Endurskoðun laga um fæðingarorlof o.fl.

30. fundur
Þriðjudaginn 13. október 1992, kl. 14:06:42 (1282)

     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. heilbrrh. fyrir svörin. Ég vænti þess svo sannarlega að sú endurskoðun leiði til þess að misræmi, sem vissulega er á greiðslum fæðingarorlofs til kvenna eftir því hjá hvaða vinnuveitanda þær eru, verði leiðrétt. Ég vil í því sambandi benda á hversu mikill munur er á greiðslum til heimavinnandi húsmæðra og þeirra sem eru útivinnandi. Ég vil einnig benda honum á í þessu sambandi að ég tel að það sé meiri þörf á að styrkja foreldra ungra barna en að rýra kjör þeirra. Ég vona því að sú endurskoðun sem nú fer fram muni taka mið af því og bæta hag foreldra ungra barna.