Skipan opinberra framkvæmda og opinber innkaup

30. fundur
Þriðjudaginn 13. október 1992, kl. 15:11:15 (1292)

     Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er rétt sem fram kom hjá hæstv. fjmrh. að þessi samningur gengur auðvitað í báðar áttir. Íslendingar verða að taka á sig ýmsar skyldur samkvæmt honum en þeir hafa líka möguleika til þess að leita út. Það er einu sinni skylda okkar þingmanna að reyna að átta okkur á því hvað frv. af þessu tagi þýðir og hvað það hefur í för með sér fyrir íslenskt atvinnulíf. Og það vill svo til að ástand hér á landi er ekki beysið. Hér eru samdráttartímar og ekki útlit fyrir að úr því dragi á næstunni og því er ástæða til þess að hafa verulegar áhyggjur af verktökum og þeim sem standa í slíkum framkvæmdum. Staða fyrirtækjanna kann að rýra möguleika þeirra til þess að leita til útlanda til að bjóða í verk þar.
    Hæstv. fjmrh. komst svo að orði að stjórnarandstaðan væri altekin af minnimáttarkennd og sæi fyrir sér vonda útlendinga sem myndu steypa Íslendingum í glötun. Þetta er auðvitað alrangt. Við erum fyrst

og fremst að skoða þetta mál eins og önnur frá öllum hliðum og reyna að gera okkur grein fyrir afleiðingum þess. Eins og margoft hefur komið fram hér í þessari umræðu skortir mjög á svör hjá ráðherrum, hverjir sem þeir eru, um áhrif samningsins um hið Evrópska efnahagssvæði og einnig áhrif fylgifrumvarpanna sem honum fylgja.
    Hæstv. ráðherra hefur mikla trú á íslenskum verktökum og vonandi er eitthvað raunhæft í þeirri trú. Hann sagði að hér væri mikið til af tækjum og tólum en þau úreldast auðvitað. Meðan staða fyrirtækjanna er svona léleg eiga þau erfitt með að endurnýja sinn tækjabúnað og fjarlægðin gerir það náttúrlega að verkum að tæki eru dýrari hér en annars staðar. Staða fyrirtækjanna er því einfaldlega svo mismunandi eftir því hvar er í Evrópu. Ég veit að áhyggjuefni þeirra sem eru í verktakabransanum er hin mismunandi staða fyrirtækjanna úti í Evrópu og hér á landi gagnvart þessum breytingum, sem auðvitað er verið að innleiða hér, virðulegi forseti.