Eftirlit með framleiðslu á fóðurvörum

26. fundur
Miðvikudaginn 07. október 1992, kl. 14:04:31 (1119)

     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Við höfum áður átt orðastað um samninginn um hið Evrópska efnahagssvæði, ég og hv. 2. þm. Suðurl., og mig minnir að síðast þegar við töluðum um þennan samning hafi hv. þingmanni verið það kunnugt að landbúnaðarþættirnir voru inni í þessari samningsgerð frá byrjun. Ég held að það sé hægt að fletta upp þingtíðindum frá sl. ári og sjá það grannt að orðaskipti okkar snerust þá um stöðuna eins og hún var við stjórnarskiptin í fyrra. Hv. þingmanni er fullkunnugt að ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar kaus að láta landbúnaðarþáttinn sig engu skipta, dró íslensku samninganefndina út úr þeim þætti samningamálanna og það er kunnugt, bæði mér og forustumönnum bænda, jafnt í Búnaðarsambandi, Búnaðarfélaginu sem í Stéttarsambandi bænda að það var nauðsynlegt að koma fram miklum breytingum fyrir hagsmuni íslenskrar bændastéttar, bæði gagnvart mjólkurframleiðendum og garðyrkjubændum. Þetta á hv. þingmanni að vera fullkunngt. Þetta er margrakið hér í þinginu. Ég hélt að þetta litla frv. sem ég er að flytja gæfi ekki tilefni til að vekja þær umræður upp á nýjan leik.
    Það er líka kunnugt --- ég hef rakið það hér --- að ég skrifaði utanrrn. bréf fyrir rúmu ári síðan þar sem ég fór fram á nauðsynlegar leiðréttingar á þeim kafla samningsins sem lýtur að mjólkurvörum og grænmeti. Mér er það mikil ánægja að skýra frá því að ég hitti landbúnaðarráðherra Þýskalands, Kiechle, á þessu ári og þakkaði honum og starfsmönnum hans þann mikla stuðning sem þeir veittu okkur Íslendingum á síðustu stigum málsins til að ná fram þeim hagsmunum sem við töldum brýnasta í sambandi við einmitt þennan þátt mála. Hin mikla vinátta landbrh. Þýskalands í garð okkar Íslendinga hefur raunar komið fram oftar og víðar eins og hv. þingmanni er kunnugt og kemur auðvitað engum á óvart. Það er því ekki rétt að ekki hafi verið talað um að landbúnaðarþátturinn kæmi inn í samninginn um hið Evrópska efnahagssvæði frá byrjun. Það er ekki rétt.
    Ef ég tek mjólkurvörurnar fyrst þá er vitaskuld ekki gert ráð fyrir því að innflutningur almennt á unnum mjólkurvörum verði gefinn frjáls. Hins vegar hefur jógúrt með bætiefnum verið á frílista hér alllengi. Ég held að menn geri sér ekki almennilega ljóst af hvaða sökum jógúrtin komst inn á frílistann. Það hefur ekki reynt á innflutning á þeirri fæðutegund hér. Ef við tölum hins vegar um garðyrkjuna, hvort sem við tölum um grænmeti eða blóm, þá er gert ráð fyrir því að innflutningurinn verði með svipuðu sniði og nú er.
    Ég beitti mér fyrir því að samtök garðyrkjubænda hefðu beint samband við íslensku samninganefndarmennina í utanrrn. til þess að fara yfir dagsetningar í sambandi við það hvenær rétt væri að leyfa innflutning á blómum og grænmeti. Mér er ánægja að endurtaka það nú að þar var í höfuðdráttum farið eftir óskum grænmetisbænda.
    Ég held að það sé líka nauðsynlegt að ég rifji það upp að á sl. ári bað ég Markús Möller hagfræðing að gera úttekt á ylræktinni sem atvinnugrein. Hann þurfti að hverfa frá til annarra starfa nú á þessu ári en er kominn heim og mun ljúka sinni greinargerð og ég vil með öllum öðrum hætti sem mér er unnt reyna að greiða fyrir því að hægt verði að lækka framleiðslukostnað á grænmeti og blómum og hef m.a. haft samband við Orkustofnun af því tilefni og átt fund með hæstv. iðnrh. um þau málefni.
    Ég held að við verðum að gera okkur grein fyrir því að hvað sem líður innflutningi eða ekki innflutningi á þessum tegundum matvæla þá hljóta bændur ekki síður en neytendur og kannski miklu fremur en neytendur leggja á það ríka áherslu að þeim megi takast að lækka framleiðslukostnaðinn því að vitaskuld á þessi tegund matvæla í samkeppni við önnur matvæli og vitaskuld er grænmetisbændum það jafnljóst og öðrum framleiðendum íslenskum að til langframa geta þeir ekki búist við því að halda óbreyttu verði ef það er í hróplegu ósamræmi við það sem er í löndunum í kringum okkur.
