Friðhelgi og forréttindi alþjóðastofnana

26. fundur
Miðvikudaginn 07. október 1992, kl. 15:26:49 (1141)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) (andsvar) :
    Ég þakka virðulegum forseta. Ég get tekið undir það með hv. 1. þm. Norðurl. v. að víst sakna ég nafna míns, hæstv. utanrrh., a.m.k. jafnmikið og hann.
    En mér datt í hug þegar hann var að lýsa því hvað það væri hentugt, öruggt og tryggt að hafa góða menn í kringum ráðherrana til þess að segja þeim hvað þeir ættu að segja hvernig heimurinn gæti orðið enn þá betri ef það væru einhverjir góðir menn í kringum hv. 1. þm. Norðurl. v. til þess að segja honum hvað hann ætti að segja. Hann gleymdi að bæta því við sína góðu kenningu að þá yrði þingið alveg fullkomið.
    En að endingu, virðulegi forseti, þá vildi ég bara láta það koma alveg skýrt fram að hv. þm. heldur áfram fram þeirri firru sem þeir fóru með hér áðan, hv. 7. og hv. 8. þm. Reykn., að með þessu lagafrv. væri lagt til að auka reglugerðarvald ráðherra. Það er ekki gert.