Málefni aldraðra

31. fundur
Miðvikudaginn 14. október 1992, kl. 14:38:57 (1305)

     Guðmundur Bjarnason :
    Virðulegur forseti. Hæstv. heilbr.- og trmrh. hefur hér lagt fram frv. til breytinga á málefnum aldraðra hvað varðar ráðstöfun á því fé sem innheimtist í Framkvæmdasjóð aldraðra.
    Í framsöguræðu sinni sagði hæstv. ráðherra að hann teldi að um sambærilega breytingu væri að ræða og gerð var á lögunum 1991, samkvæmt frv. sem ég lagði þá fyrir Alþingi, 113. löggjafarþingið árið 1990.
    Ég vil ekki taka undir þá skoðun hæstv. ráðherra að hér sé um sambærilega breytingu að ræða. Þó er það rétt að í því frv., eins og þessu sem hér liggur fyrir, var gert ráð fyrir að sjóðnum væri ekki eingöngu ætlað að styrkja framkvæmdir, heldur mætti einnig verja hluta af ráðstöfunarfé hans til rekstursverkefna.
    Hæstv. ráðherra sagði að verið væri að gera bragarbót á núgildandi lögum og að nú væri heimilt að greiða fyrir rekstur stofnana og verja stærri hluta, kannski öllum sjóðnum til slíkra mála. Ég tel að hér sé verið að fara inn á vafasama braut hvað það varðar að nýta nefskatt að fullu eða öllu á þennan hátt.
    Í greinargerð frv. sem ég lagði fyrir hv. Alþingi árið 1990 segir m.a. svo, með leyfi forseta:
    ,,Breytingar þær sem talið er nauðsynlegt að gera á hlutverki Framkvæmdasjóðs aldraðra eru báðar þess eðlis að þær rýmka hlutverk hans. Fyrri breytingin lýtur að því að sjóðnum sé heimilt að styrkja viðhaldsframkvæmdir á þeim stofnunum aldraðra sem þegar eru starfandi.`` Síðar segir: ,,Síðari breytingin er viðbrögð við þeim vanda sem iðulega verður þegar öldrunarstofnun fær starfsleyfi eða breytingu á starfsleyfi eftir að fjárlagaár hefst og ekki var gert ráð fyrir nýrri stofnun eða breytingu við fjárlagagerð.``
    Hér var um mjög afmarkað verkefni að ræða sem átti að miðast við tiltekið ástand og síðan var kveðið skýrt á um það í frv. og í núgildandi lögum, því frv. var samþykkt nánast óbreytt, að það væri aðeins allt að þriðjungi af árlegu ráðstöfunarfé sjóðsins sem verja mætti til þessara nýju verkefna.
    Nú er hins vegar gerð róttæk breyting þar sem segir í greinargerð þess frv., sem er til umræðu, með leyfi forseta: ,,Í ljósi þess samdráttar sem er í útgjöldum til heilbrigðismála sýnist eðlilegt að rýmka þessa heimild og sömuleiðis fella niður skilyrði um að aldrei megi verja nema tilteknum hluta sjóðsins til nánar tilgreindra verkefna. Þegar svo er komið að uppbygging húsnæðismála aldraðra er orðin svo mikil að víða er framboð umfram eftirspurn hlýtur að vera skynsamlegara að verja fjármunum sjóðsins til reksturs og eflingar heimaþjónustu sveitarfélaga og heilsugæslustöðva fremur en til framkvæmda.``
    Mig langar í fyrsta lagi að spyrja hæstv. ráðherra hvort það sé virkilega skoðun hans að víða sé framboð umfram eftirspurn í húsnæðismálum aldraðra. Ég leyfi mér að efast um það þó kannski megi finna þess stað á einstöku stað eða svæði að eftirspurninni sé fullnægt. En að það sé víða umframeftirspurn leyfi ég mér að efast um.
    Í örðu lagi finnst mér ástæða til að velta því upp og spyrja hv. stjórnarþingmenn hvort þeim finnist þetta eðlileg ráðstöfun á nefskatti að taka hann, eins og hér er gert ráð fyrir, algerlega til rekstrarverkefna?
