Málefni aldraðra

31. fundur
Miðvikudaginn 14. október 1992, kl. 14:03:42 (1301)

     Ingibjörg Pálmadóttir :
    Virðulegi forseti. Hér er til umræðu breytingar á lögum um málefni aldraðra. Breytingar í frv. eru fyrst og fremst fólgnar í því að jafnvel allt fé Framkvæmdasjóðs aldraðra geti farið óhindrað til rekstrar stofnana fyrir aldraða. Það er ekkert þak á því hvað fer til rekstrar og hvað til nýframkvæmda. Í núgildandi lögum er ákvæði um að þriðjungur af heildartekjum sjóðsins geti farið til rekstrar og aðrar tekjur sjóðsins til nýframkvæmda. Það er rétt sem fram kemur í greinargerð með frv. að Framkvæmdasjóður aldraðra hefur á sl. 10 árum átt drjúgan þátt í þeirri gífurlegu uppbyggingu í húsnæðismálum aldraðra og það er líka rétt að nú vantar fjármagn til rekstrar þeirra stofnana. Því má ekki gleyma að Framkvæmdasjóður aldraðra skuldar verulegt fé vegna stofnkostnaðar fyrir nefndar byggingar. Því er spurt: Hversu háar upphæðir skuldar sjóðurinn?
    Það sem hingað til hefur vantað er að gera bindandi samninga um framkvæmdir þannig að þeir sem framkvæma geti treyst mótframlagi sjóðsins á ákveðnum tíma. Ég veit að það hefur verið vilji sjóðstjórnar að gera slíka samninga og spurningin er: Á hverju hefur strandað? Hingað til hafa aðeins verið gerðir 2--3 slíkir bindandi samningar að því er ég best veit. Ég spyr einnig: Verður með frv. algerlega lokað fyrir nýframkvæmdir? Verða engar nýframkvæmdir leyfðar og ef svo er hvernig sér hæstv. ráðherra framtíðina fyrir sér t.d. í Reykjavík?
    En það sem er kannski viðkvæmast í þessu máli er að Framkvæmdasjóður aldraðra er fjármagnaður með svokölluðum nefskatti. Það eru 2.500 kr. á hvern gjaldanda í landinu. Þessi upphæð miðast við byggingarvísitölu í desember 1988 og breytist árlega. Nefskatturinn hefur hingað til verið áætlaður til uppbygginga en ekki til rekstrar. Á sl. ári gaf nefskatturinn 414 millj. kr. í sjóðinn og af því fóru 137 millj. til rekstrar en 277 millj. til nýframkvæmda. Í drögum að fjárlögum þessa árs er áætlað að sjóðurinn fái 425 millj. af hinum margumtalaða nefskatti og af þeim eiga 160 millj. að fara til rekstrar en 265 millj. til nýframkvæmda. Það eiga sem sagt að fara 11 millj. kr. minna til nýframkvæmda í ár en í fyrra þrátt fyrir að sjóðurinn hafi meiri tekjur.
    Að sjálfsögðu er lítið varið í að reisa nýjar byggingar ef ekki er til rekstrarfé. Það þarf auðvitað að tryggja rekstrarfé samhliða framkvæmdum. En ég tel ekki boðlegt að nýta nefskatt 100% til rekstrar. Rekstur þarf að fjármagnast af almennu skattfé. Ég hef tækifæri til að fjalla um frv. í heilbr.- og trn. og vona að hæstv. heilbrrh. svari þeim spurningum sem ég hef lagt fyrir hann. Hæstv. ráðherra hefur eflaust náð spurningunum en ég ætla samt að endurtaka þær:
    1. Hversu mikið skuldar Framkvæmdasjóður aldraðra og ef til nýframkvæmda kemur hvað telur hæstv. ráðherra brýnast að fara út í?
    2. Ef ekki á að fara í neinar nýframkvæmdir, lokar hann algerlega fyrir sjóðinn og hvernig sér hann þá framtíð aldraðra Reykvíkinga ef svo verður?
    Og mig langar einnig að spyrja: Er frv. samið í samvinnu við stjórn Framkvæmdasjóðs aldraðra? Er fyrirhugað að gera bindandi uppgjörssamninga við þá sem sjóðurinn skuldar eða eru að hefja framkvæmdir? Í síðasta lagi en ekki síst: Ef sjóðurinn fer allur til rekstrar og ekkert verður til nýframkvæmda, er þá rétt að halda áfram að fjármagna sjóðinn með nefskattinum?