    Hitt er aftur rétt og ástæða líka til að taka það skýrt fram að það gerir samanburð við önnur lönd erfiðan í sambandi við verð að þau njóta mikilla ríkisstyrkja. Greinar eins og grænmetis- og blómarækt njóta ríkisstyrkja víða erlendis sem ekki er tilfellið hér á landi. Nauðsynlegt er að þetta komi fram.
    Þetta frv. sem hér liggur fyrir er minni háttar mál og varðar ekki samninginn um Evrópska efnahagssvæðið í heild. Ég hef ekki séð skýrslu þá sem hv. þm. vitnaði til um það að samningurinn um hið Evrópska efnahagssvæði mundi valda því að fækkaði um 150--200 störf í nokkrum hreppum fyrir austan fjall vegna þeirra samninga. Ef þetta er tilfellið þá liggur við að mig langi til að spyrja hv. þm. og aðra þá sem vilja verja hagsmuni landbúnaðarins: Hvers vegna í ósköpunum voru þeir svona þöglir um þennan þátt samningsins um hið Evrópska efnahagssvæði fyrir síðustu alþingiskosningar? Ég veit ekki hvort hv. þm. man eftir því að það var gert ráð fyrir að skrifa undir samninginn um hið Evrópska efnahagssvæði í júnílok á sl. ári en kosningarnar voru í apríllok. Það var aðeins tveggja mánaða frestur til undirskriftar. Samningurinn var með öðrum orðum fullfrágenginn í öllum aðalatriðum og þau ákvæði sem vörðuðu íslenskan landbúnað voru í öllum greinum miklu verri en ákvæðin eins og þau líta út núna. Þess vegna brennur sú spurning á vörum mínum: Hvers vegna þagði hv. þm. um þennan alvarlega þátt málsins fyrir síðustu kosningar og hvers vegna studdi hann af alefli þá stefnu í landbúnaðarmálum og utanríkismálum og samningsgerð við Evrópska efnahagssvæðið fyrir kosningar eins og raun ber vitni?
    Ég held að sannleikurinn sé sá að hér er mikið ofsagt. Það er alls ekki um það að ræða að bændum fækki í neinum tölum eins og hér er talað um vegna samningsins um hið Evrópska efnahagssvæði en hitt er ljóst og það veit hv. þm. jafn vel og ég að sú ákvörðun að hætta að flytja út dilkakjöt á ábyrgð ríkissjóðs og hætta að flytja út unnar mjólkurvörur með ríkisstyrk hefur auðvitað þau áhrif að búskapur mun dragast saman í sveitum og eins og ég sagði m.a. á aðalfundi Stéttarsambands bænda þá er óhjákvæmilegt vegna hins mikla samdráttar í sauðfjárframleiðslu að ýmsir bændur verði að ganga af sínum jörðum. Hins vegar mun beingreiðslan og það kerfi sem nú er upp tekið auðvelda þeim að fá verð fyrir framleiðslurétt sinn til þess að þeir eigi hægara með að ná fótfestu annars staðar. Það er auðvitað erfiðleikum undirorpið eins og atvinnuástandið er núna að fá vinnu annars staðar en eins og sakir standa er það erfiðasta og alvarlegasta atvinnumál bænda nú hvernig sauðfjárbændur munu snúast við þeim nýju viðhorfum sem um var samið í samningnum um búvöruframleiðsluna.
    Í síðustu viku áttum við þingmenn Norðurl. e. fund með búnaðarráðunaut þeirra í Norður-Þingeyjarsýslu. Þar er talað um að flöt skerðing verði um 22% hjá sauðfjárbændum þannig að við sjáum að um mjög alvarlegan hlut er að ræða og miklu alvarlegri en hér er verið að tala um. Þetta held ég að bændum sé öllum fullkunnugt.
    Ég mun á hinn bóginn gera ráðstafanir til þess að fá þær skýrslur sem hv. þm. gat um og skal ekki fjalla efnislega um innihald þeirra fyrr en mér hefur gefist kostur á að kynna mér þær.
    Eins og hv. þm. er kunnugt er innflutningur á fóðurvörum frjáls. Á hinn bóginn er það svo að sérstakt gjald er lagt á innflutt fóður, kallað fóðurgjald --- grunngjald, sem er áætlað að gefa ríkissjóði 55 millj. kr. í tekjur á næsta ári samkvæmt því fjárlagafrv. sem nú liggur fyrir þinginu sem er svipuð fjárhæð og á þessu ári eins og stendur í athugasemdum og skal ég ekki rengja það. Mig hafði að vísu minnt að það væri heldur hærra á þessu ári.
    Ég hef tekið ákvörðun um að sérstök athugun verði gerð á því hvernig rétt sé að halda á fóðurmálunum í heild sinni nú á þessu hausti og mun að sjálfsögðu gera það í samráði við forustu bændasamtakanna. Innlendir fóðurframleiðendur starfa í skjóli þessarar skattlagningar sem auðvitað hefur þau áhrif að landbúnaðarvörur eru dýrari en ella þegar þær koma á borð neytenda.
