Mat á umhverfisáhrifum

24. fundur
Föstudaginn 18. september 1992, kl. 18:30:29 (1085)

     Kristín Einarsdóttir :
    Virðulegur forseti. Við erum að ræða mjög mikilvæg mál á síðustu tímum þessa fundar þegar búinn er að vera hér fundur frá því klukkan hálfellefu í morgun og enn lengur er maður búinn að vera að vinna hér í þinginu. Það er mjög slæmt að ræða svona mikilvægan málaflokk við þessar aðstæður. En ekki ætla ég að verða til þess að tefja það að þetta mál geti farið til nefndar en ætla þó að taka nokkur atriði fyrir. Ég á sæti í umhvn. og mun geta fjallað um þetta mál á vettvangi þeirrar nefndar.
    Ég vil fyrst taka fram, virðulegi forseti, að ég tel mjög jákvætt og raunar nauðsynlegt að fram fari umhverfismat í flestum ef ekki öllum tilvikum þegar um er að ræða þau mannvirki sem hér er rætt um og reyndar í mörgum fleiri tilvikum væri það nauðsynlegt. Að því leyti til tel ég það mjög jákvætt enda hefur farið fram umhverfismat, eins og hæstv. ráðherra gerði grein fyrir í framsögu sinni, í sambandi við ýmis mannvirki. Það getur að mínu mati aldrei orðið annað en til góðs. Ég er sammála hæstv. ráðherra um það og tel raunar nokkuð ljóst að þegar upp er staðið muni það verða ódýrara fyrir alla að gerð sé vönduð úttekt á umhverfismálum áður en framkvæmdir hefjast. Það vil ég leggja áherslu á í upphafi máls míns.
    Það eru nokkur atriði sem ég vil spyrja um og gera að umtalsefni. Ég vil reyna að fara hratt yfir sögu með tillit til tímans. Í 4. gr. hnaut ég um atriði og heyrði ekki hvað ráðherrann sagði um það en þar er tekið fram að lög þessi skuli taka til allra framkvæmda sem kunna að hafa umtalsverð áhrif. Auðvitað er mjög erfitt að setja ákveðnar reglur um þetta en umtalsverð áhrif á umhverfi geta verið mjög mismunandi og erfitt að meta. Ég get raunverulega séð fyrir mér að hvert einasta atriði, hver einasta bygging eða hvaða framkvæmdir sem um er að ræða muni geta talist hafa umtalsverð áhrif. Ég hefði því gjarnan viljað fá aðeins nánari útlistun á þessu þó að ég taki fram að það geti vel verið að það megi bíða betri tíma.
    Ég vil fyrst og fremst spyrja ráðherrann um 5. gr. Þar er talað um að framkvæmdir í þágu varnarmála eigi að vera undanþegnar þessum lögum. Þetta finnst mér mjög sérkennilegt og spyr raunar af hverju þetta er sett þarna fram. Er ekki óeðlilegt að einhverjar framkvæmdir skuli undanþegnar ákvæðum þessara laga? Ég vil minna á að mjög mikil mengun hefur stafað af hernum á Miðnesheiði. Það er bæði grunnvatnsmengun og önnur mengun sem komið hefur í ljós að stafar af framkvæmdum þar og veru þessa hers hér á landi í gegnum árin. Ég átta mig því alls ekki á því hvers vegna þetta ákvæði er þarna inni í frv. og legg til að það verði fellt út. Ég tel að allar framkvæmdir ættu að falla undir þessi lög.
    6. gr. vefst dálítið mikið fyrir mér. Það var kannski fyrst þar sem ég fór að hnjóta um atriði. Þar kemur fram að framkvæmt skuli umhverfismat vegna annarra framkvæmda sem taldar eru upp í fskj. I með lögum þessum. Ég átta mig alls ekki á því hvernig í ósköpunum er hægt að hafa fylgiskjal með lögum. Ég hélt að það sem prentað væri í lögum yrði að vera í lögunum sjálfum en það væri ekki hægt að hafa fylgiskjöl með lögum. Þetta getur verið misskilningur af minni hálfu en ég hef aldrei séð það gert. Síðan fann ég þetta fylgiskjal sem hér er prentað á bls. 5 og mér skildist að það væri það sem væri vísað til. Það vafðist nokkuð fyrir mér að átta mig á því hvernig þetta yrði sett inn í lög. Ég fór þá að leita að þessari tilskipun sem þarna er enn þá vísað í, tilskipun 85/337/EBE í XX. viðauka, og ég fann hann hvergi nokkurs staðar í þessum viðauka XX þegar ég ætlaði að bera saman og kanna tengingu á milli þessarar tilskipunar og lagafrv. Ég lenti í hálfgerðum vandræðum við að lesa þetta með tilliti til þess. Ég fann heldur ekki þessa tilskipun í viðauka XX sem við þingmenn höfum fengið á borð okkar, e.t.v. er hún aðgengileg einhvers staðar í ráðuneytinu, það má vel vera. En það þýðir að þingmenn sem hér sitja geta ekki áttað sig nánar á því um hvað frv. fjallar vegna þess að þeir hafa þessa tilskipun ekki undir höndum, því miður, nema bara einn bút af henni, fylgiskjal sem er prentað með frv. Mér skilst að það eigi síðan að verða fylgiskjal með lögunum ef frv. verður að lögum á Alþingi. Nú átta ég mig ekki almennilega á hvernig það verður framkvæmt, þ.e. að við samþykkjum eitthvað sem er bara fylgiskjal. En það er önnur saga og kannski