    Ég man eftir umræðu á hinu háa Alþingi um nefskatt. Ekki eingöngu í þessum tilgangi, sem hér er þó gert ráð fyrir, þ.e. til verkefna á vegum aldraðra, heldur nefskatt almennt og þær skoðanir að draga bæri úr mörkuðum tekjustofnum og bæri að varast að binda svo hendur Alþingis, fjárveitingavaldsins, að skattheimtan væri mörkuð ákveðnum verkefnum. Ég fyrir mína parta get tekið undir þau sjónarmið. Ég held að ég hafi gert það áður í umræðum í þinginu, en taldi þó réttlætanlegt að styðja nefskatt til Framkvæmdasjóðs aldraðra vegna þeirra brýnu verkefna sem þar væru fram undan og tel reyndar að svo sé enn að við eigum enn þá ýmis mál óleyst hvað þennan málaflokk varðar og ýmislegt sem þurfi að styrkja í þjónustu við aldraða.
    En við þurfum vissulega að huga að nýjum áherslum í því efni eins og gert var í sambandi við breytingarnar 1991. Þá voru teknar upp heimildir til að styrkja og styðja við heimahjúkrun t.d. Ég held að

við ættum að leggja aukna áherslu á endurhæfingarstofnanir fyrir aldraðra. Ég er alveg sannfærður um að það er mjög mikilvægt að búa betur að þeirri þjónustu í þessum málaflokki hvað öldrunarmálin varðar. Ég býst við að það verði rætt hér síðar í dag í boðuðum utandagskrárumræðum um Kristnesspítala sem hefur að undanförnu verið í uppbyggingu sem endurhæfingarstofnun. En það þarf að huga að breyttum áherslum og það má leggja fjármuni til ákveðinna einstakra verkefna annarra en beinlínis að byggja hús.
    Þegar komið er að því að við teljum okkur ekki hafa lengur efni á að reka þær stofnanir sem þegar hafa verið byggðar, eins og látið er liggja að hér í ljósi þess samdráttar og þeirra erfiðleika sem nú blasa við í ríkisfjármálum, er vafasamt hvort réttlætanlegt er að innheimta sérstakan nefskatt í þessu skyni.
    Mig langar að beina því til hæstv. ráðherra í þessum erfiðleikum sem nú blasa við ríkissjóði og ekki síst hans málaflokki að vonandi sé um að ræða tímabundið ástand og við náum senn vopnum okkar á nýjan leik og getum haldið áfram að treysta og styrkja okkar velferðarkerfi, þar á meðal heilbrigðisþjónustuna og þjónustu við aldrað fólk, hvort ekki hefði verið skynsamlegra að setja í þessi lög nú ákvæði til bráðabirgða ef menn vilja ekki hreinlega fella niður þennan nefskatt og viðurkenna að það sé eðlilegra að innheimta skattana með öðru móti, í gegnum tekjuskatt og aðra skattstofna sem við höfum nýtt til rekstrarverkefna. Þá væri ef til vill réttlætanlegt að setja tímabundið inn ákvæði til bráðabirgða um að heimilt væri í ár eða á næsta ári að verja fjármunum þessa sjóðs til rekstrarverkefna.
    Við höfum nú þegar byggt upp t.d. myndarlega stofnun, nýtt hjúkrunarheimili inni í Grafarvoginum, sem nefnt hefur verið Eir og mér skilst að ráðherra eða ríkisstjórn treysti sér ekki til að taka í rekstur. Svo mun vera um fleiri stofnanir á vegum ríkisins. Ég nefni líka heimili fyrir fjölfatlaða sem byggt hefur verið upp á Reykjalundi og menn treysta sér ekki heldur til að taka í rekstur á næsta ári. Það stendur þar ónotað og bíður.
    Það er þess vegna ekkert vafamál að hér verður að grípa til aðgerða til að bregðast við. Þess vegna finnst mér að ef til vill hefði mátt líta á málið með þeim hætti, því ekki er gert ráð fyrir neinum breytingum á innheimtu nefskattsins svokallaða, að þessi sjóður renni tímabundið til einhverra slíkra verkefna.
    Ég vil aftur ítreka þann mismun sem ég tel vera á þessu frv. og þeim breytingum sem gerðar voru á þinginu 1990--1991 varðandi verkefni sjóðsins. Þar var um að ræða afmarkað ákvæði, að heimila að ákveðinn hluti sjóðsins rynni tímabundið til rekstrarverkefna.
