Hækkun raunvaxta hjá Íslandsbanka

30. fundur
Þriðjudaginn 13. október 1992, kl. 13:45:49 (1261)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Virðulegi forseti. Það er alröng ágiskun hjá hv. 2. þm. Vestf. að ég viti um eitthvað þarna á bak við sem ég kjósi að leyna þingið. Það er ekki. Ég bendi einfaldlega á að vextir á Íslandi eru ekki ákveðnir með valdboði ríkisins. Það liggur í hlutarins eðli þegar valddreifing ræður för í vaxtaákvörðunum þá kann svo að vera að menn greini einmitt á um hvað séu eðlilegir vextir á markaðinum. Það vill svo til að Íslandsbanki hefur ákveðið að hækka þarna örlítið. Hann hefur áður kosið að fylgja vaxtabreytingum sem ríkið hefur m.a. haft forgöngu um á þessu ári. Það getur vel verið að þeir hafi sínar ástæður til þess. En þegar á heildina er litið vona ég að ljós lækkunar vaxta muni líka skína yfir þeim.