Kristnesspítali

31. fundur
Miðvikudaginn 14. október 1992, kl. 15:49:38 (1322)

     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :

    Virðulegi forseti. Kristnesspítali hefur verið ríkisspítali frá þeim tíma að Heilsuhælisfélag Norðurlands afhenti ríkisstjórn Íslands spítalann til rekstrar og þar með eignar árið 1927. Spítalinn var lengi rekinn sem berklahæli en síðan tók hann við því hlutverki að vista langlegusjúklinga þótt ekki væru þeir berklaveikir. Það var síðan í september 1976 að þáv. heilbr.- og trmrh. Matthías Bjarnason ákvað að spítalinn skyldi rekinn sem hjúkrunar- og endurhæfingarspítali. Þrátt fyrir þetta hefur orðið minna úr endurhæfingarstarfseminni en til stóð, m.a. vegna þess að húskynni hafa ekki leyft þær breytingar og ekki fengist þær stöðuheimildir sem nauðsynlegar eru.
    Í ágúst 1986 samþykkti stjórnarnefnd Ríkisspítalanna nýja starfsemis- og byggingaáætlun til næstu sex ára en þeim framkvæmdum hefur lítið miðað áfram og munu taka miklu lengri tíma en gert var ráð fyrir. Það hefur komið fram, bæði hjá stjórnendum Kristnesspítala og stjórnarnefnd Ríkisspítala að ýmsir vankantar séu á núverandi stjórnarfyrirkomulagi, þ.e. að Kristnesspítali teljist til Ríkisspítala og sé stjórnað úr Reykjavík af forstjóra og stjórnarnefnd. Ég vil aðeins upplýsa í þessu sambandi að ég hef skýrt forstjóra og formanni stjórnarnefndar frá því með talsverðum fyrirvara að fyrirhugaðar væru verulegar breytingar á rekstri Kristnesspítala. Það er síðan að sjálfsögðu þeirra ákvörðun hvenær það mál er skýrt frekar fyrir öðrum aðilum.
    Ég skipaði nefnd til þess að skoða möguleika um framtíðarrekstur Kristnesspítala 6. ágúst 1991. Hún skilaði tillögu 12. nóv. Hún lagði til að stofnað yrði til sjálfstæðs spítalareksturs um heilsugæslu og öldrunarþjónustu á þessu svæði. Tillaga hennar númer tvö var tilflutningur og starfstengsl við Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri. Ekki varð af þessu ráði, m.a. vegna þess að ég ræddi við forsvarsmenn Eyjafjarðasveitar hvort þeir væru viljugir að taka á sig þá byrði sem felst í því að taka þátt í stofnkostnaði við rekstur slíks sjúkrahúss og vildi einnig ræða málið nokkuð nánar við Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri og Ríkisspítalana.
    Það er hins vegar rétt að gert er ráð fyrir því í fjárlagafrv. að lækka kostnað vegna rekstrar Kristnesspítala um 40 millj. kr. Samkvæmt þeim upplýsingum sem heilbrrn. hefur er rekstur Kristnesspítala mjög dýr, nokkuð dýrari en annarra sambærilegra stofnana. Það stafar m.a. af því að þarna eru að mig minnir, ég held ég fari rétt með, 16 starfsmannaíbúðir og 3 einbýlishús í tengslum við spítalann sem spítalareksturinn þarf að kosta.
    Ég skrifaði þann 12. okt. svofellt bréf til skrifstofustjóra Guðjóns Magnússonar í heilbrrn. og þeirra annarra sem í bréfinu eru nefndir:
    ,,Heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að skipa nefnd til að gera tillögur um framtíð Kristnesspítala. Verkefni nefndarinnar er að athuga möguleikana á að leggja starfsemi spítalans niður og vista sjúklinga á öðrum stofnunum Norðurlands eða leita annarra leiða til þess að rekstur Kristnesspítala geti verið innan þess ramma sem fjárlagafrumvarp ársins 1993 gerir ráð fyrir.
    Í nefndinni eiga sæti Halldór Jónsson bæjarstjóri, tilnefndur af Akureyrarbæ, Pétur Þór Jónasson sveitarstjóri, tilnefndur af Eyjafjarðarsveit, Davíð Á. Gunnarsson forstjóri, tilnefndur af stjórnarnefnd Ríkisspítala, Ólafur Hjálmarsson deildarstjóri, tilnefndur af fjmrh. og Guðjón Magnússon, skrifstofustjóri í heilbrrn., sem jafnframt er formaður nefndarinnar.``
    Þetta bréf ritaði ég þessum aðilum og geri sem sé ráð fyrir því að þeir kanni möguleikana á hvaða leiðir eru í boði til þess að tryggja að rekstur Kristnesspítala verði innan þess ramma sem fjárlagafrv. ársins 1993 gerir ráð fyrir.
    Það er auðvitað ljóst að þegar ætlast er til að dregið sé úr kostnaði við spítalarekstur í landinu verða menn að skoða þá þætti sem menn hafa áður verið að huga að í sambandi við hugsanlegan tilflutning á stjórn og hagræðingu og einnig þá þætti í þessum rekstri sem skera sig úr fyrir það að þeir eru eilítið dýrari en aðrir. Þetta er einn kostur. Hann verður að skoða og þessi kostur verður skoðaður með það að markmiði að rekstur Kristnesspítala, ef framhald verður á honum, sem við skulum vona, geti verið innan ramma fjárlaga.