    Nú kann að vera að eitthvað af þeim fjármunum sem þannig áttu að renna til rekstrarverkefna hafi ekki verið eingöngu bundnir við nýju stofnanirnar eða stofnanir sem verið var að breyta, eins og einnig var greint frá í greinargerð þess frv., þ.e. breyta t.d. dvalarheimilum í þjónustu- eða hjúkrunarrými, heldur farið í almennan rekstur. Þá ber að harma það því þá hefur ekki verið farið að lagatilmælum. En svo kann að vera að það hafi verið gert í einhverjum tilvikum. En það réttlætir ekki þá breytingu sem hér er boðuð. Ég fyrir mína parta varpa fram þeirri hugmynd að ef til vill gætu menn sæst á að breytingar væru gerðar tímabundið vegna þess vanda sem við stöndum frammi fyrir.
    Í umræðum um frv. á þinginu 1990--1991 komu m.a. fram þær skoðanir sumra þingmanna að sú opnun sem þar var gerð gæti leitt til þess að síðar yrði gengið lengra. Ég man eftir því að t.d. hv. þáv. þm. Guðmundur H. Garðarsson ræddi þá hættu. Sá sem hér stendur og var í forsvari fyrir því frv. taldi að ekki væru miklar hættur á því, hér væri um að ræða svo afmarkaða ráðstöfun og skýrt skilgreinda að við þyrftum ekki að óttast slíka breytingu. En því miður hefur hv. þm., nafni minn Guðmundur H. Garðarsson, verið raunsærri en sá sem hér stendur hvað þetta varðar. Reynslan sýnir okkur og segir nú að menn hafa talið mögulegt að ganga lengra og telja breytingarnar sem nú eru lagðar til sambærilegar við þær sem áður voru gerðar. Ég hef þó reynt að rekja í máli mínu að ég tel svo ekki vera.
    Mig langar aðeins að lokum, virðulegur forseti, að spyrja hæstv. ráðherra, ef hann hefur yfirlit yfir það í fórum sínum nú, það er auðvitað ekki víst að svo sé, hvað byggingarkostnaður við þessa nýju stofnun, hjúkrunarheimilið í Grafarvoginum, er orðinn mikill. Hver er kostnaðurinn þar á legurými og aðrar þær viðmiðanir sem menn nota þegar metinn er byggingarkostnaður, t.d. á fermetra eða rúmmetra? Ég óttast að hér sé um að ræða afar dýra og kostnaðarsama byggingu og e.t.v. gætum við hagað okkur öðruvísi í uppbygginu öldrunarþjónustunnar en þar er gert, byggt ódýrari og hagkvæmari byggingar. Ég skal þó ekkert meta það, ég þekki ekki þessa byggingu og veit að henni eru ætluð líka sérstök afmörkuð verkefni, eins og hér kom fram í máli hv. þm. Svavars Gestssonar áðan, að veita Alzheimer-sjúklingum eða öldruðum einstaklingum með hrörnunarsjúkdóma þjónustu. Þarf sjálfsagt að huga sérstaklega að þörfum þeirra í uppbyggingu. Ég leyfi mér þó að endurtaka það sem ég sagði áðan að við þurfum að huga að nýjum þáttum og nýjum áherslum í þjónustunni við aldraða, t.d. aukinni og bættri heimahjúkrun, þjónustu við aldraða á sínum heimilum þannig að ekki þurfi að safna þeim saman á stofnanir eða í blokkir sem þeim eru sérstaklega ætlaðar eins og hv. þm. Guðrún Helgadóttir rakti hér ítarlega áðan. Við þurfum að leggja áherslu á endurhæfingarþáttinn sem ég veit að landlæknisembættið hefur t.d. lagt mikla áherslu á að þurfi að styrkja til að þessir einstaklingar og auðvitað ýmsir aðrir, sem á endurhæfingu þurfa að halda, ekki síst aldraðir, geti lengur búið við eðlilegar aðstæður ef það má orða það svo á sínum heimilum og í því umhverfi sem þeir hafa kosið sér að búa.
    Ég ætla ekki að hafa um þetta fleiri orð, virðulegi forseti, en leyfi mér að vara við þeim breytingum sem hér eru boðaðar, að opna alfarið heimild til að verja öllum framkvæmdasjóðnum og þessum nefskatti, sem réttlættur var með því að takast yrði á við brýnar framkvæmdir í uppbyggingu öldrunarþjónustu, taka það fé allt saman til rekstrarverkefna. Hins vegar hef ég bent á að hugsanlega mætti fara aðrar leiðir í tímabundnu erfiðleikaástandi í ríkisfjármálum.