Skipan opinberra framkvæmda og opinber innkaup

30. fundur
Þriðjudaginn 13. október 1992, kl. 14:41:09 (1286)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegi forseti. Það mál sem hér er á dagskrá um breytingar á lögum um skipan opinberra framkvæmda, og lögum nr. 52/1987, um opinber innkaup, með síðari breytingum, kemur til kasta efh.- og viðskn. þar sem sá sem hér stendur situr og er eitt mjög margra mála sem nefndin á eftir að fjalla um á næstu vikum ásamt hefðbundnum haustverkum þeirrar nefndar. Það er kapítuli út af fyrir sig hvernig menn ætla að skipuleggja starf þingsins þannig að hægt verði að komast skammlaust yfir þá vinnu alla saman. En að mínu mati, og það hef ég, virðulegi forseti, áréttað áður í þingræðu, er það lágmarkskrafa að nefndirnar séu búnar að fjalla um og kynna sér rækilega þessi fylgifrumvörp áður en hægt er að fara að hugsa um afgreiðslu samningsins á Alþingi. Það er ekki við almenna nefndarmenn, hvað þá stjórnarandstöðuna, að sakast að sá tími sem átti að vera í sumar til nefndarstarfa var ekki nýttur betur en raun bar vitni. Það hlýtur því allt saman að hafa veruleg áhrif á framgang málsins.
    Ég ætla ekki að fara hér efnislega yfir frv. Það munum við gera í nefndinni undir verkstjórn ágæts formanns sem hefur lagt sig í líma við að afla þeirra upplýsinga sem um er beðið og fara vel yfir málið. Ég ætla hins vegar að koma örfáum orðum að þeim þætti málsins sem lýtur að því hversu vel íslenskir verktakar og íslenskt atvinnulíf er í stakk búið til þess að takast á við ný verkefni ef og þegar við tökum þátt í hinu Evrópska efnahagssvæði.
    Það ber mikið á því í ræðum hæstv. ráðherra núv. ríkisstjórnar að þeir tala um þau stóru tækifæri sem bjóðist á þessum nýja markaði. Ég vil út af fyrir sig ekki neita því að þau kunni að vera til staðar. Ég hef hins vegar bent á það áður úr þessum ræðustól að ríkisstjórnin hafi algerlega gleymt heimavinnunni, þ.e. að skapa atvinnulífinu þann starfsgrundvöll að það verði samkeppnisfært. Og því miður bendir ekkert til þess í dag að ríkisstjórnin sé að breyta um takt.
    Að vísu sagði hæstv. viðskrh. í gær að við meðferð fjárlagafrv. á næstu vikum yrði að gera þar á ákveðnar breytingar. Það yrði að fara í það að afnema veltuskattana, gjaldatengdu skattana af atvinnulífinu, en ég hlýt þá að spyrja: Hvers vegna var það ekki gert í fjárlagavinnunni? Hvers vegna á allt í einu núna að koma fram þegar búið er að leggja fjárlögin fyrir? Málið liggur einfaldlega þannig fyrir í dag að íslenskt atvinnulíf stendur að miklu leyti á brauðfótum. Það er ekki samkeppnisfært á opnum markaði. Það er í því sem hættan gagnvart þessu frv. liggur fyrst og fremst að mínu mati.
    Það er svo annað mál að ýmislegt í textanum, þó að ég segði áðan að ég ætlaði ekki að fara í það efnislega, kemur manni mjög spánskt fyrir sjónir. Þar tek ég undir orð síðasta ræðumanns varðandi d-liðinn. Það er afskaplega óviðfelldið að sjá texta sem þennan í frv. til laga. Þetta er ekki orðinn lagatexti. Það á eftir að reyna það hvort menn vilja halda þessu inni í þessu formi.
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð við 1. umr. Ég treysti því að þetta mál fái vandaða meðferð í nefnd og við fáum þar þær upplýsingar sem við köllum eftir gagnvart einstökum liðum. Ég mun einnig beita mér fyrir því að þeir aðilar sem þurfa að vinna undir þessum lögum, fulltrúar úr viðskiptalífinu og fulltrúar Verktakasambandsins, verði þar kallaðir fyrir og leitað eftir þeirra áliti.