru þeir 24% færri í ár en þeir voru í fyrra, nærri fjórðungi færri. Hvað segir þetta? Þetta segir það að búið er að brjóta niður jöfnunarhlutverk Lánasjóðs ísl. námsmanna, brjóta það á bak aftur í raun og veru.
    Formaður þingflokks Alþfl. sagði í vor, þegar frv. var afgreitt á sínum tíma þann 16. maí, að Alþfl. mundi beita sér fyrir breytingum á frv. Það hefur ekki verið gert. Það hefur verið svikið og það hefði auðvitað verið ástæða til að ræða þetta. Það er til vansa fyrir Alþingi að hafa ekki náð að ræða þetta mál á þeim vikum sem liðnar eru frá því að það kom saman miðsumars. Auk þess er það svo að þegar málið á að taka fyrir hleypur menntmrh. í burtu aftur og aftur þegar mál af þessu tagi á að ræða. Þetta er til vansa. Þetta er til að undirstrika það einu sinni enn að Alþingi er langt frá hinum lifandi veruleika með íslensku þjóðinni. Þess vegna óska ég eftir því, virðulegi forseti, að við ofbjóðum ekki námsmönnum og fjölskyldum þeirra enn með þeim hætti að taka málið fyrir við þær aðstæður sem nú eru og óska eftir því fyrir mína hönd og annarra flutningsmanna að málið verði við þessar aðstæður tekið út af dagskrá en það verði tekið fyrir strax og þing kemur saman að nýju.