Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana (útvarpsumr.)

29. fundur
Mánudaginn 12. október 1992, kl. 21:36:11 (1238)

     Gunnlaugur Stefánsson :
    Frú forseti. Góðir áheyrendur. Það krefst hvorki visku né hugrekkis í stjórnmálum að segja já við alla og fjármagna síðan já-in með nýjum lánum til viðbótar þeim gömlu. Slík stjórnarstefna leiðir að lokum til þjóðargjaldþrots. Nú er svo komið að fjórði hver fiskur sem dreginn er úr sjó fer í að standa undir skuldabyrði þjóðarinnar erlendis og stefnir í á næsta ári að það kosti tæpan þriðjung af útflutningsframleiðslunni. Á sama tíma minnka þjóðartekjur, atvinnuleysi eykst og lífskjörin eru fjármögnuð enn þá að hluta með erlendri lántöku.
    Allt frá árinu 1985 hefur ríkissjóður verið rekinn með halla, þ.e. útgjöldin hafa verið meiri en tekjurnar samfellt í sjö ár. Þetta er alvarlegt ástand, m.a. vegna þess að við erum verr í stakk búin til þess að takast á við þennan vanda miðað við það ef öll ytri skilyrði væru hagstæð. Hver hefði trúað því fyrir þremur árum að leyfilegur hámarksafli á þorski á yfirstandandi fiskveiðiári yrði aðeins 205 þús. tonn? Það er staðreynd sem við blasir og setur þjóðlífinu öllu þrengri skorður en ella.
    Oftar en ekki segjum við Íslendingar að þetta bjargist allt saman einhvern veginn, það hefur alltaf gert það. Slíkt viðhorf dugar ekki hér. Rétt er það að allt mun þetta bjargast í fyllingu tímans, ekki einhvern veginn heldur á grundvelli ábyrgðar og samstöðu. Ég fagna því yfirlýsingum nokkurra forustumanna stjórnarandstöðunnar um að láta af hefðbundinni stjórnarandstöðu en leita eftir samkomulagi við ríkisstjórnina um að hér megi nást víðtæk samstaða er leiði þjóðina úr yfirstandandi þrengingum.
    Þá hefur mikilvægt samkomulag náðst undir forustu Jóhönnu Sigurðardóttur félmrh. og forustumanna Sambands ísl. sveitarstjórna um átak til atvinnusköpunar sem um leið felur í sér sparnað í ríkisútgjöldum. Það er undravert að íslenskur sjávarútvegur skuli enn að mestu standast þær raunir sem aflasamdráttur hefur valdið undanfarin ár. Fyrrv. ríkisstjórn beitti sér fyrir mjög þýðingarmiklum ráðstöfunum, m.a. með stofnun Atvinnutryggingarsjóðs og Hlutafjársjóðs. Ljóst er að sjávarútvegurinn nýtur þeirra aðgerða og er þess vegna betur í stakk búinn til þess takast á við erfiðleikana en ella. Núv. ríkisstjórn hefur haldið þessu áfram og byggt að miklu leyti á þeim grunni sem fyrrv. ríkisstjórn lagði og enn frekar gripið til sérstakra ráðstafana. Þar á meðal vil ég nefna afnám laga frá árinu 1922 er bönnuðu erlendum fiskiskipum að landa afla sínum í íslenskum höfnum. Þessi ráðstöfun er þegar farin að hafa áhrif til atvinnusköpunar. Þegar ég heimsótti nýlega fiskvinnslufólk við störf á Bakkafirði, Vopnafirði og Seyðisfirði var þar einmitt verið að vinna við fisk sem landað hafði verið úr erlendum fiskiskipum. Umsagnir starfsfólksins um gæði fisksins vöktu athygli mína á að fiskur af íslenskum skipum væri miklu betri. Í þessu felst líklega einn dýrmætasti auður þjóðarinnar. Við stöndum framar flestum þjóðum í veiðum, vinnslu og meðferð sjávarfangs. Frekari fullvinnsla sjávarafurða hlýtur því að vera eitt stærsta viðfangsefnið til aukinnar sóknar og framfara í atvinnulífinu. Í þessu sambandi verður að huga sérstaklega að því að afli frystitogara geti komið til fullvinnslu í neytendapakkningar á landi. Ef slíkt tekst ekki, þá verður þeirri hámarksnýtingu ekki náð úr sjávaraflanum sem við verðum að stefna að, auk þess sem frekari flutningur vinnslu úr landi á haf út mun stefna búsetunni í dreifðum byggðum landsins í mikla hættu til viðbótar þeirri byggðaröskun sem nú þegar hefur orðið.
    Þá er afar mikilvægt að endurskoðun laga um fiskveiðistjórnunina megi ljúka sem fyrst. Kvótakerfið hefur ekki gagnast eins og væntingar stóðu til. Því hefur hvorki tekist að vernda fiskstofnana né koma af stað hagræðingu og draga úr offjárfestingum heldur hefur skuldsetning sjávarútvegsfyrirtækjanna aukist. Um allar breytingar verður að leita eftir sem víðtækastri samstöðu því miklir hagsmunir eru í húfi sem snerta sjálfan afkomugrundvöll þjóðarinnar.
    Mikilvægast af öllu nú er að tryggja atvinnu fyrir fólkið í landinu, tryggja búsetuna í byggðum landsins og jafna lífskjör. Aðgerðir á þessum sviðum eru samofnar ráðstöfunum í ríkisfjármálum. Ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að beita sér fyrir stórauknu átaki í vegagerð á næstu þremur árum er afar mikilvæg fyrir búsetuna í landinu og til atvinnueflingar. Traustari samgöngur eru forsenda þess að samvinna sveitarfélaga megi eflast og atvinnulíf styrkjast. Þá fagna ég þeirri ákvörðun ríkisstjórnarinnar að verja áfram með auknum niðurgreiðslum húshitunarkostnað á köldum svæðum landsbyggðarinnar gagnvart hækkun raforkuverðs eða skattkerfisbreytingum.
    Það krefst nærgætni og þekkingar á lífskjörum og aðstæðum fólks þegar málum er skipað á samdráttar- og þrengingarskeiði. Aldrei frekar en þá verða stjórnvöld að skilja að stjórnmál fjalla um fólk. Varast verður að fram sé gengið í ljósi öfga, hörku eða yfirgangs. Nú verða þeir, sem meiri efnin hafa, að axla stærri byrðar en þeir sem höllum fæti standa. Láglaunafólkið í landinu hefur umborið þjóðarsátt í nokkur ár með því að leggja til hliðar raunverulegar launahækkanir. Það hefur lagt sitt af mörkum. Ríkisstjórnin skuldar þessu fólki endurgjald þjóðarsáttar. Satt er það að verðbólgan er komin niður en vextirnir eru enn allt of háir og hvíla þungt á heimilum og atvinnulífi. En vextirnir lækka ekki á meðan ekki næst jöfnuður í ríkisfjármálum. Frekari niðurskurður á velferðarkerfinu á samdráttartímum getur valdið þjónustunni svo miklum skaða að erfitt reynist að bæta úr síðar og getur gengið svo nærri velferð fjölskyldunnar að mörg heimili verði félagslega og efnahagslega gjaldþrota. Því tel ég í ljósi allra aðstæðna að ríkisstjórnin verði að huga rækilega að því að auka tekjur ríkissjóðs tímabundið með því að þeir sem meiri efni hafa leggi meira af mörkum. Samkomulag stjórnarflokkanna um skattlagningu arðs af fjármagnstekjum er þýðingarmikil aðgerð til jöfnunar lífskjara og til tekjuöflunar fyrir ríkissjóð. Þá er mikilvægt að öllum ráðum verði

