Málefni aldraðra

31. fundur
Miðvikudaginn 14. október 1992, kl. 15:39:58 (1315)

     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) (andsvar) :
    Virðuleg forseti. Ég gat þess aðeins að í umræddu bréfi, sem var skrifað 29. apríl árið 1991, tveimur dögum eða kannski ekki nema einum sólarhring áður en skipt var um ríkisstjórn í þessu ágæta landi, væri gert ráð fyrir því að 107 millj. kr. væru fluttar af fé Framkvæmdasjóðs aldraðra til sjúkratryggingadeildar Tryggingastofnunar ríkisins til þess að greiða ótilgreindan rekstrarkostnað vegna stofnana aldraðra. Ég greindi einnig frá því að niðurstaða Ríkisendurskoðunar hafi verið sú að þessi gjörningur stæðist ekki lög og að með ýtrasta góðvilja væri hægt að finna verkefni upp á 30 millj. kr. rúmlega sem hægt væri að heimfæra undir lögin en 70 millj. kr. hefðu verið millifærðar með þessum hætti í heimildarleysi.
    Ég vildi aðeins vekja athygli á þessu til þess að sýna fram á að það er svo sem ekki nýtt að mönnum hafi dottið í hug að verja hluta af fé Framkvæmdasjóðs aldraðra til að kosta nauðsynlega starfsemi í þágu aldraðs fólks.