    Um Áburðarverksmiðjuna er það að segja, sem ég hef áður sagt, að framleiðsla á áburði hefur dregist saman á undanförnum árum og alveg ljóst að ef sú þróun heldur áfram væri með öllu óréttlætanlegt að halda þeirri framleiðslu áfram vegna þess að hún er mun dýrari en sá áburður sem við getum fengið annars staðar frá. Ég mun á næstunni flytja frv. um að breyta Áburðarverksmiðjunni í hlutafélag. Síðan er það í samningnum um hið Evrópska efnahagssvæði að innflutningur á áburði verði gefinn frjáls ekki síðar en 1. jan. 1995.
    Á fundum með bændum, bæði með sauðfjárbændum sérstaklega og eins á fundi Stéttarsambands bænda, vöknuðu einmitt umræður um það hversu hátt áburðarverðið væri og það var skoðun þeirra bænda, sem ég átti samtal við, að nauðsynlegt væri að rýmka þar um til þess að lækka rekstrarkostnað landbúnaðarins. Auðvitað er frjáls innflutningur á áburði einn ríkasti þátturinn í þeim efnum.
    Áburðarverksmiðjan er sterkt og öflugt fyrirtæki. Það er ekkert sem bendir til þess að verslun og viðskipti með áburð geti ekki haldið áfram að vera í þeim húsakynnum sem Áburðarverksmiðjan ræður yfir. Það er mjög dýr fjárfesting og auðvitað miklir yfirburðir og mikið forskot sem Áburðarverksmiðjan hefur gagnvart öðrum innflutningsaðilum.
    Það væri náttúrlega einfalt að afnema fóðurgjaldið og gera áburðinn frjálsan þegar í stað. Ég hef á hinn bóginn ekki kosið að gera það heldur mun ég taka þau mál fyrir sérstaklega en það kemur ekki við þetta frv. sem nú er til umræðu.
    Hv. 6. þm. Norðurl. e. spurði hvort þetta frv., sem hér liggur fyrir, setti okkur stólinn fyrir dyrnar varðandi vernd okkar gegn óæskilegum aðskotahlutum og lagði áherslu á nauðsyn þess að við gætum tryggt ómengaða framleiðslu hér á landi. Nú er það svo að samkvæmt samningnum um hið Evrópska efnahagssvæði er það í höndum okkar Íslendinga sjálfra að heimila innflutning á kjötvörum þannig að við höfum það auðvitað algjörlega í hendi okkar þegar af þeim ástæðum hvaða reglur við setjum okkur um framleiðslu á þeim. Hér er einungis um það að ræða að við erum að lögfesta að hér skuli vera alþjóðlegir staðlar um gæði og efnasamsetningu fóðurblöndu og ég hef enga ástæðu til að ætla að við getum ekki gætt allrar þeirrar varkárni sem við viljum í þeim efnum og vil minna á að Vesturlönd eru einmitt þau lönd sem gera mestar kröfur til sjálfs sín varðandi þessa hluti.
    Ég vil hins vegar leggja á það ríka áherslu --- það var eins og það hefði farið fram hjá sumum þingmönnum --- að samningurinn um hið Evrópska efnahagssvæði fjallar um það að greiða fyrir viðskiptum milli Íslendinga og Evrópuþjóðanna. Við höfum talið okkur það hagkvæmt, auðvitað vegna þess að við eigum mikla atvinnuhagsmuni í húfi að okkur takist að brjóta niður tollamúra í þessum löndum, mikilvægustu markaðslöndum okkar, þannig að við fáum meira verðmæti fyrir framleiðsluvörur okkar en nú er. Það er þess vegna ekki undarlegt þó að hér sé gert ráð fyrir því að rýmka til.
    Hv. 6. þm. Vestf. spurðist sérstaklega fyrir um 5. gr. frv., hvort ekki væri gert ráð fyrir því að Rannsóknastofnun landbúnaðarins hefði eftir sem áður eftirlit með innflutningi á vörum, gæðaþætti þeirrar vöru sem krafist er hverju sinni og annaðist mælingar á gæðaþáttum innflutts varnings. Rannsóknastofnun landbúnaðarins mun áfram hafa það verk með höndum. Á hinn bóginn eru hér opnaðir möguleikar fyrir því að aðrir aðilar geti einnig komið inn í það eftirlit sem er talið mikilvægt vegna þess hversu hröð tækniþróun hefur verið. Ég vil að síðustu taka það fram að þetta eftirlit Rannsóknastofnunar landbúnaðarins hefur verið hert og það eru núna viðræður milli garðyrkjubænda og Rannsóknastofnunar landbúnaðarins um það hvernig megi koma því þannig fyrir að ekki verði einhver óhöpp í sambandi við innflutning á grænmeti á þeim tímum sem óhjákvæmilegt er að hafa innflutning vegna þess að innlenda framleiðslan annar ekki eftirspurn eins og er óhjákvæmilegt á sumum árstímum.