beitt til jöfnunar vöruverðs á milli höfuðborgarsvæðis og landsbyggðarinnar sem gæti stuðlað að jafnvægi í byggðum landsins.
    Þá bind ég miklar vonir við að áform ríkisstjórnarinnar um að flutningur opinberrar þjónustu og stofnana út á landsbyggðina nái fram að ganga eins og aðstæður frekast leyfa. Að því er nú unnið í nefnd með fulltrúum allra þingflokka sem forsrh. hefur skipað.
    Frú forseti. Þrátt fyrir tímabundnar þrengingar er ekki ástæða til bölsýni. Þrátt fyrir allt eigum við af miklum auði miðla. Landið er gjöfult og þjóðin býr yfir menntun, dugnaði og þolgæði sem mun leiða okkur út úr erfiðleikum til bjartari tíma. Óvíða blómstrar jafnfjölskrúðugt menningarlíf og hvergi í heiminum ætti að vera betra að ala upp börn en á Íslandi. Vaxandi ofbeldi og aukin fíkniefnaneysla veldur þó miklum áhyggjum. Hér verður að sporna strax við fótum og grípa til viðeigandi aðgerða sem verja friðinn og tryggja öryggið sem Íslendingar þrá mest af öllu.
    Fólkið í landinu gerir miklar kröfur til stjórnmálamanna um þessar mundir og bindur vonir sínar við það að við leiðum þjóðina út úr yfirstandandi þrengingum. Þeim vonum má ekki bregðast. --- Góðar stundir.