Frumvarp um Lánasjóð íslenskra námsmanna

24. fundur
Föstudaginn 18. september 1992, kl. 18:04:31 (1081)

     Björn Bjarnason :
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að ræða efnisþætti þessa máls enda snertir það ekki gæslu þingskapa. Hins vegar vil ég ekki láta hjá líða að það komi fram að það lá fyrir að hæstv. menntmrh. yrði ekki við hér í dag og það hefur legið fyrir alla þessa viku á fundum með formönnum þingflokkanna og það var beðið eftir því að hv. flm. kæmi til landsins. Þannig blasti málið við mér og ég gegndi stöðu sem formaður þingflokks Sjálfstfl. og ég sit ekki undir því að nú sé allt í einu komið upp og sagt að menntmrh. hafi hlaupist undan merkjum þegar hv. flm. hefur sjálfur verið fjarverandi og ekki getað sinnt þingstörfum vegna þess að hann var að sinna skyldustörfum sem alþingismaður erlendis. Ekki er hægt að kenna það við menntmrh. að þetta mál var ekki tekið hér fyrir.