tæknilegt atriði. Þetta kom mér mjög á óvart og ég áttaði mig alls ekki á hvað þarna væri um að ræða.
    Síðan er það 7. gr. en hún hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Umhverfisráðherra er heimilt að ákveða að tiltekin framkvæmd eða framkvæmdir, sem líklegt er að hafi í för með sér veruleg áhrif á umhverfi, náttúruauðlindir og samfélag, en ekki er getið í 6. gr., verði háðar umhverfismati samkvæmt lögum þessum.``
    Ég velti því fyrir mér hvort það er ekki óþarfi að hafa 6. gr. ef hvort sem er er búið að setja inn heimild fyrir ráðherra til að taka hvaða framkvæmd sem væri þarna undir. Ég átta mig ekki á því hvers vegna þetta þarf að vera þarna. Er ekki alveg hægt að setja ný lög ef það mat kemur fram að setja þarf fleiri atriði þarna undir. Ég er út af fyrir sig ekki að finna að því að fleiri framkvæmdir falli undir þetta en lagatæknilega séð finnst mér svolítið sérkennilegt að tína fyrst upp og síðan komi önnur grein sem raunverulega heimilar ráðherra að setja þetta allt inn.
    Þá er það 8. gr. Það kom mér nokkuð á óvart að skipulagsstjóri ríkisins ætti að stjórna framkvæmd umhverfismatsins. Ég velti því fyrir mér hvort það væri í samræmi við lög og venjur í nágrannalöndunum og þá væntanlega í EB- og EFTA-löndum ef ráðherrann hefur upplýsingar um það. Þetta kom mér kannski ekki síst á óvart ef maður les þetta saman við 9. gr. þar sem tekið er sérstaklega fram að í umhverfismati skuli ,,tilgreina, meta og lýsa á viðhlítandi hátt áhrifum, sem framkvæmdir kunna að hafa á menn, dýr, plöntur og aðra þætti lífríkis, jarðveg, vatn, loft, veðurfar, landslag og samverkan þessara þátta.``
    Ég átta mig ekki á því hvernig skipulagsstjóri ríkisins getur séð um þessa framkvæmd því það hlýtur að vera meiningin að hann sé fyrsti aðili og sjái um að dreifa þessum verkefnum. Ég átta mig ekki alveg á því hvernig hann á að geta framkvæmt þetta umhverfismat með því sem ég hélt að væri hans verksvið nú, og það er ekki á þessum sviðum sem 9. gr. tilgreinir.
    Það kom fram í máli hæstv. ráðherra og er auðvitað öllum hv. þm. kunnugt að Náttúruverndarráð hefur, eins og málum er háttað nú, ákveðinn þátt varðandi mannvirki og mannvirkjagerð. Í núgildandi lögum er skylt að virkjanir, verksmiðjur og stór mannvirki séu hönnuð í samráði við Náttúruverndarráð, eins og ráðherrann gat um hér áðan. Náttúruverndarráð hefur því ákveðið hlutverk í þessu sambandi. Ég átta mig ekki á samspilinu þarna á milli, hvort það er ætlunin að Náttúruverndarráð sé einungis umsagnaraðili eins og ætla má af frv. eða hvort Náttúruverndarráð verður áfram með hluta af þessu, þ.e. að hönnunin verði í samráði við Náttúruverndarráð. Ég átta mig ekki alveg á samspilinu þarna á milli.
    Ég ætla að fara fljótt yfir sögu þar sem athugasemdir mínar geta kannski beðið seinni tíma og ég get athugað þær í nefndinni. Það sem ég vil gera athugasemdir við er 12. gr., þ.e. varðandi kostnað við gerð umhverfismats. Mér þykir mjög eðlilegt að sá sem óskar eftir að matið sé gert greiði kostnaðinn en ég sé fyrir mér að það væri kannski eðlilegt og kannski framkvæmdaratriði að þegar búið er að biðja um svona kostnaðarmat og menn eru að huga að einhverjum ákveðnum mannvirkjum eða byggingu geti það komið inn í mat þeirra á því hvort af framkvæmdum verði hversu dýrt umhverfismatið geti orðið. Þá finnst mér að þarna sé ekki ákvæði um að sá sem biður um umhverfismatið eigi rétt á að um kostnaðaráætlun sé að ræða þannig að hann viti nokkurn veginn hversu dýrt kostnaðarmatið verði. Þarna virkar það þannig að skipulagsstjóri getur, eins og þarna stendur og mér þykir eðlilegt, krafist tryggingar fyrir greiðslu kostnaðar sem ég tel að sé eðlilegt. En mér finnst einhvern veginn sem réttur hins aðilans sé ákaflega rýr.
    Þetta vildi ég nú sagt hafa við fyrstu sýn. Það er ákaflega fljótt yfir sögu farið og ég vil ítreka það sem ég sagði í upphafi að ég tel að frv. sé mjög jákvætt þó að ýmis atriði þurfi að athuga örlítið nánar varðandi framkvæmdina, þ.e. hvernig umhverfismatið muni eiga að útfæra.
    Að lokum langar mig til að minnast á 18. gr., þ.e. að lögin öðlist gildi um leið og samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði. Það er sjálfsagt að við setjum í lög ýmislegt gott sem hefur verið gert erlendis eins og þetta atriði. Ég vitna enn til þess sem stendur í athugasemdum með frv. og ráðherrann minntist á að ríkisstjórnin hefur þetta á sinni stefnuskrá. Þess vegna sé ég ekki ástæðuna fyrir því að við þurfum endilega að binda okkur við að þessi lög öðlist gildi um leið og samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði heldur óháð því hvort hann verður að lögum eða ekki.