Málefni Kópavogshælis

32. fundur
Fimmtudaginn 15. október 1992, kl. 10:39:15 (1342)

     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Það er alveg rétt hjá hv. þm. að hér er ekki um að ræða neina meiri háttar stefnubreytingu í rekstri Kópavogshælis. Það sem verið er að tryggja með þessari tillögu er að sú endurhæfingaraðstaða sem byggð hefur verið upp á Kópavogshæli verði áfram til afnota fyrir Ríkisspítalana. Það fólk sem er á Kópavogshæli nú mun áfram fá vistun þar og áfram verður stefnt að því, eins og fram hefur komið, að það fólk sem getur farið á sambýli útskrifist af Kópavogshæli og inn á sambýli á vegum félmrn. en í þessari tillögu er jafnframt fólgin fullvissa um það að þetta fólk mun áfram fá að vera á Kópavogshæli eins lengi og það þarf og fá þar fullkomna þjónustu.
    Það er hins vegar alveg rétt hjá hv. þm. og ég er henni sammála um það að til sé fólk sem vegna fötlunar sinnar þarf ávallt að vera á sjúkrastofnun þó svo það sé greint þroskaheft. Sumt af því fólki er nú á Kópavogshæli. Sumt af því fólki er í öðrum sjúkrastofnunum og ég er ekki þeirrar skoðunar eins og sumir eru að það sé hægt að gera ráð fyrir því að allt þetta fólk geti útskrifast á sambýli. Það er ekki hægt að mínu viti þó svo að sú hafi verið skoðun ýmissa aðila, mér skilst að það hafi t.d. verið skoðun þeirra sem ráða málum hjá Þroskahjálp. Ég er hins vegar ekki þeirrar skoðunar og Kópavogshælið eða réttara sagt

Ríkisspítalarnir munu áfram tryggja sjúkrahúsvistun fyrir þetta fólk þannig að hér er ekki um að ræða eins róttæka breytingu og verið er að gera ráð fyrir.
    Þessi formlega breyting, nafnbreyting, getur ekki orðið 1. jan. 1993 heldur í fyrsta lagi 1. febr. 1993 en ég legg áherslu á það að þarna er raunverulega ekki um að ræða nema nafnbreytingu, nema þá ákvörðun að endurhæfingaraðstaðan í Kópavogi muni í framtíðinni vera nýtt fyrir Ríkisspítalana í miklum mæli sem hún þarf ekki að nýtast þeim sem verða til frambúðar vistaðir á Kópavogshæli. (Forseti hringir.) Þeir munu hafa forgang að þeirri aðstöðu og ég ítreka að það er ekki gert ráð fyrir því, hvorki í samþykkt stjórnarnefndar né í fjárlögum, að neinu fé verði varið sérstaklega á árinu 1993 til þess að byggja upp aðstöðuna í Kópavogi.